Rithöfundurinn Jaroslav Hašek, sem lést fertugur að aldri árið 1923, hafði hálfgerða náðargáfu þegar kom að því að greina flókin samfélagsmál með húmorinn að vopni.
Bókin sem hann dó frá áður en hann náði að klára hana, sagan stórkostlega um Góða dátann Svejk, er til marks um óvenjulega frásagnarhæfileika hans til þess að takast á við stórar spurningar með hnífbeittan húmorinn að vopni.
Svejk fer í gegnum hörmungar fyrri heimstyrjaldarinnar og lendir í ýmsum ævintýrum, en nær alltaf að koma niður á löppunum. Undirliggjandi eru hörmungar stríðsins, og hvaða hvatir það leiðir fram í fari manna.
Balkanskaginn og Austur-Evrópa er helsta landfræðilega sögusvið bókarinnar, en þar kveikti morðið á ríkisarfanum Franz Ferdinand í Sarajevo, í júlí 1914, bálið sem hrinti af stað skelfilegu stríði. Bókin hefst á því að Svejk fær þessar fréttir hjá rakaranum.
Staða mála í Tyrklandi nú, minnir á stöðuna á Balkanskaganum í upphafi fyrri heimstyrjaldar. Þá var kominn upp mikill flóttamannavandi og mikil spenna milli ólíkra þjóðbrota og trúarhópa.
Í Tyrklandi, þar sem búa tæplega 80 milljónir manna, er viðkvæm staða þessa dagana, svo ekki sé meira sagt. Erdogan forseti er nú að „hreinsa“ til í stjórnkerfinu eftir misheppnaða valdaránstilraun, en skammt undan er skelfing stríðs, alþjóðapólitísk spenna við landamæri og mikill straumur flóttamanna til landsins.
Vonandi tekst að stilla til friðar á þessu svæði, en spor sögunnar hræða. Blessunarlega eru nú fyrir hendi alþjóðastofnanir og ríkjabandalög sem hjálpa til við að efla samstarf og stilla til friðar, þegar þess þarf.
En atburðirnir í Tyrklandi gefa samt vísbendingar um, að hlutirnir geti breyst hratt til hins verra. Alveg eins og raunin var hjá Svejk, þó alltaf hafi nonum tekist að komast letilega í gegnum margvíslegar og ólíkar hindranir.