Elskum Ísland!

bjorgarnadottir.jpg
Auglýsing

Ég missti af vík­inga­klapp­inu á Arn­ar­hóli. Mikið hefði verið magnað að sjá jökul­inn loga að kvöldi þess dags þegar þjóðin hyllti fót­bolta­menn sína og þeir þjóð­ina. Sú stund, en ekki síst und­an­fari henn­ar, var nokkuð sem okkur sár­vant­aði. Ég hlakka til að fylgj­ast með hvernig við vinnum úr sam­eig­in­legri, jákvæðri reynslu okkar á næstu miss­er­um. 

Dag­inn eftir var mér bættur skað­inn en þá var ég við­stödd við­burð sem fram­kall­aði ekki síður gæsa­húð og gleði og minnti á mik­il­vægi sam­heldni. Þriðju­dag­inn 5. júlí söfn­uð­ust tvö hund­ruð og fimm­tíu söng­menn og konur saman í félags­heim­il­inu Skjól­brekku í Mývatns­sveit. Til­efnið var að ást­kær söng­stjóri allra lands­manna, org­anist­inn Jón Stef­áns­son eða Jónsi eins og hann var kall­aður hér í sveit, hefði orðið sjö­tugur en Jón lést í vor. 

Söng­elskir Þing­ey­ingar túlk­uðu fjár­lögin þetta kvöld með aðstoð fram­úr­skar­andi söng­stjóra og með­leik­ara. Þeir sem þekkja ekki fjár­lögin gætu haldið að fólk hefði safn­ast saman til að syngja laga­frum­varp (sem væri reyndar ágætis hug­mynd) en söng­fólk veit að fjár­lögin eru safn íslenskra ætt­jarð­ar­laga. Nafn­giftin mun til komin vegna for­síðu­myndar af kinda­hjörð á fyrstu útgáfu bók­ar­inn­ar. Fyrir ald­ar­fjórð­ungi stóðu Jón Stef­áns­son og Mar­grét Bóas­dótt­ir, annar ást­sæll tón­list­ar­maður úr Vogum í Mývatns­sveit, fyrir end­ur­út­gáfu fjár­lag­anna og nú þekkja allir bass­ar, ten­ór­ar, altar og sópranar lands­ins bláa og gula heftið sem við vorum með í hönd­unum þessa kvöld­stund nema nátt­úr­lega inn­fæddir Mývetn­ingar sem lærðu sína rödd í móð­ur­kviði.  

Auglýsing

Ég vil láta það sjá margan ham­ingju­dag

„Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land, ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag,“ sungum við á göngu­hraða. Þegar ég leit upp úr nót­unum á söng­stjór­ann Garðar Cor­tez fannst mér eitt and­ar­tak að Lars Lag­er­bäck stæði við stjórn­völ­inn. Þeir eiga sam­eig­in­lega ósér­hlífna ást á við­fangs­efnum sínum sem gera þá að lista­mönn­um. 

Áfram var sungið og Mar­grét, sem stóð fyrir þessum skemmti­lega við­burði, minnti á hve mörg íslensk ætt­jarð­ar­lög eru sænsk að upp­runa og upp­haf­lega drykkju­vís­ur! Takk, Sví­þjóð, fyrir að auðga mitt land með drykkju­vísum og fót­bolta­þjálf­ur­um. Takk, þjóðir heims, fyrir allt sem þið hafið fært okk­ur. Menn­ing­ar­lega ein­angruð værum við ekki lík­leg til stór­ræða. Góðir hlutir ger­ast þegar menn­ing­ar­straumar fljóta óhindr­aðir yfir land­mæri eins og saga íslenskra bók­mennta vitnar um.

Hrein ást og hags­muna­snauð

„Þetta er játn­ingin mín, kæra móðir til þín, ég get mikl­ast af því að ég sonur þinni er,“ sungu synir og dætur þessa lands og ég heyrði kon­una fyrir aftan mig segja að Jónsi hafi alltaf kallað þann stað  „sam­grón­ing­ana“ þar sem sópran­inn fer upp á tvístrikað f í ljóð­lín­unni um að svipur ætt­jarð­ar­innar sé „sam­gró­inn öllu því besta hjá mér­.“ 

Stolt er hollt hvort heldur með rödd­uðum eða órödd­uðum frum­burði. Það er gott að vera stoltur af sjálfum sér, landi sínu og þjóð þegar það á við. Ég er stolt af íslensku íþrótta- og lista­fólki sem fær okkur til að standa saman – ekki gegn umheim­inum heldur með hon­um. Það er líka gott að elska eitt­hvað sem maður getur ekki slegið eign sinni á. Ég ber sterkar til­finn­ingar til Mývatns­sveitar þótt ég greiði hér hvorki útsvar né atkvæði. Heima felli ég sjaldan tár yfir feg­urð Esj­unnar en hér hágrætir hún mig, fjalla­drottn­ing­in, sum­ar, vet­ur, ár og daga.  Í ljóði sínu Aug­uries of Inn­ocence orti William Blake (1757-1827) um það að sjá ver­öld­ina í einu sand­korni og himna­ríki í villtri jurt. Sam­fé­lagið hér við Mývatn er varla stærra en sand­korn í alþjóð­legu sam­hengi en hér sé ég þver­snið af allri heims­byggð­inni.  

Af meintri þrætu­girni Mývetn­inga

Frá gam­alli tíð þekki ég kyn­slóð­ina sem nú er að hverfa, fólkið sem ólst upp í sam­fé­lagi sem lítið hafði breyst frá því að Reyk­dæla­saga og Víga-Skúta var skrif­uð, fólkið sem valdi að búa hér vegna land­kosta sveit­ar­innar og hlunn­inda. Ég þekki líka næstu kyn­slóð, þá sem byggði upp iðnað og mynd­aði þétt­býli þegar land­bún­aður nægði ekki til fram­færslu. Fólkið sem sá virkj­anir og efna­vinnslu kljúfa forna sam­heldni en upp­lifði einnig „hvað vor ein­ing mik­ils má“ þegar Krafla minnti eft­ir­minni­lega á sig með eld­hrær­ingum hátt í ára­tug. Og nú hef ég kynnst kyn­slóð­inni sem mest mæðir á við upp­bygg­ingu nýrrar atvinnu­grein­ar. Ferða­þjón­usta er reyndar ekki ný af nál­inni í sveit þar sem fyrir kom að ábú­endur hrökkl­uð­ust af jörðum sínum vegna gesta­nauðar en sem stór­iðja virð­ist hún vera fram­tíð­in. 

Úr and­litum Mývetn­inga les ég atvinnu­sögu Íslands. Oft eru þeir sagðir þrætu­gjarnir en þrætu­girni finnst mér ekki meiri hér en á lands­vísu. Þróun atvinnu­vega setur Mývetn­inga hins vegar oft í þá stöðu að þurfa að takast á. Ég held að hvert styggð­ar­yrði sem hér fell­ur, hver van­hugsuð athöfn og hver mann­legur harm­leikur sé blás­inn upp í öðrum lands­hlutum vegna þess að örsam­fé­lagið við Mývatn er það sand­korn sem við getum skoðað okkur sjálf í. Við glottum þegar við heyrum um ósætti – já svona eru þeir þrætu­gjarnir enda hver undan öðrum -  en í raun eru deilur við Mývatn frétta­efni af því að þær spegla ósættið í okkar eigin ranni. Deilur í Mývatns­sveit eru örsmá útgáfa af land­lægu ósætti Íslend­inga. 

Við erum heppin með ferða­menn

Flestir sækja Ísland heim af ein­skærum áhuga á land­inu og æ fleiri vilja kynn­ast þjóð­inni líka. Ég er svo heppin að fá að hitta þessa góðu gesti sem auðga vort land og efla vorn hag. Stundum eyði­leggja þeir reyndar óvart þá ein­stöku nátt­úru sem þeir koma til að dást að en reynsla mín er sú að ferða­menn eru fúsir til að deila ást okkar á land­inu ef við kennum þeim að umgang­ast það (og göngum á undan með góðu for­dæmi). Ferða­þjón­ustan skilur eftir sig fleiri spor en flestar aðrar atvinnu­greinar vegna þeirra áhrifa sem hún hefur á mann­líf­ið. Sam­fé­lag sem opnar sig ferða­mönnum er svipt sak­leysi sínu og gest­irnir gera okkur Íslend­inga að full­vaxta þjóð. 

Þegar ég kem í Jarð­böðin við Mývatn stendur Kína­múr við afgreiðslu­borðið og ofan í lón­inu opn­ast mér nýir menn­ing­ar­heim­ar. Þar sá ég í fysta sinn konu í sund­búrku og sama dag fyllt­ist lónið af krull­hærðum síð­skeggjum í sund­bolum með hvirf­il­skýlur Drottni til dýrð­ar. Í sturt­unni í Jarð­böð­unum hef ég samt áttað mig á hversu eins­leitt mann­kyn er þegar það er nak­ið. Mann­kynið er eins­leitasta dýra­teg­und jarð­ar. Ef fiskaðir væru af handa­hófi tveir túristar úr lón­inu væru 99.925 pró­sent erfða­efna þeirra það sama. 

Hulda fólkið

Samt virð­ist for­ritað í þetta mann­kyn að ótt­ast annað fólk. Gamla testa­mentið er vett­vangs­rann­sókn á þeim erf­ið­leikum sem mæta flótta­mönnum og far­and­verka­fólki enn þann dag í dag. Nýja testa­ment­ið, sem og flest nýrri trú­ar- og heim­speki­rit, er hins vegar sjálfs­hjálp­ar­bók fyrir mann­kyn til að vinna bug á ótt­anum við hið óþekkta. 

Ég þekki huldu­fólkið í Mývatns­veit af því að ég til­heyri því sjálf. Átta hund­ruð hendur fjögur hund­ruð heima­manna geta illa sinnt hund­ruðum þús­unda gesta og því streymir hingað huldu­her sem réttir hjálp­ar­hönd við land­bún­að, ferða­þjón­ustu og störf til vernd­unar vatn­inu. Heima­mönnum í öllum heims­hornum hættir til að sjá far­and­lýð­inn sem and­lits­lausan massa sem á ein­hvern hátt hefur kom­ist hjá því að eiga sögu og sál en ég veit að við hvert upp­vask í Mývatns­sveit stendur efni­viður í skáld­sögu og auð­vitað efni í nýjan Mývetn­ing.   

Gefum okkur að við viljum tala íslensku

Um dag­inn sagði ég í hálf­kær­ingi í hópi heima­manna að lík­lega væri besta leiðin til að við­halda íslenskri tungu að flytja inn sem flest fólk. Mér til furðu tóku menn undir þetta með eft­ir­far­andi rök­stuðn­ingi: Gefum okkur að við viljum halda áfram að vera þjóð sem talar íslensku. Mesta hættan sem steðjar að mál­inu mun vera sú að staf­ræna bylt­ingin nær illa til fámennra mál­svæða enda verða ryksugur ekki for­rit­aðar til að tala íslensku nema þeim fjölgi sem vilja hafa sam­skipti við tækin sín á þeirri tungu. Mann­fjölda­spár gefa til kynna veru­lega stækkun þjóð­ar­innar en segja jafn­framt að stækk­unin komi nær öll að utan. Viljum við við­halda íslenskri tungu verðum við að auð­velda nýjum Íslend­ingum að eiga við okkur sam­skipti á því ást­kæra og ylhýra og þannig aukast staf­rænir mögu­leikar tungu­máls­ins til að lifa af. 

Og kona nokkur bætti við: „Af hverju getum við ekki fengið hingað eitt­hvað af því fólki sem verið er að reka úr landi? Þetta er fólk sem vill  búa meðal okkar en í stað­inn fáum við á hverju vori nýjar send­ingar sem við náum aldrei að kynn­ast.“ Ég held því ekki fram að þetta sé ríkj­andi við­horf í sveitum lands­ins en finnst áhuga­vert að heyra það frá konu sem hefur alda­langar rætur í íslenskri sveit og putt­ann á púlsi ferða­þjón­ust­unn­ar. 

Því fleiri sem elska Ísland þeim mun betra

Ást er ekki mun­að­ar­vara sem þrýtur vegna ofnotk­un­ar. Ást­ina þarf ekki að spara vegna þess að því meira sem tekið er af henni þeim mun hraðar fjölgar hún sér. Ég elska Jón Stef­áns­son, Mar­gréti Bóas­dóttur og Garðar Cor­tez fyrir að hafa sam­einað okkur í söng um ást á ætt­jörð­inni. Ég elska Lars Lag­er­bäck og sænska drykkju­söngva sem falla svo vel að íslenskri ætt­jarð­ar­ást. Ég elska Sví­þjóð sem veitti mér um hríð hæli til að vaxa og dafna. Reynsla mín er sú að inn­flytj­endur elska nýja landið jafn­vel heitar en heima­menn að því gefnu að vel sé tekið á móti þeim.

Í öllum trú­ar­brögðum heims má finna hvatn­ingu um að elska náung­ann eins og sjálfan sig. Kannski þurfum við að elska okkur sjálf aðeins betur til að geta sam­ein­ast í ást­inni á ætt­jörð­inni og því eins­leita mann­kyni sem við til­heyr­um. Elskum Ísland og hjálpum öðrum að gera það lík­a! 

Höf­undur hefur skrifað bók­ina LAKE MÝVATN – people and places (Stíl­vopnið 2015)

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None