Á ensku merkir orðið „Pollaganda“ þegar fjölmiðlar nota skoðanakannanir til að stjórna almenningsálitinu og koma sínum uppáhalds frambjóðanda eða flokki á framfæri, á meðan þeir þykjast vera hlutlausir.
Kannanirnar eru þá pantaðar þannig að fyrst eru áhorfendur mataðir á „fréttum“ sem sveigja skoðanir þeirra í átt sem fjölmiðlar vilja og síðan er hringt í þá og þeir spurðir leiðandi spurninga. Auðvitað eru niðurstöðurnar frambjóðandanum og flokknum í hag.
Fjölmiðlar slá svo þessum niðurstöðum fram eins og einhverjum stórasannleika og snúa þannig grunlausum almenningi á sveif með frambjóðandanum þeirra.
Stundum er úrtakið svo lítið að niðurstaðan er ekki marktæk. Samt hafa fjölmiðlar slegið upp stórum fyrirsögnum um kannanir með færri en 350 svarendur þegar það hentar þeim.
Fjölmiðlar hafa gífurlegt vald til að móta skoðanir almennings. Þeir geta upphafið einstakling sem hentar hagsmunum þeirra og sleppt því að minnast á þá sem henta ekki. Ég til dæmis stend fyrir breytingar í samfélaginu, jöfnuð og gagnsæi og meira vald til fólksins. Þessu eru valdablokkirnar að baki fjölmiðla ekki hrifnar af og þess vegna er þagað um mig.
Niðurstöður kannana nú í forsetakosningunum segja því meira um hversu oft hefur verið fjallað um viðkomandi frambjóðanda og þá líka hversu oft nafni einstakra frambjóðanda var viljandi sleppt, heldur en hvernig forseta fólkið vill. Þessar niðurstöður varpa því skýru ljósi á hvernig fjölmiðlar hafa mótað umræðuna. Fjölmiðlar eru að ákveða fyrir okkur hvernig forseta við viljum.
Þegar fjölmiðlar gera kannanir þar sem boðið stendur aðeins á milli örfárra, er eins og að fara á veitingastað þar sem níu réttir eru í boði, en við fáum aðeins að velja milli tveggja rétta, saltfisks eða saltkjöts. Við erum orðin þreytt á söltum mat og viljum fara að borða eitthvað ferskara.
Vegna þessa hafa 38 lönd ákveðið að banna birtingu skoðanakannana fyrir kosningar. Þetta eru lönd eins og Noregur, Kanada, Pólland, Grikkland, Bútan og Brasilía, þar sem lýðræði er greinilega lengra komið en hjá okkur. Í sumum löndum, eins og Monte Negro, má ríkisfjölmiðillinn aldrei birta neinar skoðanakannanir.
Með svona vinnubrögðum er verið að taka fram fyrir hendurnar á okkur og segja okkur hvað okkur á að finnast. Eins og við séum svo miklir kjánar að við getum ekki ákveðið sjálf.
Við erum fullorðið fólk og fullfær um að mynda okkar eigin skoðanir. Við þurfum ekki að láta mata okkur á hvað valdhafar telja vera best fyrir land og þjóð. Sérstaklega þar sem hagsmunir valdhafa og fólksins eru svo gjörsamlega á skjön.
Eigum við að samþykkja þessi vinnubrögð? Eigum við að taka þegjandi og hljóðalaust við öllu sem fyrir okkur er lagt? Eigum við að láta mata okkur á skoðunum og viðhorfum?
Ég skora á fjölmiðla að hætta með skoðanakannanir og fjalla jafnt um alla frambjóðendur.
Höfundur er þjóðfræðingur, rithöfundur og forsetaframbjóðandi.