Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, var í gær kosin formaður Samfylkingarinnar.
Alls voru greidd 3.877 atkvæði í kjörinu, 15 skiluðu auðu. Hlaut hún 59,9% atkvæða í þriðju hrinu talningarinnar. Engin breyting varð frá 1. hrinu talningarinnar samkvæmt formanni kjörstjórnar.
Óhætt er að segja að Oddnýjar bíði mikið uppbyggingarstarf, enda hefur fylgi Samfylkiningar mælst á bilinu sjö til 10 prósent á undanförnum mánuðum. Það er órafjarri því sem flokkurinn var stofnaður til. Að verða stór turn á vinstri vængnum, sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn á þeim hægri.
En sigur Oddnýjar setur líka upp nýja pólitíska sviðsmynd. Á vinstri vængnum leiða nú tvær konur sína flokka inn í kosningar. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Oddný hjá Samfylkingingunni.
Þó kosningar hafi ekki verið tímasettar ennþá, þá má búast við nokkuð kraftmiklum spretti á hinu pólitíska sviði á næstu mánuðum, þar sem barist verður um fylgið. Kannski munu konurnar fá byr í seglin á vinstri vængnum, á móti köllunum á þeim hægri. Ekkert er þó öruggt í þeim efnum, þar sem Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðismenn hafa verið í fylgissókn að undanförnu.
Spennandi tímar framundan...