Útboð Seðlabankans dugði ekki til að leysa úr aflandskrónuvandanum, eins og vonast hafði verið eftir, Ákveðið var að taka öllum þeim tilboðum þar sem aflandskrónueigendur buðust til að greiða 190 krónur eða meira fyrir evruna. Bankinn bauðst til að kaupa 178 milljarða aflandskróna í útboðinu en þegar upp var staðið voru samþykkt tilboð í rúmlega 72 milljarða. Fyrir það greiðir bankinn 47 milljarða í gjaldeyri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að stórir eigendur aflandskróna hafi ekki tekið þátt í útboðinu, eða boðið gengi sem seðlabankinn hafi ekki fallist á.
Bandarísku sjóðirnir Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP á íslandi áttu um 30 prósent af aflandskrónuhengjunni, sem var um 300 milljarðar króna. Líklegt verður að teljast að það séu þessir sjóðir, sem hafi ákveðið að taka ekki því „tilboði“ sem fyrir lá.
Þeir telja að íslensk stjórnvöld séu að brjóta á þeim, og í þeirri aðferðarfræði sem nú hefur verið lögfest, felist eignaupptaka. Þessu eru stjórnvöld ekki sammála, eins og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ítrekað bent á.
Vonandi tekst stjórnvöldum að leysa farsællega úr þessari stöðu, því það varðar almenning í landinu, bæði fólk og fyrirtæki, miklu að losun haftanna verði að veruleika. Niðurstaða útboðsins þýðir að verkefninu er ekki nándar nærri lokið, þó hluti vandamálsins sé nú leystur. Erfitt að er að segja til um í hvaða farveg málin fara núna, en Már sagði í viðtali við RÚV í gær að nú færu þessir aðilar, sem ekki hefðu tekið þátt eða boðið óraunhæft gengi, aftast í röðina við losun haftanna.