Davíð Oddsson segir, í samtali við Spegilinn, að eftir að hafa lesið Al Thani dóminn finnist sér líklegra en hitt að pottur hafi verið brotinn í kaupunum á Búnaðarbankanum. Eins og komið hefur fram, hefur Umboðsmaður Alþingis undir höndum nýjar upplýsingar um að þýski bankinn sem átti að vera kjölfestufjárfestir í bankanum hafi hugsanlega ekki verið raunverulegur fjárfestir.
„Ég er ekki viss um að einhver nefnd á vegum Alþingis hafi nægilega sterka stöðu til að gera það. Mér finnst að frá upphafi eigi lögreglan að vera með í þessu. Þó að menn haldi kannski að mál kunni að vera fyrnd þá er það ekki endilega víst. Það gæti verið að menn hafi haldið málinu gangandi og þar með lengt fyrningarfrestinn,“ sagir Davíð Oddsson í viðtali í Speglinum í gær.
Þetta eru athyglisverð ummæli, ekki síst í ljósi þess að Davíð var í fremstu víglínu stjórnmálanna þegar bankarnir voru einkavæddir. Þetta ætti því að standa honum nærri.
Það er auðvitað grafalvarlegt mál, óháð því að þrettán ár séu liðin frá sölunni á Búnaðarbankanum, ef það voru svik og falsanir í gangi þegar bankinn var keyptur. Það er ólíðandi.
Það er ekki eftir neinu að bíða, og mikilvægt að velta við öllum steinum, til að fá fram sannleikann í málinu.