Eitt af stærri málunum í þjóðfélagsumræðunni nú eru samningar þeir sem forsvarsmenn BÍ gerðu við ríkið í febrúar, búvörusamningar. Lagabreytingar vegna þeirra eru enn á dagskrá hjá Alþingi. Þetta er mál sem varðar bændur mikið eins og alla aðra neytendur í landinu. Þörfin fyrir víðtæka og mikla umræðu um málið blasir því við. Til að umræða skili marktækum niðurstöðum verður hún hins vegar að vera byggð á réttum upplýsingum. Núna birtist á Kjarnanum „Tíu spurningar og svör um búvörusamninga“ frá formanni BÍ Sindra Sigurgeirssyni. Í greininni er það mikið af sérstökum yfirlýsingum, hálfsannleika og jafnvel rangfærslum að ábyrgðarlaust tel ég með öllu að þegja þar um. Þó að slík framsetning sé nánast meistarafag Sindra verður hann að svara nánar til um allmörg atriði. Uppá síðkastið ber að vísu nokkuð á hjá honum þegar hann er krafinn um slíkt að hann einfaldlega þegi.
Til að gera lesendum auðveldar að fylgja málflutningnum þá vel ég því að fjalla um hverja einstaka spurningu eins og þær koma fyrir í grein Sindra.
1.
Fyrstu spurningu sinni um hvort varið sé meira fé til samningsins en áður var svarar hann með fortakslausu neii. Þegar hann og fleiri aðilar úr samninganefnd BÍ voru að kynna samninginn í febrúar, og það sama heyrði ég raunar hann sjálfan segja á kynningarfundi í Þingborg, að einn af ávinningum samningsins væri aukafjármagn uppá nokkuð marga hundraði miljóna sem bæði hann og ráðherra héldu þar að mönnum. Þetta heyrði ég fjölmarga bændur halda fram sem meginrökum fyrir samþykki við samningana. Nú tel ég mig vita manna best að ágreiningslaust svar um hækkun eða lækkun framlaga fæst aldrei. Þar má endalaust toga og tæta. Til Sindra er hins vegar eðlilegt að beina þeirri spurningu hvort hann telji sig hafa verið að ljúga að bænum þegar hann kynnti samningana eða að lesendum með pistli hans sem hér er fjallað um. Öðrum hópnum svarar hann sjálfur já og hinum nei. Augljóst er að aðeins annað getur verið rétt og eðlilegt að hann upplýsi lesendur um hvort er lygi.
2.
Spurningu um hvort leynd hafi hvílt yfir samningafundum svarar hann neitandi. Þetta þykja mér merkileg tíðindi og ætla ögn að greina nánar frá og láta lesendum síðan eftir að dæma sjálfir um hinn opna samningaferil. Fundargerðir samningafunda er hvergi að finna á opnum vettvangi. Vitað er að um nokkurn tíma eftir að viðræður hófust af fullum þunga var mestum þunga varið til að skoða mjólkursamning. Það spurðist út hvað til umræðu var og olli kurr hjá bændum. Minnist þess að allt að tveir forystumenn í sumum flokkum fóru til fundar með eyfirskum mjólkurframleiðendum um málið. Minnist ekki að hafa frétt af tilsvarandi fundum samningarnefndarmanna bænda í opna ferlinum. Þá lét BÍ gera skoðanakönnun meðal mjólkurframleiðenda um þessi mál sem samt var ekki kynnt með neinum lúðrablæstri. Enn merkilegra er samt að niðurstöður hafa mér vitanlega aldrei verið birtar. Ég mundi þess vegna biðja Sindra að skýra nánar frá þessari könnun, framkvæmd og niðurstöðum, ef mögulega er aðeins um slakt minni mitt að ræða. Vitað er í öllu falli að öllum meginákvörðunum um mjólkursamning var slegið á frest í nokkur ár og látið bíða atkvæðagreiðslu bænda þá. Þetta eru mennirnir sem kunna að taka á sínum málum.
Ég get aðeins sagt af eigin reynslu að fyrir mig reyndist nánast ómögulegt að nálgast nokkrar upplýsingar um gang samninganna. Leitaði ég alloft til Ernu Bjarnadóttur hagfræðings BÍ, sem óumdeilanlega er sterkast fagmaður BÍ á sviði búvörusamninga hvort sem er hér á landi eða í nágrannalöndunum. Af einhverjum ástæðum var hún alveg jafn blönk og ég.
Nú vill hins vegar svo til að sjálfur hef ég komið að vinnu við alla eldri búvörusamninga frá upphafi og ýmislegt þekki ég þar um vinnulag. Þar var það nánast regla að samninganefndin byggði sér upp faghópa innan stofnunarinnar sem hún gat leitað eftir áliti hjá á einstökum stigum samninganna og oft var þannig mögulegt að færa ýmsar ákvarðanir til betri vegar. Getur ástæða vinnubragðanna nú verið að samninganefndin hafði enga faglega mótaða áætlun í höndunum við samningana. Hafi svo verið bið ég hinn opna formann að birta þá stefnu og útskýra.
Lesendum læt ég sjálfum eftir að dæma um það hvort samningaumhverfið var opnara eða lokaðra nú en áður. Út frá reynslunni leyfi ég mér að fullyrða að svarið er annað en formaður BÍ setur fram
3.
Hér fara nú yfirlýsingar fyrst að verða eftirtektarverðar og bið ég Alþingismenn sérstaklega að taka eftir. BÍ er hætt kjarabaráttu fyrir bændur. Er ekki eitthvað farið á skjön við búvörulög. Sindri, hvar fer kjarabarátta bænda fram þegar hún er ekki lengur við gerð búvörusamninga? Sindri er ef til vill gengin eins og önnur tröll í fjöll með villtustu talsmönnum frjálsrar verslunar. Nú finnst mér hinn hluti svarsins benda til að stjórn BÍ hafi sagt skilið við kjarabaráttu bænda. Bið Sindra að svar því afdráttarlaust hvort svo sé. Sé svarið jákvætt eins og mér sýnist svar Sindra benda til eru hér meiri fréttir en lengi hafa verið sagðar af íslenskum landbúnaði. Gæti verið að hinn almenni bóndi og margir fleiri í þjóðfélaginu vilji biðja um smá frest til að melta fréttina.
4.
Þetta svar er það samhengis- og hugsunarlaust að um það er ekkert hægt að segja. Málefnið er hins vegar stórt og hefði átt að krefjast svara með heilli hugsun. Þetta er mál sem þarfnast umræðu. Umræða á grunni raka þekki ég hins vegar að er mikið eitur í beinum Sindra.
5.
Hér er stórt mál tekið til umræðu. Svarið sýnir líka að sjóndeildarhringurinn er ákaflega þröngur. Að íslenskur landbúnaður ráði miklu um hvað Ísland verði á komandi árum er ekki nefnt einu orði. Aukin krafa til landbúnaðar um allan heim til að leggja sinn hlut til síaukinnar matvælaþarfar í heiminum. Því síður að nefnt sé að landbúnaðurinn mun skipta miklu máli gagnvart þróun loftslags- og umhverfismála. Meginmálin skipta ekki máli. Það verður að vísu vel skiljanlegt í ljósi þess að yfirstjórn BÍ hefur týnt öllu sem flokka má sem framtíðarsýn.
6.
Hér er að mestu upptalning talna úr samningum og verða ekki gerðar athugasemdir við það. Vona að Sindri hafi getað fært upphæðir rétt á milli samninganna til greinar sinnar. Ætla ekki að gefa mig út sem endurskoðanda.
7.
Hér fer Sindri að telja meginmarkmið samninga sinna. Hann byrjar á að telja fram aflagningu kvótakerfis og greiðslumarkskerfis. Þannig eigi að létta kostnaði af framleiðendum. Nú spyr ég Sindra hvar séu úttektir á að þetta gerist endilega í raun? Áfallinn kostnaður breytist ekki. Ég þekki ekki rannsóknir sem sýni að kvótakostnaður kunni ekki að einhverju leyti að færast yfir á jarðarverð í framtíðinni. Hinn sannleiksausandi Sindri upplýsir okkur sjálfsagt um hvar þær niðurstöður er að finna sem sýni þetta svart á hvítu. Hann leggur áherslu á aukinn stuðning við lífræna framleiðslu. Því miður er engin stefnumörkun þarna og Sindri ætti manna best að vita að stuðningur hérlendis við þessa búskaparhætti er eins og krækiber í helvíti í samanburði við nálæg lönd. Hreinlegra að upplýsa það. Þá er talað um stuðning við aukna sjálfbæra nýtingu lands. Það er fyrst og fremst í sauðfjársamningi sem þess ætti að sjá stað. Sindri, hvernig dettur þér til hugar að halda fram svona bulli þegar fyrir liggur er stuðningur við sauðfjárframleiðsluna dregst hlutfallslega mest saman á þeim stöðum sem allir eru sammála um að sjálfbærni framleiðslunnar er mest?
Þá fjallar hann um nýtt verkefni um mat á gróðurauðlindum. Orðafar hans um það verkefni er mér illskiljanlegt. Sindri, viltu ekki gera þetta skiljanlegt eða er mögulegt að þú vitir ekki um hvað þú ert að ræða í raun? Þá kemur að einu stóratriði samninganna sem er styrkur á ræktað land. Víða erlendis hefur aukinn styrkur á land verið áberandi í stuðningsformun síðustu ára. Hér er þessi tímamótaákvörðun tekin sem bæri að fagna væri einhver vitræn glóra í henni. Landnýting hér á landi er ákaflega frábrugðin því sem gerist í nánast öllum löndum. Hér er ákveðið að þessi stuðningur skuli aðeins bundin ræktuðu landi. Úthaganýting er ákveðinn lykilþáttur bæði í hrossarækt og sauðfjárrækt mögulega stærsta náttúruauðlind Íslands. Í fyrstu grein búvörulaga er meira að segja kveðið á um að stuðla skuli að betri nýtingu náttúruauðlinda. Er það best gert með að horfa framhjá beitinni? Þar sem um slíka tímamótaákvörðun er að ræða verður að krefja Sindra svara um þau atriði sem hér er spurt um. Mest verður samt að krefjast svars um hvernig það sé rökstutt að taka upp slíka grundvallarbreytingu á styrkjaformi án þess að láta fara fram nokkra faglega vinnu áður um framkvæmdina og áhrif. Eins og þegar er tekið fram er þörf fyrir slíkt meiri hér á landi en í öðrum löndum. Hvernig rökstyður Sindri það að samtök sem vilja láta telja sig ábyrg vinni (ekki) á þennan hátt að málum? Er raunverulega til nokkur önnur skýring í því máli nema landsþekkt fagfyrirlitning Sindra í hvaða máli sem er sem snýr að landbúnaði? Hann tekur sérstaklega fram að áfram sé veitt fé til leiðbeiningastarfs í samræmi við búnaðarlög. Honum tekst að vísu að skera þann stuðning hlutfallslega meira niður en annað í samningunum. Breyting hefði samt vart verið nema honum hefði tekist að ná þessum þætti útúr samningnum sem varla er ástæða til að ætla annað en hugur hans hafi staðið til.
8.
Eru samningarnir meitlaðir í stein til tíu ára? Þannig hljóðar þessi volduga spurning sem ég fæ ekki alveg séð tilganginn með. Þar lýsir Sindri sínum náðarsamlega vilja um að nýjar ríkisstjórnir á næsta áratug megi mögulega koma að endurskoðun á næstu tíu árum. Auk þess er hann víst búinn að skuldbinda samtök sín um endurskoðun á mjólkursamningi að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um það meginmál sem hann heyktist á að takast á við og áður er fjallað um.
9.
Þá kemur þessi spurning og fer nú að verða ofurlítið kjöt á beinunum. Þar tekur hann fram að BÍ sem samtök bænda geti ekki haft forgöngu um að gera upp á milli bænda eftir búsetu. Nú er það hverjum aðila ljóst sem er eldri en tvævetur að samningar geti aldrei annað en haft slík áhrif á einn eða annan hátt. Þeim er ætlað að vísa veginn í málum landbúnaðarins og hvernig það eigi að gerast án þess að hafa nokkur áhrif verður að fá ofurmenni líkt og Sindra til að útskýra fyrir okkur. Það gerir hann áreiðanlega af greiðvikni sinni. Hins vegar gerði samninganefnd bænda sauðfjársamning sem nálgast það mjög að vera glæpaverk og skal aðeins rökstutt nánar. Það liggur fyrir að með samningnum verða fjármunir í verulegi mæli færðir á milli sauðfjárframleiðenda. Það hlýtur að vera mörkuð stefna samninganefndarinnar og gengur þvert á öll ákvæði búvörulaga. Þarna gerir samninganefndin nákvæmlega það sem Sindri segir að BÍ þurfi að forðast. Þarna er uppáhaldsiðja Sindra í blóma, að segja eitt en gera annað. Slíku vilja sumir líkja við lygar. Þess þarf ekki Sindra vegna hann kemur þeim nógu víða við án þess. Það merkilega mun vera að sauðfjársamninganefndarhluti bænda hafði ekki tilburði til að bregða upp einföldustu sviðsmyndum af áhrifum samninganna, hefði svo verið hefði hryðjuverkinu vonandi verið forðað. Áður er nefnt hvernig þessi tilflutningur samningsins á stuðningi frá sjálfbærustu svæðunum í landinu verður verður. Það er víst brot á upphafsgrein búvörulaga um tilgang þeirra. Einnig er þessi tilflutningur frá þeim búum sem náð hafa bestum árangri í greininni og ættu þess vegna að vera lífvænlegasti meiðurinn. Muni ég rétt er fyrsta atriði í markmiðstalningu búvörulaganna að þau skuli stuðla að aukinni hagkvæmni í landbúnaði en hagkvæmustu búin eru að sjálfsögðu þau sem að framan greinir. Þarna fundu þeir enn eitt atriði búvörulaga til að brjóta. Ekki veit ég hvort þetta sem hér er talið fellur undir að þverbrjóta lög. Sauðfjársamningurinn er hins vega áreiðanlega Íslandsmet í að margbrjóta lög eins og hér er rakið.
Það getur orðið nokkuð flókin siðferðileg spurning hvort eðlilegt sé að flytja stuðning til aðila sem seldu sig frá ríkisstuðningi fyrir áratugum, m.a. með ríkiskaupum sem fjármögnuð voru samkvæmt eldri samningum á þeim tímum eða frá öðrum bændum sem ætíð hafa unnið samkvæmt gildandi samningum hverju sinni. Frá nokkrum af þeim sem áður höfðu gengt því starfi sem Sindri gegnir nú hafa bændur sem ætluðu sér að starfa áfram í stéttinni verið hvattir til að fjárfesta í kaupum á greiðslumarki (kvóta) til að tryggja rekstrargrunn búa sinna. Þessum ráðleggingum fylgdi mikill fjöldi góðar bænda. Þessi hópur virðist hafa verið Sindra sérstakur þyrnir í augum og eins og fram kemur í fyrstu málsgrein hans í svari við spurningu 7. Ég hef áður bent á í skrifum um samningana að sauðfjársamninganefndarhópurinn hafði annað ákaflega hættulegt erfðagóss í farangri sínum sem ef til vill skýrir betur en annað að svona hlutir geti gerst. Þetta verða bændur í framtíðinni að láta sér að kenningu verða við skipan samninganefnda sinna.
Í þessum lista sínum um atriði samninganna víkur Sindri hvergi ein orði að gripagreiðslum, loftslags- eða umhverfismálum. Vafalítið er það með ráðum gert þar er jafnvel enn ömurlegri sögu af störfum samningarnefndarmanna að finna. Það verður því ekki rætt hér að sinni.
Síðustu spurningu Sindra er aðeins beint til bænda og verður ekki rædd frekar hér. Aðeins á það bent að atkvæðagreiðsla fer fram í kjölfar viðamikilla kynningarfund um allt land. Mjög margir bændur fengu þar sín fyrstu og einu kynni af samningunum. Þeir voru kynntir af fulltrúum samninganefndanna á mjög líkan hátt og sá villandi og rangi texti Sindra sem hér er til umfjöllunar. Menn meta það síðan hvað sé líklegt að þannig kynning gefi af sér. Ég verð að biðja bændur afsökunar á að hafa ekki þá þegar reynt að koma sterkari skilaboðum á framfæri. Eftir betri skoðun síðan þá hefur botnleysi samninganna að vísu orðið mér ljósara og ljósar. Ég mætti á tvo kynningarfundi í Þingborg og Víðihlíð. Sérstaklega eftir fund í Víðihlíð eftir viðbótarvisku samningamanna þar dró úr mér allan mátt. Þar gól formaður LS yfir þingheim við útskýringu á þýðingarmiklum samningslið að hann skýrðist af því að meginmarkið hefði verið að koma á breytilegra stuðningsformi en áður og umræddur liður var settur inn eins og hann er í samningnum hefði samninganefndinni dottið til hugar að hafa þetta svona og þess vegna yrði þetta þannig. Samninganefndarmaður í mjólkursamningahluta rökstuddi gripagreiðslur að talsverðum hluta með því að setja hefði þurft inn einhverja liði til að koma stuðningnum í samningunum til bænda.
Sindri! Ég átta mig ekki fullkomlega til hvers þú varst að semja þennan spurningalista fyrir sjálfan þig. Þú stendur í öllu falli frekar klaufalega að þessu „svindli“ með að eiga ekki skárri svör við flestum spurninganna.
Hvort sauðfjársamningurinn er ódæði og illvirki eða fávitaafglöp hjá þeim sem mynduðu samninganefnd bænda skal ósagt látið. Óháð hvað er hið rétta þá segir niðurstaðan það eitt að til verksins í sauðfjársamninganefndarhópinn hafa valist óhæfir aðilar.
Þegar Alþingi nú stendur frammi fyrir orðnum hlut þessara ógæfumanna þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að vísa þessum kaleik frá sér en snúa sér þess í stað að málum sem fremur mega verða þjóðinni til framdráttar. Þannig mundi traust Alþingis aukast.
Þannig skapaðist bændum og stjórnvöldum tími til að vinna nýja samninga bændum, landi og þjóð til framgangs. Bændur þurfa að losa sig við tvo þrjá af æðstu stjórnendum samtaka sinna í dag og fylla í skörðum með nýjum og hugmyndaríkum einstaklingum sem finna má í hópum í bændastétt þá geta þeir áreiðanlega mætt baráttuglaðir til leiks. Þrátt fyrir það er ef til vill meiri bjartsýni að ætla að þá verði komin stjórnvöld með framtíðarsýn þó að nýjum kosningum sé lofað síðla hausts. Sigurður Ingi byrjaði nálgun sína að þessum málum af meiri framsýni og vilja en verið hafði um árabil. Því miður hélt sú sýn ekki. Heimiliserjur á stjórnarheimilinu gætu valdið einhverju, það er svo lokað að erfitt er að dæma um það. Í öllu falli tók hann við eiturbikarnum sem búvörusamningarnir eru. Ljóst er af því litla sem heyrst hefur til eftirmanns hans í ráðherrastólnum að hann er með öllu óhæfur um að fjalla um þessi mál.
Þetta eru í lengd mikilvægari mál fyrir þróun samfélagsins og því gott að gefa aðilum tíma til að endurskoða málin. Þá má kalla fram atriði sem horfa til framtíðar en ekki fortíðar eins og fyrirliggjandi samningar. Umfram allt fengist samt tækifæri til að vinna mál á faglegan hátt. Það var ekki gert við núverandi samningagerð (yfirleitt ekkert unnið enda sérstakt eitur í beinum formanns BÍ) nema hvað varðar hlut LK og garðyrkjubænda.