Fréttir Kjarnans í gær um afstöðu annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem sitja við völd gagnvart samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar vöktu töluverða athygli. Þar sögðu Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, allar að þeir útiloki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar. Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst því yfir opinberlega að hann muni berjast gegn öllum kerfisbreytingum.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannsson, stofnandi Viðreisnar, tjáðu sig líka um afstöðu sína til mögulegs stjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokknum. Þótt báðir hafi komið því skýrt á framfæri að þeir væru ekkert sérstaklega hrifnir af núverandi ríkisstjórn, og Benedikt hafi nefnt sérstaklega andstöðu Sjálfstæðisflokksins við kerfisbreytingar sem fyrirstöðu, þá vildi hvorugur mannanna útiloka samstarf við nokkurn flokk. Bæði Óttarr og Benedikt sögðu flokka sína nálgast mögulegt samstarf út frá málefnum.
Því er það þannig að þær þrjár konur sem eru í forgrunni stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar á Íslandi útiloka að vinna með Sjálfstæðisflokknum og telja að flokkar eigi að ganga til kosninga þannig að kjósendur viti hverjir vilji vinna saman, en þeir tveir karlar sem stýra slíkum stjórnmálaflokkum vilja ganga óbundnir til kosninga.