Það getur verið mikilvægt að halda heimildum til haga og skrá reynslu á opinberum vettvangi. Í nafni lýðræðis, gagnsæis og lærdóms hef ég því ákveðið að taka saman og birta upplifun mína af framboði til Alþingis fyrir flokk sem hefur talað gegn frændhygli og veifað sönnum lýðræðisvilja, almenningi til upplýsingar. Þá er þetta einnig skrifað í ljósi þess að aðeins 39 manns, eða 15% félagsmanna, samþykktu lista pírata í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust og vekur spurningar um styrk listans. Ég óska frambjóðendum góðs gengis en kannski er hér víti til varnaðar. Þá skal áréttað að ef mér væri sama um lýðræðið í landinu væri ég ekki að hafa fyrir þessum skrifum.
Smölun bönnuð
Hér verður fjallað um kerfismál eins og það birtist okkur sumum hverjum sem komum á dögunum ný inn í prófkjör pírata í NA-kjördæmi. Eftir hvatningu frá almenningi, vegna starfsferils og vegna þess sem ég hef fundið mig vel í að vinna með ólíkum hóps, m.a. inni á fjölbreyttum ritstjórnum, ákvað ég að taka áskorun og bjóða mig fram í prófkjöri pírata í NA-kjördæmi þar sem allt benti til að framboðið vantaði öflugt fólk, góðan liðsauka. Fyrsti félagsfundurinn norðan heiða var áhugaverður og stefnumótandi. Nýupplýst var þá að norðlenskir píratar ætluðu sér að fara af stað með eigið prófkjör, langt á undan öðrum aðildarfélögum, í raun án þess að almenningur vissi af því. Myndast hafði ráðandi kjarni hóps inni í félaginu með sterk tengsl við suma í kjördæmisráði sem var ábyrgt fyrir framkvæmd. Klíkukjarninn tók áleitnum spurningum um framkvæmd og asa prófkjörsins afar illa. Við nýliðar spurðum af hverju það lægi svona á að fara í prófkjör án þess að kjördagur þingkosninga lægi fyrir. Svarið var: Við ætlum bara í sumarfrí þegar þetta er búið. Þessi kosning er okkar innanfélagsmál og það er búið að ákveða fyrirkomulagið. Svo var hnykkt á því að smölun væri bönnuð. Virtist sem sumir rugluðu því hugtaki saman við að nýtt fólk bættist sjálfviljugt í flokkinn til að kjósa fólk sem það treysti. Aðgangur að félagaskrá var bannaður, a.m.k. fyrir okkur nýju frambjóðendurna. Borið var við landslögum! Hvað segja aðrir flokkar um það?
Sumir með VIP-passa
Við nýliðarnir gáfumst ekki upp þótt móti blési. Sjálfur vann ég eins og skepna að metnaðarfullu markmiði, brann fyrir að sjá eins öflugan lista og orðið gat og horfði þá einkum til þeirra verðleika sem jafnan eru metnir í gjóthörðu samkeppnisumhverfi þegar kom að mati á því hvaða frambjóðendur væru líklegastir til að gæta almannahagsmuna. Við kapteininn hér fyrir norðan áttum töluverð samskipti um tíma þar sem ég gagnrýndi þá stöðu sem t.d. hún væri í; að vera bæði formaður pírata á NA-landi en einnig í framboði. Þegar hún steig tímabundið til hliðar sem kapteinn vegna prófkjörsins ítrekaði hún að það væri alls ekki vegna hagsmunaárekstra og taldi ósmekklegt að blanda lífsbjörgum hennar inn í gagnrýni á hennar viðmót. Við rákum okkur á að það skipti ekki máli hvað var sagt og gert heldur hver sagði og gerði hlutina. Sumir voru með VIP-passa í partýinu. Öðrum var legið á hálsi fyrir að vera „þekktir“. Sumir sakaðir um að vilja fá sérmeðferð þegar hið rétta var að fólk vildi einfaldlega fá sömu virðingu og allir eiga skilið, nýir eða gamlir. Þá gaf að líta „kosningaspá“ tiltekinna stjórnarmanna (sem skjáskot eru til af) þar sem spáð var löngu fyrir kosningu fyrir um það hvernig lokauppröðun yrði. Ótrúlegt en satt þá gekk sú „spá“ nánast óbreytt eftir.
Leynd yfir prófkjöri áhyggjuefni
Misklíðin milli eldri félaga og okkar sem kannski mátti vel kalla „boðflennur í partýinu“ er margskjalfest. Við þessi nýju áttum erfitt með að fallast á sumt sem okkur fannst einkenna prófkjörið þótt annað væri vel gert, vanefnin voru alltaf auðsæ. Blaðamannsnefið sem ég hef þjálfað í að sjá hvað eru almannahagsmunir og hvað sérhagsmunir sagði mér að þótt áleitnar spurningar fengju engan hljómgrunn innan lókalfélagsins yrði að ræða ýmis lýðræðisleg og framkvæmdarleg álitamál við pírata á landsvísu. Ég ræddi því við kosningastjóra pírata, Jóhann Kristjánsson, um árekstra nýrra liðsmanna við „hefðarvaldið“ hér norðan heiða og skort á því að hans leiðbeiningum um framkvæmd prófkjörsins væri fylgt eftir. Ég ræddi líka við ýmsa trúnaðarmenn pírata í Reykjavík og komst að því að asinn, vanbúnaðurinn og það sem ég leyfi mér að kalla leyndin yfir prókjörinu væri mörgum flokksmönnum utan Akureyrar mikið áhyggjuefni. Sjálfsforræði kjördæmaráðs yrði þó ekki stöðvað, sögðu þeir, en viðurkenndu að afar óheppilegt væri að reynslulaust fólk færi fram langt á undan öllum öðrum kjördæmum. Helgi Hrafn Gunnarsson var í hópi gagnrýnenda og benti á að svona kynjahalli gæti engan veginn endurspeglað almenna kjósendur árið 2016. Hann spurði hvað lægi á eins og kom fram í fréttum. Svörin við okkar gagnrýni voru að gat væri í lögum til að grípa inn í, það var talað um byrjunarörðugleika, fjárskort og allsherjar vanbúnað. Af því að píratar eru píratar, tákn sakleysis og réttlætis myndu sumir segja, var maður beðinn um að afsaka aðstæður og halda bara áfram. En hvað með hugtakið ábyrgð? Látlaus „við og hinir“ umræða var í gangi. Annars vegar kvartaði ráðandi elíta staðarfélagsins yfir því hvað píratar fyrir sunnan væru þverir og afskiptasamir, lagatæknihyggja þeirra var t.d. talin blótsyrði. Til málamynda var þó framboðsfrestur framlengdur um viku og þá ekki síst til að fá fleiri konur en niðurstaðan að loknum úrslitum er jafnréttisslys eins og síðar verður vikið að.
Fleiri hundar en fólk á félagsfundi
Ég varð vitni að því þegar norðandeildin hundsaði boðaðan sáttafund í höfuðstöðvum pírata, Tortúga, með landsfélaginu vegna samskiptavanda sem hafði komið upp. Ég varð líka vitni að því þegar kosningastjóri pírata á landsvísu sagði á félagsfundi á Akureyri að það YRÐI að auglýsa framboðsfundina hér fyrir norðan áður en þeir fóru fram. Eigi að síður varð niðurstaðan sú að ENGIR fundir voru auglýstir. Niðurstaðan varð vitaskuld sú að nánast engir óháðir og leitandi fundargestir komu á framboðsbundina til að meta þá einstaklinga sem buðu sig fram til æðstu trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð, allan almenning en ekki bara pírata. Fleiri hundar en fólk jafnvel og þá er ég ekki að grínast. Ég sá einn nýjan fundargest sem var forvitinn að koma inn á framboðsfund spurðan hvort hann væri nokkuð með ofnæmi fyrir hundum þar sem hann stóð tvístígandi í gættinni! Alls komu samanlagt innan við tíu tvífættir óháðir gestir á þessa þrjá fundi sem voru þó opnir öllum, samanlagt um 10 gestir á þremur „opnum“ en óauglýstum fundum fyrir utan ókostaðar kynningar á facebook, um 10 fundargestir samanlagt á Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum. Þá er ekki minnst á hið meingallaða rafræna umhverfi sem nota átti í kosningunni. Mörgu tölvuóvönu fólki stóð vægast sagt stuggur af því. Vitað er um allmörg atkvæði sem runnu út í sandinn vegna tæknilegra hindrana og engin símanúmer til að hringja í. Auk þess fá ekki allir tölvupósta um það sem er í gangi hverju sinni.
Kærður fyrir brot á siðareglum
Það sem torveldaði okkur nýliðum í framboðinu að fá ýmsan vanda (og það sem við álitum amatörisma) ræddan opinberlega var að búið var að samþykkja siðareglur frambjóðenda sem þótt góðar væru torvelduðu gagnrýni. Það var búið að samþykkja að bannað væri að halla opinberlega máli á aðra frambjóðendur í prófkjörum. Opinber gagnrýni á ólýðræðislega og vanbúna framkvæmd prófkjörs gat orðið gagnrýni á þá sem sett höfðu reglurnar sjálfir en voru svo tengdir frambjóðendum eða voru sjálfir frambjóðendur og báru sannarlega tvo hatta eftir að þeir hinir sömu ákváðu svo líka að bjóða sig fram í efstu sæti. Ekki hjálpaði til þegar sá sem hér skrifar var kærður í kosningavikunni fyrir brot á siðareglum! Kæran var í raun byggð á þeim grunni að ég hefði í skriflegri kynningu gefið til kynna að ég byggi yfir reynslu sem gæti nýst mjög vel til þingmennsku! Sérstök nefnd innan pírata tók málið fyrir og vísaði kærunni samstundis frá en ég var látinn vita af því að kvörtun hefði borist. Af þessu máli spruttu margar póstsendingar sem verða e.t.v. birtar síðar. Ég taldi engin færi á að gera athugasemdir opinberar fyrir landslýð á meðan á þessu viðkvæma ferli stóð og þeir sem voru í prófkjöri voru – a.m.k ekki enn – orðnar opinberar persónur.
Ekki eðlileg útkoma
Flestir sem studdu okkur nýliðana vildu ekki ganga í pírata til að kjósa í prófkjörinu en sögðust myndu kjósa okkur í haust. Ég skildi það vel að fólk vildi ekki binda sig við stjórnmálasamtök eins og ástandið er. Svo poppaði niðurstaða prófkjörsins upp á píratasíðunni x.piratar.is kl. 12 á miðnætti á mánudagskvöldi. Niðurstaðan var eins og maður óttaðist. Daginn eftir hafði pírati samband við mig og benti á að það væri ekki eðlileg útkoma að öll stjórnin hefði tekið þrjú efstu sætin og ekki eðlileg útkoma að hlutskipti mitt hefði orðið 7. sætið. Sá pírati sagðist hafa heyrt að hópur fólks hefði ekki kosið eftir sannfæringu heldur sleppt því að haka við mig og aðra nýliða sem sumum stafaði ógn af eða sett okkur kerfisbundið með hóp í kringum sig í neðstu sæti. Ekkert hafi enn verið spurt um verðleika, traust og bakgrunn frambjóðenda.
Óþekktir Akureyringar skipa efstu sætin
Fjórir óþekktir Akureyringar skipa því fjögur efstu sætin á lista pírata í þessu víðfeðma kjördæmi, lista sem aðeins 15% félagsmanna gátu hugsað sér að samþykkja. Kynjaskiptingin er þannig að aðeins ein kona er í efstu átta sætum framboðsliðsta pírata í NA-kjördæmi. Var kannski óþarft að kjósa í þessu dvergprófkjöri? Var búið að stilla upp áður en við nýliðarnir buðum fram krafta okkar?
Ástæða þess að öflugasta konan (sem hafði hlotið kosningu í 4. sætið, býr á Austurlandi og hefði orðið frábær þingmaður) tók ekki sæti sitt og lét taka sig af listanum er væntanlega sú að þrjú efstu (stjórnin) hefur ekki verið til viðtals um að láta lækka sig um sæti sem þó hefði verið landfræðilega afar skynsamlegt með liti til þess að svæði vilja eiga eigin fulltrúa samkvæmt gammali sögu, það veit ég eftir að hafa fjallað um pólitík sem fréttamaður áratugum saman. Engir Austfirðingar eru í mögulegum þingsætum. Engir Þingeyingar. Engir í Fjallabyggð. Það spyr spurninga um raunverulega ást þessara þriggju efstu á lýðræðinu og raunverulegan vilja til að laða að sem mest fylgi fyrir pírata á landsvísu. Konan sem hafnaði 4. sætinu hefði orðið frábær oddviti listans. Hún skrifaði doktorsritgerð um höfundarétt. Þurftu píratar ekki á slíkri manneskju að halda?
Þagnarhjúpur og leynd
Ég lét orð falla að fenginni niðurstöðu sem ég hefði betur látið ósögð. En þau ummæli eru ekki kjarni málsins heldur það sem gerðist bak við tjöldin. Ég er ekki að afsaka mig en það sem olli mér mestu tjóni að lokinni niðurstöðu var „frústrasjón”, burtséð frá eigin framgangi, að sjá lítinn en ráðandi hóp fólks fara svo óvarlega með möguleika kjósenda að koma að umfram annað sanngjörnum og lýðræðislegum lista. Meira er undir en svo að þagnarhjúpur og leynd skuli leika um þá sem bera ábyrgð á að svo fór sem fór. Reynsla okkar nýliðanna rímar vel við reynslu annarra af pírötum fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2014. Líkindi þeirrar sögu sem Margrét Tryggvadóttir fyrrum þingmaður sagði í pistli á herdubreid.is, eru töluverð. Kíkjum nú aðeins á tölur. Um kynni Margrétar af pírötum í Kópavogi segir eftirfarandi í grein hennar: „Í fjölmiðlum var greint frá því að prófkjörið lyktaði af „smölun” sem var auðvitað fyndið í ljósi þess að aðeins 25 tóku þátt í að velja 11 frambjóðendur. „Smölunin” var auðvitað ekki í prófkjörið sjálft heldur á aukaaðalfundinn 23. apríl þar sem til stóð að breyta lögunum svo fleiri gætu kosið. Niðurstaðan réðst af því að aðeins örfáir höfðu atkvæðarétt."
78 manns kokkuðu saman lista
Ég mæli með að áhugamenn um lýðræði lesi grein Margrétar í heild nú þegar óumdeilt er að 78 atkvæði eru ábyrg fyrir þingmannalista án þess að nokkur mæling hafi verið gerð um óskir almennings. 78 sáu um að kokka saman lista hjá stærsta flokki landsins skv. skoðanakönnunum. Þrír trúverðugir frambjóðendur létu taka nöfn sín af lista pírata í NA-kjördæmi að lokinni niðurstöðu og aðrir báðu um að fara neðar en þar fóru ekki fremstir í flokki stjórnarmennirnir í þremur efstu sætunum. Auðvitað hafa allir stjórnmálaflokkar óhreinan þvott og það væri barnaskapur að ætla að Píratar væru þar undanskildir. Það sem hinsvegar hefur vakið vonir í brjóstum okkar margra var að píratar væru ekki í felum með það sem bjátaði á. Til að mynda dáðust eflaust margir að hugrekki þeirra þegar upp kom að vinnusálfræðingur hefði verið fenginn til að leysa deilur innan flokksins. En Píratar eru hættir að flagga óhreina þvottinum sínum, enda stutt í kosningar. Ég skil það sumpart vel en þöggun skil ég ekki. Eru ekki allir velkomnir í þetta partý?
Flokkur pírata eða almennings?
Lágmarkskrafa að mínu mati í svo vanbúnu prófkjöri var að allir flokksbundnir píratar ættu að eiga kost á að kjósa. Best hefði verið að hafa opnara prófkjör t.d. ekki með girðingum eins og að viðkomandi hefði þurft að vera 30 daga í flokknum fyrir kosningar. Þegar eins skammur fyrirvari er fyrir fólk að bjóða sig fram eins og raun bar vitni í NA-kjördæmi nýtist það þeim best sem eru innstu koppar í búri. Það getur bitnað á niðurstöðunni. Orðspor frambjóðenda, lýðræðislegur vilji og trúverðugleiki á að ráða vali kjósenda. Ekki 78 atkvæði.
Það mætti skrifa aðra grein um það magnaða hugsjónastarf sem mætti mér á landsvísu sem og frábæra frammistöðu þingmanna pírata sem augljóslega hafa mest að segja um gott fylgi í skoðanakönnunum. Kannski gerir maður það síðar. Eftir situr spurningin um ábyrgð, traust og virkt lýðræði. Ætla píratar sér bara að vera flokkur pírata eða ætla píratar að vera flokkur almennings?
Eina kjördæmið með óþekktu fólki
Og eitt að lokum: Það kæmi mér ekki á óvart eins og ég marghélt fram á félagsfundum að sú staða kynni að koma upp (þegar ég taldi mig finna hvernig naprir norðanvindarnir blésu gegn okkur nýja fólkinu, sem sannarlega vorum þó a.m.k. sum hver þekktari fyrir baráttu okkar fyrir almannahagsmunum en klíkuhópurinn) að NA-kjördæmi verði eina kjördæmið þar sem óþekkt fólk raðast upp í efstu sæti. Kosningarannsóknir sýna að þingkosningar eru að miklu leyti persónukjör. Kýs almenningur fólk sem það veit ekki hvort það getur treyst? Snúast ekki kosningar um traust gagnvart einstaklingum ekki síður en um stefnuskrá? Kýs almenningur þá sem hafa aldrei áður sannað að þeir búi yfir óspilltri hugsun og góðri og sjálfstæðri dómgreind? Er nóg að klíka fái umboð til æðstu trúnaðarstarfa fyrir almenning fyrir það eitt að segjast í góðri trú, án þess að hún hafi sýnt opinberlega að henni sé treystandi? Eru orð ein og sér líkleg til að laða að það massafylgi sem píratar sannarlega þurfa til að geta framkvæmt róttækar breytingar á stjórnkerfi landsins? Er aðeins ein tegund af orðræðu leyfileg? Þurfa allir þeir sem bjóða sig fram fyrir pírata að hjakkast á því á meðan á kosningaferli stendur að hóphyggjan sé mikilvægari en einstaklingar. Að enginn sé öðrum hæfari? Er það þannig sem við breytum veröldinni til hins betra?
Höfundur er blaðamaður og rithöfundur.