Ég var stödd á afmælishátíð sem haldin var í Þjóðleikhúsinu og eftir verulega góða sýningu safnaðist fólkið saman og fékk sér kaffi og ‘meððí’, og kannski eitthvað sterkara. Þar voru ýmsir á svæðinu og meira að segja var danska drottningin mætt en ég sá nú bara einu sinni rétt í hárgreiðsluna hennar, því í kringum hana var svo þéttur veggur pólitíkusa.
Á afmælishátíðinni hitti ég gamlan kennara úr framhaldsskóla, konu sem mér þótti afar almennileg á alla vegu og gaf mig á tal við hana. Eftir stutt spjall snýr sér ungur maður að okkur og stingur sér inn í samtalið. Kennarinn kynnir okkur, þó gerði ég mér vel grein fyrir hver þarna væri á ferð því þetta var upprennandi tónlistarmaður með meiru, þekktur fyrir einlægan söng og tilgerðarleysi, og í töluverðu uppáhaldi hjá mér. Má segja að heldur hafi hýrnað yfir minni, enda myndarlegur í þokkabót. Spjallið hélt áfram, og náði yfir heima og geima, menn vönduðu sig á öllum vígstöðvum eða allavega málstöðvum.
Nokkru síðar hitti ég þennan tiltekna tónlistarmann aftur í afmæli, sem var reyndar á öðrum mælikvarða en flest og nóg af vel þekktum Íslendingum á svæðinu. Þó var ég þarna svona eiginlega sem +1. Í millitíðinni hafði heldur betur borið til tíðinda hjá tónlistarmanninum, ferillinn var á hraðri uppleið og nafn hans á flestra vörum. Ég heilsaði en mér til mikillar undrunar var mér ekki heilsaði til baka, heldur horft í gegnum mig og snúið sér að næsta þekkta Íslendingi.
Mín var nú frekar skúffuð að hafa ekki einu sinni fengið eitt lítið ‘hæ’, en hvað um það, kannski mundi hann ekkert eftir samtalinu og sennilega var hann búinn að eiga í hundruðum slíkra samtala í millitíðinni. Svona er það bara, minnið er fallvalt eða var það frægðin!
Ekki löngu síðar mætumst við á förnum vegi. Ég gerði ráð fyrir að hann vissi ekki hver ég væri svo ég var ekkert að „bögga“ hann. En viti menn, þá var heilsað og tekið í spaðann.
Lengi vel eftir þetta var ég hugsi.
Gat ekki hrist af mér tilfinninguna um tvískinnung og hvert skipti sem ég heyrði tónlistina hans, fannst mér ég heyra falsið óma í einlægleikanum.
Spurningarnar sem eftir stóðu voru:
Þegar höfundur hefur gefið verk út, tónlist, kvikmyndir eða vinalega lofgrein, er verkið þá laust úr viðjum hans og við tekur nokkurs konar sjálfstætt líf þess?
Eða verður verkið nokkurn tímann raunverulega úr snertingu
við reynsluheim höfundar og samtímans sem það fæðist í?