Ein lítil pólitísk minning rifjast oft upp fyrir mér, til dæmis núna í aðdraganda forsetakosninga. Hún hlýtur að vera meira en tíu ára gömul, því þá voru þeir ungir menn og upprennandi í borgarmálunum, Dagur borgarstjóri (sem nú er) og Gísli Marteinn. Einhver góður útvarpsmaður, vísast Hallgrímur Thorsteinsson, hafði stefnt þeim saman sem talsmönnum andstæðra fylkinga. Ekki man ég lengur hvaða ágreiningsmál þeir töluðu um, en þeim mun minnisstæðara er mér hvernig þeir töluðu. Ekki hvort framhjá öðrum, því síður hvor yfir annan, heldur hvor við annan. Pólitískir andstæðingar sem þó töluðu saman – eins og menn! Tilbúnir að viðurkenna það sem þeir gátu fallist á hvor hjá öðrum, samtaka um að útskýra fyrir hlustendum hvað þeir væru ekki sammála um og af hverju ekki.
Aldrei hafði ég skynjað svo glöggt muninn á samræðustjórnmálum og átakastjórnmálum.
Nú var Dagur vissulega „minn maður“ sem ég kaus og sá aldrei eftir því. En ég fann til þess undir útvarpsþættinum að ef ekki ætti að kjósa milli flokka heldur kynslóða, þá væri það kynslóð þessara manna sem ég yrði að treysta til forustu miklu frekar en mínum eigin jafnöldrum.
Ég get reyndar skilið að sumir kunni betur en ég að meta átakastjórnmálin og aðhyllist pólitíska foringja með munninn sem lengst fyrir neðan nefið. Til dæmis sem flokksformann eða borgarstjóra.
En sem forseta landsins – það skil ég ekki. Ekki að afrek í átakastjórnmálum geri mann að æskilegum forseta.
Fyrsti forseti lýðveldisins, Sveinn Björnsson, hafði á yngri árum látið að sér kveða í pólitík. Þá var hann meðal foringja í flokksbroti sem gekk undir uppnefninu „Langsum“ – af því að hann og hans menn stóðu ekki eins „þversum“ gegn málum andstæðinga sinna og eðlilegt þótti í átakastjórnmálum þess tíma. Eftirmaður Sveins, Ásgeir Ásgeirsson, var líka valinn úr röðum stjórnmálamanna. En ekki úr hópi þeirra sem mest kvað að í hörðustu deilunum. Þegar Ásgeir stóð í fremstu röð þá var það sem fulltrúi þjóðlegrar samstöðu – forseti sameinaðs þings á Alþingishátíðinni 1930 – eða þegar pólitískir andstæðingar neyddust til að vinna saman. Sú staða kom upp 1932, þegar heimskreppan stóð sem hæst, og þá gat enginn myndað stjórn nema Ásgeir.
Þegar Ásgeir dró sig í hlé valdi þjóðin ópólitískan forseta, Kristján Eldjárn. En stjórnmálamaðurinn sem féll fyrir Kristjáni, Gunnar Thoroddsen, var ekki í framboði sem neinn persónugervingur átakastjórnmálanna heldur þvert á móti: „mýksta silkitunga Sjálfstæðisflokksins“ – eins og Hannibal Valdimarsson hafði einhvern tíma orðað það.
Af harðskeyttari stjórnmálamönnum má nefna Jónas Jónsson frá Hriflu sem að vísu var nefndur sem hugsanlegt forsetaefni, bæði 1944, á móti Sveini Björnssyni, og 1952 þegar Ásgeir var valinn. Þeir Ásgeir höfðu átt samleið framan af, báðir virkir í ungmennafélagshreyfingunni, forgöngumenn í fræðslumálum og samherjar í Framsóknarflokknum. Þar til Ásgeir fórnaði stöðu sinni í flokknum til að leiða óvinsælt stjórnarsamstarf þegar Jónas vildi láta hart mæta hörðu.
Jónas frá Hriflu var Íslandsmeistari í átakastjórnmálum. Hann var hugsjónaríkur framfaramaður, óþreytandi í baráttu sinni og fékk mörgu góðu til leiðar komið. Hann var drjúgur og hollur liðsmaður, bæði manna og málefna sem hann vildi styðja, en um leið skæðasti andstæðingur sem hægt var að komast í kast við, hvort sem var í opinberum deilum eða taflinu bak við tjöldin. Jónas átti einlæga aðdáendur – amma mín var ein þeirra – og átti það fyllilega skilið. En það voru ekki aðdáendur hans sem héldu honum fram sem forsetaefni, hvorki á móti Sveini né Ásgeiri. Það voru andstæðingar hans sem í háði eða hálfkæringi létu að því liggja að hann hefði augastað á forsetatigninni.
Því auðvitað fann fólk að þá tegund af stjórnmálaforingja viljum við ekki fyrir forseta.
Höfundur er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Frá ritstjórn: Röng fyrirsögn var birt með greininni. Það hefur verið lagfært. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.