Guðni Th. Jóhannesson, nýr forseti Íslands, kemur svo sannarlega með ferskan blæ með sér í forsetaembættið. Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í 20 ár, en hann lætur formlega af embætti í ágúst. Bara af þeim sökum, það er hversu lengi Ólafur Ragnar hefur verið forseti, þá fylgir nýjum forseta ferskur andblær.
Guðni Th. hefur talað fyrir því, að hann ætli sér að verða forseti sem stendur utan fylkinga og tali fyrir samstöðu, og jákvæðum áhrifum á samfélagsumræðuna.
Það er svo sannarlega ekki vanþörf á því, að leggja þessum áherslumálum lið með góðum málflutningi, og það getur forsetinn gert. En það er líka augljóst mál, að næstu mánuðir gætu orðið sögulegir fyrir forsetann, því Alþingiskosningar hafa verið boðaðar í haust, og eins og landslagið er nú, á hinu pólitíska sviði, þá eru meiri líkur en minni á því miklar breytingar verði í stjórnmálunum.
Þá mun reyna á forsetann, að greina málin rétt, og færa þeim sem hefur til þess besta stöðu, umboð til ríkisstjórnarmyndunar. Guðni Th. hefur sýnt það, að hann hefur mikla og djúpa þekkingu á gangverki forsetaembættisins.
Vonandi mun honum takast vel upp, og eiga farsæla forsetatíð.