David Alaba er gimsteinninn í fótboltanum í Austurríki og hefur verið það síðan hann varð yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir landsliðið. Hann var þá 17 ára og lék sinn fyrsta leik gegn Frökkum, 2009. Í tveimur fyrstu leikjunum á EM, í 2-0 tapi gegn Ungverjum og 0-0 jafntefli við Portúgal, hefur hann ekki náð sér á strik og verið langt frá sínu besta. En enginn ætti að efasta um hæfileikana.
Lengi á meðal þeirra bestu
Alaba hefur verið lykilmaður í liði FC Bayern og átt þar góðu gengi að fagna, svo ekki sé meira sagt. Hann hefur unnið alla titla sem í boði eru og sýnt hæfileika sína. Hann er fæddur 24. júní 1992, og verður því 24 ára eftir tvo daga. Hann kom í gegnum knattspyrnuakademíu FC Bayern og þaðan inn í aðalliðið, þar sem hann hóf leik sem vinstri bakvörður, þrátt fyrir að leika meira sem miðjumaður í unglingaliðunum. Hann hefur blómstrað í þeirri stöðu, í afar sterku liði FC Bayern.
Fjölhæfur og góður alhliða leikmaður
Hans helsti kostur er mikil fjölhæfni. Hjá Austurríki hefur hann oftar en ekki leikið á miðjunni, og verið prímusmótorinn í spili liðsins. Þá er hann varnarsinnaður að upplagi og þykir afburðasnjall í því að leysa úr erfiðum stöðum, á litlu svæði, og hefja sóknirnar aftarlega á vellinum.
Á EM til þessa hefur þetta ekki gengið nægilega vel hjá honum, og augljóst að andstæðingarnir hafa kortlagt hann nokkuð vel, og lagt áherslu á að setja hann undir pressu um leið og boltinn berst til hans.
Liðsheildin besta vopnið
Þó Alaba sé kannski ekki álitin í allra fremstu röð í Evrópu, þá er hann ekki svo langt undan. Að vera reglulegur byrjunarliðsmaður hjá FC Bayern frá því hann var 19 ára, er ekki lítið afrek. Þá hefur hann leikið 48 landsleiki fyrir Austurríki, og 30 unglingalandsleiki. Það verður að teljast óvenjulega mikið í ljósi þess hann er tæplega 24 ára gamall. Hann er því leikreyndur þrátt fyrir ungan aldur.
Það er eins með Alaba, og marga aðra góða leikmenn, að samstaða í varnarleiknum hjá liði andstæðinganna, er það sem skiptir máli. Það mun reyna á miðjumenn íslenska liðsins, að reyna að kæfa niður klókindin í Alaba, og auðvitað fleiri góðum leikmönnum. En eins og alltaf þegar íslenska liðið mætir til leiks, þá er lykillinn að árangri samstaða í vörn og sókn frá aftasta manni til hins fremsta. Þannig getur Ísland unnið Alaba og félaga í Austurríki á eftir.