Móðuramma mín sagði eitt sinn: „Það er svo undarlegt, að ég þekki bara gott fólk!“
Nú þegar forsetakosningarnar eru afstaðnar, óska ég nýkjörnum forseta velfarnaðar í embætti. Í kjölfar úrslita þótti mér forvitnilegt að velta því fyrir mér, hvers vegna einstaklingur byði sig fram í kosningum?
Undantekningarlítið tel ég, að ástæðan sé sú, að viðkomandi telur, að hann geti látið eitthvað gott af sér leiða fyrir samfélagið. Vitaskuld gætu þó í sumum tilfellum persónulegir hagsmunir ráðið för að einhverju leyti.
Göngum út frá brjóstviti og innsæi ömmu minnar og þeirri skoðun minni, að hinn dýrmætasti kjarni hverrar persónu ráði för og skoðum forsetaframbjóðendur því næst í því ljósi.
Öll sjáum við heiminn fyrir okkur á mismunandi hátt og mótum okkar viðhorf eftir því. Viðhorfin skapast á lífsleiðinni og heimsmyndin fer eftir því, hvaðan við skoðum málin. Fjöllin gengt Húsavík hafa þrjú heiti eftir því, hvaðan þú horfir og sjálfsagt hefur þú, lesandi góður, heyrt söguna um blindu mennina og fílinn. Allir mynduðu þeir sér skoðun eftir því, hvort þeir snertu rana, búk, hala eða fót.
Þannig er með viðhorf frambjóðenda og einnig þeirra, sem meta þá, hvort heldur er um fjölmiðlafólk að ræða ellegar hinn venjulega kjósanda.
Hvort viðhorf frambjóðanda nær eyrum okkar fer þannig eftir því, hvort samhljómur fæst í sálum okkar og hvernig viðkomandi kemur hugsjónum sínum á framfæri í ræðu og riti. Stundum er frambjóðanda eðlilegt að vera hann sjálfur, án þess að fara í eitthvert sérstakt hlutverk, sem hann telur að passi aðstæðum hverju sinni.
Oftast skortir ekki „hefðbundna“ greind hjá aðilum. Stundum getur skort tilfinningagreind, er skapið hleypur með viðkomandi í gönur og fólk sýnir öðrum ekki tilhlýðilega virðingu. Aðrir eru feimnir, eiga erfitt með að koma fram og tjá sín viðhorf.
Heimsmyndin og viðhorfin verða til dæmis ólík eftir menntun, innrætingu, aldri, fjárhag og búsetu.
Viðhorf frambjóðendanna höfðuðu til þess dýrmætasta, sem þeir sáu fyrir sér. Ég nefni hér nokkur dæmi:
- verndun náttúru og allrar jarðar, við verðum að vera í órjúfanlegu jafnvægi vegna þess, að við erum eitt, allt hefur áhrif
- friðar, sem allir þrá, en sífellt er ógnað af persónulegri fullvissu um að hafa rétt fyrir sér eða græðgi
- frelsi einstaklingsins til eigin þroska, valda og klifurs í metorðastiganum
- lotningu fyrir sögu landsins, þjóðgilda og menningararfs
- stöðugleika og festu, sem skapi öryggi hjá fólki
- mikilvægi þess að vera auðmjúkur, þakklátur fyrir lífið, ættingja og vini
- víðsýni og gagnrýna hugsun, vissan um, að allt er breytingum háð, það sem virðist sannleikur í dag, getur reynst ósennilegt eða öðru vísi á morgun
- áhrifamáttur hugans og bæna, þó svo þekking okkar geti ekki fullyrt neitt, hvernig slíkt á sér stað
- mikilvægi einlægni, heiðarleika og ræktunar þjóðgildanna, svo að samspil alls sé í jafnvægi
- ákall um réttlæti og stjórnvisku svo að einstaklingum verði ekki mismunað
- hvernig glettni og góðar sögur geta lífgað tilveru okkar og gefið okkur annað sjónarhorn - önnur viðhorf á heiminn og samferðamenn okkar
Fjölmiðlar og aðrir, sem leggja dóm á frambjóðendur, ættu að tileinka sér þá reglu að vera víðsýnir og íhuga, hvaða viðhorf hvöttu viðkomandi til framboðs og jafnframt að meta hinn góða kjarna, sem leynist í öllum.
Ég óska þess, að allir borgarar þessa lands sameinist um öll þau góðu gildi, sem forsetaframbjóðendur, aðrir frambjóðendur, þeir, sem huga að hag þjóðarinnar og heimsins sem heildar, setja í öndvegi.
Hugmyndin um viðhorfsbreytingu veldur oft hugarangri. Minnumst þess að viðhorf okkar skapa þann heim, sem við skynjum. Nýir tímar eru framundan með ferskum einstaklingum með glæstar hugmyndir um að veðja á hið „góða, fagra og sanna“. Göngum saman á þeirri vegferð.