1. Yfirvegaður í teignum
Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni sagði Davíð Oddsson að „hans mikla reynsla [sé] meðal annars til þess fallin að ekkert gæti sett hann úr jafnvægi.“ Hann hefur líkt sér við Eið Smára, reynsluboltann sem haldi yfirvegun í teignum og skjóti beint í mark á ögurstundu. Þess vegna sé hann best til þess fallinn að verða forseti þjóðarinnar
2. Þá trylltist hann
„Ég var rétt byrjaður, þá trylltist hann, sagði að ég væri að grafa undan tillögum hans og sagði: „Þarna situr forsætisráðherra frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið ákvörðun. Hann hlustar á þig og þú ert að grafa undan þessu. Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“ Jafnframt sagði hann að ég skyldi ekki hræra í Össuri, þá skyldi hann eiga mig á fæti. Hann var vægast sagt tryllingslegur …“
Tryggvi Þór Herbertsson um Davíð Oddsson (Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, bls. 31. Hér eftir vitnað í með blaðsíðutali innan sviga).
3. Seðlabankinn, september 2008
Glitnir var að fara á hausinn. Og raunar allir íslensku viðskiptabankarnir. Meðal annars vegna þess að árin fyrir hrun hafði Seðlabankinn leyft bönkunum að vaxa út í hið óendanlega með því að lána þeim hundruði milljarða með litlum sem engum veðum – svokölluð ástarbréf Seðlabankans sem eru sögð hafa verið ein verstu mistökin fyrir hrun. Samkvæmt Ríkisendurskoðun töpuðust um 400 milljarðar króna vegna aðgerða eða aðgerðaleysis Seðlabanka Davíðs Oddssonar.
En þetta var ekki komið upp á yfirborðið í september 2008. Þá voru risalán á gjalddaga hjá Glitni og engin leið að fjármagna reksturinn. Bankastjórinn sagði alla vera komna með „nóg af Íslandi“ (8). Í örvæntingu biðluðu Glitnismenn því til Seðlabankans, enn og aftur. Þeir vonuðust eftir 600 milljón evra láni (þá 84 milljarðar íslenskra króna). Þetta samsvaraði fjórðungi gjaldeyrisforða íslenska ríkisins. Opinber gögn sýndu að Glitnir var með enn stærri lán á gjalddaga næsta hálfa árið, eða upp á 1,4 milljarða evra. Ósk þeirra um aðstoð var því augljós og ósvífin firra í augum hvers þess sem kynnti sér málið.
En formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands þessa örlagaríku daga var ekki maður sem kynnti sér málin. Hann var ekki maður sem þurfti aðstoð eða ábendingar. Hann var Davíð Oddsson.
Í störfum sínum leitaði rannsóknarnefnd Alþingis sérstaklega eftir upplýsingum um hvort Seðlabankinn hefði kallað eftir aðstoð eða ráðgjöf erlendra sérfræðinga við vinnu sína í kjölfar beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu. Skemmst er frá því að segja að slíkrar ráðgjafar naut ekki við í Seðlabankanum. (60)
Helgina 26.-28. september reyndi þriggja manna bankastjórn Davíðs Oddssonar að finna lausn á vanda Glitnis í kappi við tímann – eitthvað þyrfti að gerast fyrir opnun markaða á mánudag. Menn voru undir pressu. Aðeins örfáar mínútur eftir á leikklukkunni. Og þá dettur boltinn fyrir Davíð Oddsson. Hann var með lausn: Seðlabankinn skyldi yfirtaka 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra. Íslenska ríkið átti að setja fjórðung gjaldeyrisforða síns í dauðvona banka. Af hverju? Spyrjum aðalhagfræðing Seðlabankans:
Við skýrslutökur lýstu Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Þórarinn Pétursson, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabankans, því að þeir hefðu ekki verið kallaðir til starfa í Seðlabankanum um helgina. Hefðu þeir fyrst frétt af málinu í fjölmiðlum. Þórarinn lýsti því sérstaklega að hann hefði talið nauðsynlegt að fleiri sérfræðingar Seðlabankans hefðu verið kallaðir til starfa um helgina. (14)
Ókei, hann var ekki á staðnum. En aðallögfræðingur Seðlabankans? Nei, ekki heldur hann? Jæja. Og engir sérfræðingar. En þarna var reyndar Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins. Ætli hann hafi skilið vísindin á bak við aðgerðir bankastjórnar Davíðs?
„Ég man t.d. eftir því að þessir útreikningar á hlut, hvernig þetta var reiknað, það var kynnt fyrir okkur upp á svona töflu. Eiríkur Guðnason [í bankastjórn Seðlabankans] skrifaði niður þessar tölur og sýndi okkur hvernig … ja það skildi enginn hvernig þetta verð var fundið út. Hvorki fyrr né eftir að hann skýrði þetta […]“ (28)
En þetta eru auðvitað allt aukaatriði. Það sem skipti máli var að Davíð hlustaði ekki á efasemdamenn heldur innsæið sem hafði komið honum í allar helstu valdastöður íslensks samfélags. Davíð kynnti lausnina svo fyrir Glitnismönnum, munnlega. Íslenska bankakerfið var að hrynja, menn á bullandi yfirvinnu – af hverju að vera krota eitthvað niður á blað? Og af hverju að afla einhverra upplýsinga um bankann sem ríkið ætlaði að dæla 84 milljörðum inn í?
Að mati rannsóknarnefndar Alþingis verður því að álykta svo að það geti ekki talist annað en veruleg vanræksla af hálfu bankastjórnar Seðlabankans að stofnunin hafi ekki aflað sjálf milliliðalaust nánari upplýsinga um stöðu bankans og lánabók hans svo og upplýsinga um önnur þau atriði sem haft gátu þýðingu fyrir mat á því hvort forsvaranlegt væri að veita bankanum þrautavaralán. (56)
Veruleg vanræksla? En var tíminn ekki bara of skammur? Var Eiður, ég meina Davíð, ekki bara að láta vaða á markið?
Enda þótt tíminn hafi verið mjög stuttur sem Seðlabankinn hafði til að rannsaka og undirbúa málið hefði verið hægt að senda starfsmenn bankans inn í Glitni og fara yfir bækur hans. Kom einnig á daginn að nokkrum dögum síðar gat endurskoðandi Seðlabanka Íslands, Stefán Svavarsson, á einum degi aflað sér mun gleggri upplýsinga um stöðu Glitnis en Seðlabanki Íslands hafði haft á þessum tíma. (56)
Já, en …
4. Húrra! Húrra! Húrra! Húrra!
Glitniskaupin gengu sem betur fer aldrei í gegn. En það kom því miður ekki í veg fyrir örvæntingarfullar tilraunir Davíðs til að bjarga bankakerfinu sem hann hafði skapað sex árum fyrr. Minnisstætt er þegar hann krýndi nýja eigendur Landsbankans viðskiptamenn ársins undir fjórföldum húrra-hrópum. Kannski bergmáluðu þau hróp í kollinum á Davíð þegar Seðlabankinn veitti Kaupþingi 500 milljón evra lán (þá um 77,5 milljarðar króna) nokkrum dögum áður en bankinn féll.
Þetta var mjög dularfullur gjörningur. Ekkert er vitað um þau gögn sem lágu fyrir lánveitingunni. Ekkert. Davíð hringdi reyndar í Geir H. Haarde forsætisráðherra áður en lánið var veitt. Afrit af því símtali er því eina haldbæra gagnið um lánveitinguna en það hefur aldrei fengist birt. Skrítið. Ef Davíð er jafntrúr sinni sannfæringu og hann hefur látið í veðri vaka hlýtur hann að birta þessi gögn á næstu dögum. Þá hafði Davíð lánað Kaupþingi 73 milljónir evra og 200 milljónir norskra króna nokkrum dögum fyrr. Alls streymdi tæpur fjórðungur af gjaldeyrisforða þjóðarinnar inn í Kaupþing þegar bankinn var með fjörfisk í störukeppni við dauðann.
Nokkrum dögum síðar var allt hrunið. Og vissulega táknrænt og allt að því fallegt að ljósmóðir hinna einkavæddu banka skyldi taka að sér að brenna tugi milljarða í bálförinni.
5. Átta árum síðar – matreiðsla
„Ætli skýringin sé ekki sú að ég telji að það mætti hafa einum fleiri rétta á forsetamatseðlinum.“ Þannig kynnti Davíð Oddsson framboð sitt til forseta. Og bætti við: „Þá býst ég við því að bæði reynsla mín og þekking, sem er nokkur, gæti fallið vel að þessu starfi.“
Ekki þarf að hafa fleiri orð um þá reynslu og þá þekkingu í þessum pistli. Þeir sem nánar vilja kynna sér reynslu Davíðs eru svo heppnir að geta lesið um best skrásetta klúður Íslandssögunnar í Rannsóknarskýrslu Alþingis.
En það er þetta með forsetamatseðilinn. Því þótt sá sem þetta skrifar sé ekki kokkur má telja augljóst að litlu skiptir hvaða réttir eru settir á matseðilinn; ef hráefnið hefur spillst verður útkoman bragðvond, óæt, jafnvel eitruð. Og þótt það sé lýðræðislegur réttur hvers og eins að panta sér eins og honum sýnist af matseðlinum er óskandi að við kjósum okkur samfélag sem er ekki svo eitrað að fólk missi matarlystina.
6. Heyrnarlausi hershöfðinginn
Davíð Oddsson mun næstu vikur skýra fyrir þjóðinni aðkomu sína að örlagaríkum andartökum í Íslandssögunni út frá sjónarhorni hins vitra landsföður. En þegar við tökum þátt í því samtali skulum við ekki gleyma því að Davíð er sjálfur heyrnarlaus. Hann hlustaði ekki á Steingrím Ara Arason sem sagði sig úr einkavæðingarnefnd Landsbankans því hann hafði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Davíð hlustaði ekki á efasemdamenn þegar Seðlabankinn lánaði hundrað milljarða til bankanna árin fyrir hrun, kynti þannig undir ofvöxt þeirra og tapaði 400 milljörðum. Davíð kærði sig heldur ekki um að hlusta á sérfræðinga þegar hann gamblaði með gjaldeyrisforða Seðlabankans á vítaverðan hátt nokkrum dögum fyrir hrun. Ekki hlustaði Davíð á okkur þegar hann setti fjölmiðlalögin sem hann dró svo til baka áður en þjóðin fékk að kjósa þau burt. Og við skulum aldrei nokkurn tíma gleyma því þegar Davíð Oddsson, borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri, ritstjóri Morgunblaðsins og nú sjálftitlaður kyndilberi sáttar og samvinnu, skráði íslensku þjóðina í stríð við Írak. Leyfum þeirri blóðugu skömm að lifa með manninum á meðan við sjálf einbeitum okkur að því að halda matarlystinni.