Þegar ég heyrði að Björn Þorláksson hefði gengið í Pírata og hyggði á framboð, kom mér það skemmtilega á óvart. Ég varð spenntur að fá eins reynslumikinn mann og hann inn í störf Pírata á Norðausturlandi. En mér þótti mjög leiðinlegt að heyra í fólki á förnum vegi sem lýsti því yfir, að ef hann yrði í efstu sætum myndi það ekki kjósa Pírata. Gaf fólk ýmsar skýringar sem ég ætla ekki út í hér. Ég íhugaði þessar yfirlýsingar vandlega og komst að þeirri leiðu niðurstöðu að ég gæti ekki kosið Björn í efstu sæti. Fjölmiðlamenn eru því miður oft umdeildir, auðvelt virðist vera að afla sér óvildarmanna í því starfi og oft eru þeir bestu umdeildastir.
Um framkvæmd prófkjörs í Norðausturkjördæmi hefur kannski ekki mikið verið skrifað í fjölmiðlum, en þeim mun meira í netheimum. Ástæður fyrir því að ákveðið var að fara í prófkjör svo snemma sem raun bar vitni voru nokkrar.
Talað var um á fundum að stærð kjördæmisins væri ákveðið vandamál, eftir reynslu úr fyrri kosningabaráttu var hvatt til þess að prófkjör yrði framkvæmt tímanlega. Þannig væri hægt að nýta sumar og haust í kynningarleiðangra um kjördæmið. Bent var á að Pírata í Norðausturkjördæmi sárvantaði talsmenn sem talað gætu fyrir hönd Pírata á því svæði. Minnast má á í því sambandi að lög um Upplýsingarráð Pírata koma einmitt frá Norðausturkjördæmi í beinu framhaldi af þeirri umræðu.
Eitt það fyrsta sem var rætt á komandi fundum var dagsetning. Voru menn sammála um að tíma þyrfti til að skipuleggja prófkjörið en að það þyrfti þó að passa sig að fara ekki of langt inn í sumarið þar sem sumarfrí og annað sumaramstur myndi líklega minnka kosningaþátttöku. Þannig var komist að þeirri dagsetningu sem ákveðin var. Stærsti punkturinn í þessu öllu er þó sú fáránlega staða sem núverandi stjórnarflokkar bjóða landmönnum upp á, með því að fastsetja ekki kosningar. Þannig hafa þeir haldið stjórnarandstöðuflokkum í spennitreyju óvissu og getgátna um verðandi kjördag.
Píratar höfðu rúmlega mánuð til að tilkynna framboð en allir Píratar gátu boðið sig fram í prófkjörinu, óháð búsetu. Hófst svo kynning á frambjóðendum innan flokksins og voru fundir stíft auglýstir á miðlum Pírata og einnig í andlitsflettuhópum Pírata. Allir eru held ég sammála um að leiðinlega fáir gestir létu sjá sig, en það er ekki vegna skorts á auglýsingum, vil ég fullyrða. Ekki treysti ég mér til að útskýra dræma fundarsókn að öðru leyti. Prófkjör fór fram og var ágætis þátttaka í því, miðað við skráða félaga.
Víkur nú að gagnrýni Björns sem kemur fram í aðsendri grein í Kjarnanum miðvikudaginn síðasta.
Björn minnist á að smölun sé óheimil. Það þarf ekki að hafa mörg orð um siðleysi smölunar í prófkjörum þar sem pítsur og bjór er í boði fyrir atkvæði. Fólk sem skráði sig í Pírata 30 dögum fyrir prófkjör var heimilt að kjósa og ekki býst ég við að kjördæmaráð hefði gert athugasemd við að Björn hefði reynt að stækka Pírata á Norðausturlandi með því að tala fyrir flokknum, en ekki tókst honum það. Misskilningur held ég að ráði því að Björn heldur að landslög banni aðgang að félagatali. Hins vegar eru það lög Pírata sem banna aðgang óbreyttra félagsmanna að félagatali, mig grunar nú að hann viti það, hitt hljómar bara betur. Setur hann síðan út á kosningaspá, en mig grunar að það sé hreinlega skoðanakönnun á Andlitsflettinu. Það ætti nú ekki að koma fjölmiðlamanninum á óvart að skoðanakönnun hafi síðan reynst sannspá um úrslit kosninga.
Þegar ég ræddi við fólk á aðalfundi Pírata uppgvötvaði ég að smá samskiptaleysi hafði átt sér stað. Ég stóð í þeirri trú að félagar okkar fyrir sunnan vissu rökin fyrir því að ákveðið var að ráðast í prófkjör eins fljótt og auðið var. Þessi ákvörðun var ekki umdeild, að ég best veit, þegar hún var tekin og ástæður augljósar, að okkur fannst. Engin leynd hvíldi yfir framkvæmdinni, engum var synjað um upplýsingar og voru menn reyndar hvattir til að kynna sér hvernig Norðausturkjördæmi stæði að prófkjöri. Fólk gæti þá séð hvað var vel gert og hvað mætti betur fara.
Kynjahlutföll eru, með réttu, Birni hugleikin og á sú gagnrýni rétt á sér. Hinsvegar má benda á að erfiðlega gekk að fá konur til að bjóða sig fram og hef ég ekki trú á að það hefði breyst þó svo að prófkjöri hefði verið frestað til hausts. Ekki kannast ég við pirring yfir félögum okkar fyrir sunnan. Því til staðfestingar voru breytingar á lögum, sem Norðaustur-Píratar lögðu fram samþykkt. En þær komu í veg fyrir að allir skráðir Píratar gætu kosið í prófkjörum allstaðar. Það var gert til að „lukkuriddarar“ eigi erfiðara með að hljóta kosningu. Það er rökstutt með því að það er ekki hægt að ætlast til að allir Píratar kynni sér alla frambjóðendur í öllum kjördæmum. Þá kemur hættan á því að fólk kjósi nafn sem það þekkir þó það hafi kannski aldrei talað við frambjóðandann. Ekki var fundurinn kl. 8 á laugardagsmorgninum umtalaður sem sáttafundur, heldur var talað um hitting til að kynnast og slíkt. Fæstir treystu sér til að mæta á þann fund, sérstaklega ekki eftir kynningarfundinn á föstudagskvöldinu sem stóð nokkuð lengi. Ekki er mér kunnugt um annan fund. Björn veit fullvel að allir fundir voru auglýstir á miðlum Pírata. Þó það hefði ekki verið verra að ná að auglýsa í staðbundnum miðlum þá voru hreinlega ekki tök á því.
Notast var við rafrænt kosningakerfi Pírata. Rétt er það að kvartanir heyrðust um að erfitt væri að finna réttan stað á síðunni til að kjósa. Var brugðist mjög hratt við því og leiðbeiningar settar á netið. Ef fólk gat ekki kosið með hjálp þeirra, er það mjög miður. En ég ætla að leyfa mér að efast um „allmörg“ atkvæði, nema við Björn skilgreinum „allmörg“ mjög ólíkt. Tölvupósta fá allir Píratar með skráð netföng, vandamálið er, eins og með svo marga tölvupósta, að fólk les þá ekki alltaf. Björn fullyrðir hinsvegar að sumir fái ekki senda pósta. Það er mjög leitt að heyra en varla við skipuleggjendur prófkjörs að sakast ef fólk skráir sig ekki rétt.
Björn kemur svo með eina alvarlegustu athugasemd sína, sem verður að svara. Hún er sú að þeir sem voru í prófkjöri hafi haft áhrif á framkvæmd prófkjörsins. Björn veit það alveg að hann fer með rangt mál. Kjördæmaráð var skipað, ágreiningur kom upp í byrjun sem endaði með að einn meðlima sagði sig úr ráðinu. Allt leystist þó um síðir og gaf ráðið út framboðsreglur. Kynningarhópur var skipaður, hann hafði veg og vanda að skipuleggja kynningarefni og fundi. En þetta fólk sakar Björn um að hafa ekki gætt fyllsta hlutleysis í sínum störfum og er það miður. Björn bætir svo frekar í en hitt og sakar hóp fólks innan Norðaustur-Pírata um að hafa ekki kosið eftir sinni bestu sannfæringu. Heldur hópað sig um að kjósa gegn honum. Þetta er ekki svaravert og lýsir Birni betur en kjósendum í prófkjörinu.
Mikill missir er af Kristínu Amalíu af listanum en hún náði 4. sæti sem hún afþakkaði. Við Björn erum sammála um að hún hefði orðið frábær þingmaður. Ekki veit ég af hverju hún afþakkaði sætið og ætla ekki að giska á það eins og Björn gerir í sínum pistli. Birni er tíðrætt um þagnarhjúp og leynd og reynir að gera alla framkvæmdina tortryggilega og leitar eftir þeim sem bera ábyrgð á niðurstöðum sem fengust út úr löglegum kosninum, en það er kjördæmaráð, leyndin er ekki meiri en svo. Vitnar hann svo í grein sem Margrét Tryggvadóttir skrifaði fyrir tveim árum. Ég bendi á að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, mörgum lögum breytt og starfshættir aðrir innan Pírata.
Lýkur Björn grein sinni með nokkrum spurningum. Eins og til dæmis hvort að kosningar snúist ekki „um traust gagnvart einstaklingum ekki síður, en um stefnuskrá?“ Þarna hittir Björn naglan á höfuðið því benda má á að prófkjör gera það einnig, þau snúast um traust. Næst kemur spurningaflóð sem lýsir best vankunnáttu Björns á innra starfi og uppbyggingu Pírata. Píratar standa einmitt ekki fyrir það að koma frægum einstaklingum á þing. Það er alls ekki þannig að það sé talinn galli að „venjulegt“ og „óþekkt“ fólk bjóði sig fram, eins og kemur best fram í því að Helgi Hrafn telur að hann nýtist betur í grasrótinni en á þingi þegar það tekur við eftir kosningar, hvernig svo sem þær fara.
Höfundur er meðlimur í kynningarnefnd Norðaustur-kjördæmis.