Ísland er ótrúlegt land af mörgum ólíkum ástæðum. Landslagið er einstakt og menningin engri lík, með sögu sem nær lengra aftur en hjá flestum löndum, og Ísland er öfundað af öðrum löndum fyrir framtakssemi og staðfestu.
Ég hef verið svo heppin að fá að heimsækja Ísland nokkrum sinnum, síðast sem fyrirlesari á ráðstefnunni Point Zero sem haldin var árið 2015, og er persónulega mjög hrifin af landinu. Íslenskur frumkvöðlaandi og úrræðasemi er á pari við það sem best gerist í heiminum.
Bakgrunnur minn er að ég er alþjóðlegur sérfræðingur í deilihagkerfinu. Annars vegar er ég að vinna með fyrirtækjum sem eru að byggja upp deilihagkerfi, og hins vegar er ég að vinna með stjórnvöldum og stefnumarkendum við að skilja deilihagkerfið og hvernig er hægt að nýta það til þess örva efnahagslegan vöxt, sjálfbærni og vitræna þróun borga. Ég hef unnið í meira en 50 ríkjum, sex heimsálfum og innan ótal menningarkima á starfsævi minni. Ein margra spurninga sem ég er spurð að viðkemur því að setja hluti í alþjóðlegt samhengi: hvernig stendur viðkomandi borg og eða viðkomandi land í samanburði við önnur lönd?
Vegna þess hversu sérstakt dálæti ég hef á Íslandi, og út frá umræðu hérlendis um heimagistingu og skammtímaútleigu húsnæðis fann ég mig knúna til að skrifa þessa óumbeðnu grein.
Ég fagna því að Alþingi sé að lögleiða heimagistingu og gera það auðvelt fyrir íbúðaeigendur að taka þátt í deilihagkerfinu. Löggjöfin er klárlega skref í rétta átt og setur Ísland á stall með mörgum öðrum löndum í Evrópu og annars staðar. Þrátt fyrir það þá er ég vonsvikin að sjá hversu fáar rannsóknir stjórnvöld hafa gert á því hvernig aðrar borgir og lönd hafa tekist á við lykilatriði, þar á meðal bestu starfsvenjur sem til eru.
Afleiðingin eru lög sem eru allt of flókin og óhóflega ströng, á sama tíma þá skilja þau eftir sig gloppur verða nánast örugglega til vandræða í framtíðinni. Ennfremur er það jafnmikið áhyggjuefni, frá mínum bæjardyrum séð, að fordæmisgildi laganna gætu óvart orðið til þess að bjaga umræðuna um aðra geira innan deilihagkerfisins í framtíðinni.
Í vinnu minni við að móta stefnu við heimagistingu og skammtímaleigu, sem er unnin í samstarfi við fjöldann allan af ríkisstjórnum, hef ég reglulega séð eftirfarandi fimm atriði við stefnumörkun:
- Takmörkun á tíma og rými: Er takmörkun á fjölda daga eða takmörkun á því rými sem einstaklingur getur deilt með sér?
- Skattlagning: eru tekjur af heimagistingu skattlagðar, og ef svo er , eru til ferlar fyrir skattheimtuna? Eru aðrir skattar, sem settir eru á ferðaþjónustuna eins og til að mynda gistináttaskattur, teknir til greina?
- Öryggi: Eru öryggiskvaðir á húseigendur?
- Skráning: Þurfa gestgjafar að skrá sig einhvers staðar eða sækja um leyfisveitingar umfram það að skrá sig til þess að bóka heimagistinguna á viðeigandi vettvangi?
- Heimili eða frístundaeignir: eru mismunandi reglur eftir eðli eigna, hvort eignin sé heimili eða frístundaeign?
Svo það sé alveg skýrt þá er hver staður, hvert land einstakt - og þessi vandamál eru ekki tækluð alls staðar - en þetta eru þau vandamál sem ég tel vera mikilvægust að taka á, þar með talið á Íslandi.
Íslensku lögin eru meðal þeirra mest hamlandi sem ég hef skoðað, sérstaklega horfandi á tíma- og rýmistakmarkanir. 90 daga takmörkunin, sem lögin bjóða upp á fyrir allt að tvær íbúðir (samanlagt) er óvenjuleg; á flestum stöðum eru 90 til 180 dagar á hverja eign hefðbundið viðmið. Í sumum norrænum ríkjum þá er takmörkunin miðuð við fjölda herbergja eða rúma, á meðan restin af heiminum einbeitir sér að því að takmarka daga á hverja eign.
Reglurnar um að hafa tekjuhámark upp á tvær milljónir íslenskra króna er eitthvað sem ég hef aldrei séð áður. Viðmiðunarmörk á tekjum hafa þó komið upp í umræðunni um deilihagkerfið, sem lágmörk fyrir skattlagningu (Bretar leyfa t.a.m. tekjur upp að 7.500 pundum á ári skattfrjálst fyrir að leigja út herbergi). En tekjuhámörk eru mjög sjaldgæf; ég hef ekki séð það gert annars staðar í sambandi við deilihagkerfið. Eins og stefnumarkendur ættu að vita, gera tekjuhámörk það eitt að hrekja fólk í „svarta“ atvinnustarfsemi eftir að hámarkinu er náð, sem gerir verkefnið talsvert erfiðara fyrir löggjafann en að finna út hvernig skal eyða auka skatttekjum.
Það að setja í lög að tekjuhámark sé sameiginlegt með lögheimili og frístundaeignum skautar yfir þá mikilvægu aðgreiningu sem í orðunum felst. Það er að verða algengara og algengara að þróa mismunandi reglur fyrir þessar mismunandi gerðir eigna. Reglur og lög yfir lögheimili eru yfirleitt mjög rúmar þar sem hver manneskja getur einungis átt eitt lögheimili og það að leigja það út stöku sinnum á meðan eigendur eru í burtu mun ekki raska fjölbýli eða hverfi þar sem leigt er út, þó svo að báðir þessir hugsanlegu neikvæðu kostir séu umhugsunarefni á Íslandi. Hins vegar eru yfirleitt strangari reglur settar á frístundaeignirnar.
Munurinn milli lögheimila og frístundaheimila er álíka mikilvægur og munurinn milli þeirra sem gera þetta að atvinnu sinni og hinna sem gera það ekki. Að mestu leyti eru þeir sem deila íbúðunum sjaldan ekki að gera það í atvinnuskyni og allar tekjur sem vinnast af því eru einungis aukatekjur (þessi tegund tekna er sú sem breska reglugerðin miðar að því að auka). Þeir sem deila íbúðunum sínum í atvinnuskyni eru á hinn bóginn að gera það með því markmiði að af þeim stafi meirihluti tekna þeirra. Að deila íbúð í atvinnuskyni eða ekki er þess vegna ekki einföld tala sem hægt er að miða við. Væri þá ekki eðlilegast að, í staðinn fyrir að einblína á tekjuhámörk, hvetja Íslendinga til þess að deila lögheimilum sínum með ferðamönnum eins mikið og þeir vilja?
Ef við skoðum deilihagkerfið í stóru myndinni, þá hef ég áhyggjur af því að sama afstaða verði tekin með aðrar atvinnugreinar í framtíðinni. Munum við sjá takmarkanir á stærð skrifstofurýmis sem hægt er að deila, eða þjónustu í eftirspurn, félagslegri starfsemi eins og að starfrækja róluvelli eða bílför sem eru partur af deilihagkerfinu? Þessi lög sem eru nú til umræðu á Alþingi gefa öðrum, óskrifuðum lögum sem fjalla eiga um deilihagkerfið mjög íþyngjandi fordæmi. Ég er ekki viss um að löggjafinn hafi tekið áhrifin af svona þvingandi lögum fyllilega til greina þegar lögin voru samin, og það er það sem heldur mér vakandi (fyrir utan miðnætursólina á sumrin á Íslandi).
Ég hlakkaði til að skrifa um deilihagkerfið á Íslandi en mig óraði ekki fyrir því að ég myndi gera það undir kringumstæðum sem þessum. Ísland hefur möguleika á að gegna leiðandi hlutverki meðal Norðurlanda þegar kemur að deilihagkerfinu, sérstaklega þegar litið er til sjálfbærrar ferðaþjónustu. Því miður þá tel ég að lögin sem liggja fyrir á Alþingi myndu hindra þá vegferð. Ég vil því hvetja Alþingi til þess að endurhugsa lögin, fresta ákvarðanatökunni þangað til að það hafa farið fram frekari rannsóknir á því sem er að gerast annars staðar og beita sér fyrir umræðu, sem gæti mótað betri löggjöf en nú er verið að tala fyrir. Skynsamlegur, alþjóðlegur vöxtur á Íslandi í framtíðinni veltur á þessu.
April Rinne vinnur sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir fyrirtæki í deilihagkerfinu, stjórnvöld, stefnumarkendur og fjárfesta ásamt því að taka þátt í „think tanks“ út um allan heim. Hún er „Young Global Leader“ hjá World Economic Forum, en þar leiðir hún hóp sem rannsakar deilihagkerfið. Ennfremur þá er April ferðalangur og hefur hún sótt heim 93 lönd(við síðustu talningu).