„Mér finnst ótrúlegt, og ég segi það í fullri einlægni, að Repúblikanaflokkurinn ætli árið 2016 að bjóða fram mann sem hefur mismunun og fordóma að hornsteinum í baráttu sinni.“ Þetta sagði Bernie Sanders eftir fund með Barack Obama Bandaríkjaforseta í gær.
Hann var að sjálfsögðu að tala um Donald Trump, sem verður að öllum líkindum forsetaefni Repúblikana, í kosningunum í nóvember. Hillary Clinton verður fulltrúi Demókrata, en hún hefur þegar tryggt sé nægilegan stuðning. Sanders segist ætla að berjast af alefli fyrir því að Trump verði ekki næsti forseti, en hefur enn ekki lýst fyrir stuðningi við Hillary, eða að barátta hans sé töpuð.
Óhætt er að taka undir þessi orð Sanders um Trump. Það er alveg óháð því, hvort horft er á málin frá hægri eða vinstri. Stærstu stjórnmálaflokkar Bandaríkjanna verða að gera betur en svo, að kjósa til forystu fólk sem boðar kynþáttafordóma og elur á ótta við innflytjendur og útlendinga, og það í sjálfum Bandaríkjunum, sem er einstakt innflytjendaríki að grunni til.
En þetta er veruleikinn sem nú blasir við. Repúblikanar virðast ætla að hafa fordómafullan kynþáttahatara í forsvari í kosningunum, jafnvel þó ýmsir forystumenn flokksins séu miklir andstæðingar þess, eins og George W. Bush og Dick Cheney.
Fróðlegt verður að fylgjast með þróun mála á næstu mánuðum, og þá sérstaklega hvort Trump verður með byr í seglum, eða vindinn í fangið, þegar kemur að fylginu.