„Það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningum til að ná aftur heilsu sinni.
Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins.
Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð.
Hann lifir eins og hann muni aldrei deyja – og svo deyr hann án þess að hafa lifað”.
(Dalai Lama)
Það er okkur öllum hollt að hafa þessi orð í huga alla daga alltaf. Þegar manneskja greinist með MND sjúkdóminn, sem engin lækning er ennþá til við, þá er oft sagt að viðkomandi hafi fengið dauða dóm. Það er auðvitað mjög alvarlegt og mikið áfall fyrir einstaklinginn sem og fjölskyldu og vini. En þegar og ef rofar til í hausnum á manni þá áttar maður sig á að þetta er kannski dómur um að lifa og njóta. Lifa og njóta hvers augnabliks sem þér er gefið. Ég persónulega hef valið þá leið enda sá tími sem ég var upptekinn við að deyja alveg hundleiðinlegur tími.
Til að þetta val um að lifa sé raunverulegt þurfum við öll á Íslandi að sameinast um það sem er mikilvægast, að skapa öllum jafnan aðgang að okkar frábæra landi. Jöfn tækifæri til að njóta þess sem landið gefur af sér til sjávar og sveita. Við verðum að fagna öllum tegundum” fólks. Mismunandi á litin, mismunandi trúuð eða ekki trúuð, grænmetisætum, hvalkjötsætum, fötluðum, börnum, öldruðum og svo framvegis. Það verður að skapa pláss fyrir mismunandi fólk. Skilning og samkennd.
Njótum augnabliksins í dag og alla daga. Íslendingum þökkum við stuðninginn við okkar litla félag og vonandi gerum við gagn.
Í tilefni dagsins er opið hús á Sléttuvegi 3. Þar sínum við íbúð sem við höfum til leigu fyrir sjúklinga sem þess þurfa. Allir eru velkomnir á milli 14:00 og 18:00. Léttar veitingar í boði.
Kærleikskveðjur.
Höfundur er formaður MND félagsins.