Það er eðlilegt að gjalda varhug við áformum um nýtt einkasjúkrahús sem Mosfellsbær hefur nú úthlutað lóð. Eignarhald félagsins sem hyggst leggja í þessa fjárfestingu er að hluta til á huldu og óljóst hver er á bak við þessa stóru fjárfestingu upp á fjörutíu milljarða. Eðlilegt væri að gera kröfur um að allt eignarhald væri uppi á borðum þegar um stóra fjárfestingu er að ræða í viðkvæmum geira, sjálfu heilbrigðiskerfi þjóðarinnar.
Annað sem vekur athygli er að þeir sem standa á bak við þetta fyrirtæki segjast fyrst ætla að reisa sjúkrahúsið en síðan sækja um leyfi til rekstrarins. Það er sérkennilegt þegar um jafn stóra fjárfestingu er að ræða og vekur upp spurningar hvort ætlunin sé að þrýsta heilbrigðisyfirvöldum til að veita slíkt leyfi þar sem of miklir fjárhagslegir hagsmunir verði í húfi.
Hið þriðja sem vekur athygli er að hvorki heilbrigðisráðherra né landlæknir höfðu heyrt af hugmyndinni fyrr en lóðinni var úthlutað og í framhaldinu hafa vaknað stórpólitískar spurningar um það hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskt heilbrigðiskerfi. Ýmsir hafa stigið fram, settur landlæknir, háskólamenn og vísindamenn og bent á að áhrifin verði ótvíræð, samkeppni muni verða um íslenskt heilbrigðisstarfsfólk sem þegar er skortur á – fullyrðingar um að allt heilbrigðisstarfsfólk verði flutt inn geta ekki talist trúverðugar – og hér verði stigin fyrstu skrefin í átt að tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri geta borgað sig fram fyrir aðra – því ljóst er að einkasjúkrahúsið mun aldrei aðeins verða fyrir erlenda efnamenn heldur alla þá sem kjósa að borga fyrir þjónustu þess. Um leið muni hið almenna íslenska heilbrigðiskerfi verða í verulegum vandræðum.
Það liggur fyrir að heilbrigðisráðherra verður krafinn svara um hvort til greina komi að slíkt leyfi verði veitt þegar Alþingi kemur saman í ágúst. Það er líka eðlilegt að Alþingi skoði hvort ekki er eðlilegt að slík leyfisveiting, sem hefur í för með sér varanlega kerfisbreytingu á íslensku heilbrigðiskerfi, renni í gegnum Alþingi Íslendinga því þarna væri um algjöra pólitíska stefnubreytingu að ræða. Svar Vinstri-grænna í þessu máli væri algjörlega skýrt: Við viljum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi.
Höfundur er formaður Vinstri grænna.