Alþingi fjallar þessa dagana um nýja búvörusamninga sem ríkisvaldið og bændur skrifuðu undir í febrúar síðastliðnum. Samningarnir eru fjórir talsins, einn rammasamningur og þrír búgreinasamningar sem fjalla um starfsskilyrði sauðfjárbænda, kúabænda og garðyrkjubænda. Margvísleg kynning hefur farið fram á samningunum, en til að bæta enn á upplýsingagjöfina er bæði ljúft og skylt að setja fram nokkur svör við spurningum sem hafa vaknað í umræðunni.
1. Er verið að auka við stuðning við landbúnað?
Nei. Í lok samningstímans verða framlög ríkisins svipuð upphæð og árið 2016. Miðað við að hagvöxtur verði áfram hærri en verðbólga er ljóst að stuðningur við landbúnað sem hlutfall af landsframleiðslu mun áfram lækka. Nýir fjármunir koma inn í rammasamninginn vegna nýrra verkefna og aukinnar áherslu á almennari stuðning. Á móti aukningunni kemur 8,1% hagræðingarkrafa á samningstímanum.
2. Hefur leynd hvílt yfir samningagerðinni?
Nei, þvert á móti. Viðræður bænda og fulltrúa ríkisvaldsins stóðu í nokkra mánuði en alls voru haldnir yfir 40 samningafundir. Meðan á því ferli stóð voru samningamálin rædd opinskátt á vettvangi bænda. Aldrei áður hafa verið haldnir opnir bændafundir áður en samningagerðinni lauk. Jafnframt kynntu fulltrúar bænda samningana fyrir öllum sem óskuðu eftir því, m.a. fulltrúum stjórnmálaflokka, fyrirtækja og hagsmunasamtaka.
3. Snúast búvörusamningar um kaup og kjör bænda?
Nei, bændur líta ekki svo á að um kjarasamninga sé að ræða, líkt og á vinnumarkaði. Eins og kerfið er núna er þetta stuðningur við búrekstur bænda í dreifbýli. Hækkanir á fjárhæðum í samningnum eru langt frá þeim tölum sem samið hefur verið um á vinnumarkaði undanfarið. Miklu meiri fjármuni þyrfti ef samningarnir ættu að vera afkomutrygging fyrir bændur.
4. Hvað þýða samningarnir fyrir neytendur?
Stutta svarið við því er að stuðningur við landbúnað gerir greininni kleyft að framleiða afurðir á hagstæðara verði fyrir neytendur. Það er varla til sá staður þar sem að stjórnvöld hlutast ekki á einhvern hátt til um landbúnað – með stuðningi, verndaraðgerðum eða hvoru tveggja. Einhliða ákvörðun okkar um að hætta stuðningsaðgerðum yrði einfaldlega til þess að greinin hefði ekki sanngjarna samkeppnisstöðu.
5. Hvaða ávinningur er af íslenskri búvöruframleiðslu?
Landbúnaðarframleiðslan hefur víðtæka þýðingu fyrir landið í heild. Á hverju ári á sér stað mikil verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Árið 2015 var verðmæti landbúnaðarafurða 54 milljarður króna en að viðbættri annarri starfsemi 57 milljarðar. Um 4.200 lögbýli eru í notkun hér á landi og tæplega 4.000 manns starfandi í landbúnaði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls munu um 11.000 störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Íslenskur landbúnaður er mikilvægur þáttur í virðiskeðjunni og skilar hann og viðskipti með landbúnaðarvörur miklum skatttekjum til ríkisins.
6. Hvaða fjárhæðir er um að ræða í samningunum?
Heildarútgjöld ríkisins vegna samninganna verða nánast þau sömu í lok samningstímans (á föstu verðlagi) og þau eru nú. Fjárhæðir í rammasamningi nema kr. 1.743 milljónum árið 2017 en enda í kr. 1.516 milljónum árið 2026 við lok samnings. Nautgriparæktarsamningur er á fyrsta ári 6.550 milljónir króna og endar í 6.138 milljónum árið 2026. Sauðfjárræktarsamningur nemur 4.932 milljónum króna árið 2017 en endar í 4.470 milljónum árið 2026. Garðyrkjusamningur er að verðmæti 551 milljón króna árið 2017 en við lok samningstíma árið 2026 nemur stuðningur við garðyrkjuna 533 milljónum króna. Verðtryggingarákvæði eru í samningunum. Gerð er hagræðingarkrafa í sem nemur 0,5% fyrstu 5 ára samninganna en 1% næstu 5 ár á eftir. Þetta á við um alla þætti samninganna nema þeim sem lúta að niðurgreiðslu raforku og framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Fjárhæðir í samningunum eru áfram fastar og verði aukin framleiðsla þynnast greiðslur út á afurðir. Samningarnir fela ekki í sér fastar greiðslur á framleitt magn. Það er því ekki hægt að sækja sér ótakmarkaða fjármuni í ríkissjóð með aukinni framleiðslu. Þar fyrir utan er ljóst að mikil framleiðsluaukning er líkleg til að lækka afurðaverð. Komið er í veg fyrir of mikla samþjöppun í landbúnaði. Þannig eru settar reglur um hámarkshlutfall af stuðningi sem hver einstakur framleiðandi getur fengið af heildarstuðningi hvers samnings. Það er nýmæli. Það kemur ekki í veg fyrir hagræðingu en undirstrikar að ríkið vill fyrst og fremst styðja við fjölskyldubú.
7. Hverjar eru stærstu breytingarnar í samningunum?
Eitt af meginmarkmiðum samninganefndarinnar var að leggja drög að því að leggja niður kvótakerfi í mjólk og greiðslumarkskerfi í sauðfjárrækt. Tilgangurinn með þeirri stefnu er að létta kostnaði við kaup á þessum réttindum af greinunum. Markmiðið er að gera nýliðun og kynslóðaskipti auðveldari og beina þunga stuðningsins til þeirra sem eru að framleiða á hverjum tíma.
Í samningunum er lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu. Sérstakt verkefni kemur inn í samninginn um stuðning við skógarbændur til að auka virði skógarafurða. Um leið er kveðið á um annað nýtt verkefni um mat á gróðurauðlindum sem ætlað er til frekari rannsókna á landi sem nýtt er til beitar. Jafnframt verða möguleikar á fjárfestingastyrkjum í svínarækt fyrri hluta samningstímans t2il þess að hraða umbótum sem bæta aðbúnað dýra. Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Hægt verður að styðja betur við ræktun, þar með talið ræktun matjurta sem er nýung. Um leið verður tekinn upp almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Stuðningur við lífræna framleiðslu verður tífaldaður frá því sem nú er og sérstakur stuðningur verður tekinn upp við geitfjárrækt, sem ekki hefur verið áður.
Áfram er stuðningur við leiðbeiningaþjónustu eins og áður en hann þrepast niður á samningstímanum. Að sama skapi verður áfram stutt við kynbótaverkefni eins og skýrsluhald og ræktunar- og einangrunarstöðvar - einnig plöntukynbætur.
8. Eru samningarnir meitlaðir í stein til tíu ára?
Í samningunum er kveðið á um endurskoðanir árin 2019 og 2023. Það er gert til að bregðast við þróun og meta hvernig markmið nást. Gangi þau ekki eftir er hægt að bregðast við og stjórnvöld sem verða við völd á hverjum tíma geta lagt fram sínar áherslur. Það er því ekki búið að læsa starfsumhverfi landbúnaðarins í tíu ár, en það er mörkuð ákveðin stefna. Því til viðbótar eru breytingar hægfara fyrstu árin, einkum í sauðfjársamningnum.
9. Hver eru áhrif samninganna á bændur eftir búsetu?
Af hálfu bænda voru áhrif samninganna á einstök landssvæði ekki metin. Bændasamtökin sem fulltrúi allra bænda í landinu geta ekki haft forgöngu um að gera upp á milli bænda eftir búsetu. Þess vegna hefur Byggðastofnun verið falið að gera tillögur um útfærslu svæðisbundins stuðnings í sauðfjárrækt. Hingað til hefur vilji stjórnvalda jafnframt verið afskaplega takmarkaður til að stýra því hvar ákveðnar greinar landbúnaðar séu stundaðar og hvar ekki. Fyrir því geta alveg verið rök en þá verða stjórnvöld að ganga að því verki með opin augu og segja skýrt að við ætlum að styðja við ákveðna búgrein eða búgreinar á einum stað en ekki öðrum. Þá verður um leið að segja það berum orðum við það fólk sem vill stunda búskap á þeim svæðum sem ekki eiga að njóta stuðnings. Einnig hafa verið nefnd í þessu samhengi rök um landnýtingu. Bændur vilja vinna að meiri sátt um þau mál og þess vegna er verkefni í rammasamningi þar sem gert er ráð fyrir að efla mat á gróðurauðlindum og búa þá til verkfæri til að stýra þeirri nýtingu betur.
10. Eru allir bændur sáttir við samningana?
Nei, enda væri það óeðlilegt með jafn víðfeðma samninga og þessa. Gagnrýni á sauðfjársamninginn kemur fyrst og fremst frá svæðum þar sem keypt hefur verið mikið greiðslumark. Greiðslumark í sauðfé er skilgreint sem ærgildi þar sem hvert ærgildi gefur réttindi til ákveðinnar fjárhæðar (beingreiðslu) í stuðning. Eina skilyrðið er að eiga að minnsta kosti 7 kindur á móti hverjum 10 ærgildum (0,7 reglan). Samningurinn var vissulega umdeildur en fékk 60% stuðning í atkvæðagreiðslunni í mars. Best hefði verið ef fjármunir hefðu verið í boði til að bæta greiðslumarkshöfum upp tekjuskerðinguna, en á því var ekki kostur og það var mat samninganefndar bænda að sú leið sem farin er í samningnum væri ásættanleg fyrir greinina í heild.
Samið er um að fram fari kosning meðal kúabænda árið 2019 um hvort þeir vilji halda áfram á sömu leið út úr kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Afstaða bænda við þá endurskoðun mun byggjast á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.
Í samningunum er lítið komið til móts við þær búgreinar sem verða hvað harðast fyrir barðinu á áhrifum tollasamnings Íslands og ESB sem kom óþægilega á óvart inn í miðjar samningaviðræðurnar. Þær greinar eru ekki sáttar við sinn hlut búvörusamningunum en reyndar er enn að störfum vinnuhópur sem er að meta áhrif tollasamningsins og nýrra aðbúnaðarreglugerða. Eðlilegt er að tillögur þess hóps verði ræddar um leið og samningurinn sjálfur við meðferð Alþingis, en hópurinn er nú að leggja lokahönd á þær. Ef stjórnvöld vilja koma betur til móts við þessar greinar, sem eru svína- og alifuglaræktin, eru bændur sannarlega tilbúnir að ræða það.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.