Þótt áherslur síðustu tveggja ríkisstjórna landsins hafi verið afar ólíkar þá er þróun á ánægju kjósenda með þær það ekki. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf sinn starfstíma með tæplega 57 prósent stuðning en hann féll ansi fljótt og fór mest niður í 22 prósent í heitustu Icesave-deilunum. Í síðustu könnun MMR fyrir kosningarnar 2013 studdu einungis 31,5 prósent fráfarandi ríkisstjórn.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar upplifði sambærilegar sveiflur. Tæplega 60 prósent landsmanna studdu hana fyrst eftir að hún var mynduð en í könnun sem birt var daginn eftir að Sigmundur Davíð hrökklaðist frá völdum, 6. apríl 2016, náði stuðningur við hana sögulegri lægð þegar hann mældist einungis 26 prósent.
Stuðningurinn hefur aðeins braggast eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við forsætisráðuneytinu en mældist samt sem áður einungis tæplega 34 prósent í síðustu könnun.
Það sem gerir þessa hnignun á stuðningi við síðustu tvær ríkisstjórnir athyglisvert er að ráðgjafa- og aðstoðarmannastoðið í kringum slíkar hefur aldrei verið meira en hjá þeim tveim. Þá hafa þær báðar, einar ríkisstjórna í Íslandssögunni, ráðið sérstaka upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar til að tala upp verk þeirra við öll möguleg tækifæri og rífast við fólk á samfélagsmiðlum. Jóhann Hauksson gengdi því starfi í tíð Jóhönnu-stjórnarinnar en Sigurður Már Jónsson hefur gert það í tíð þeirrar sem nú situr.
Mögulega er lærdómurinn sem má draga af þessu sá að það borgi sig frekar að leyfa kjósendum að ákveða sjálfir hvort þeir séu ánægðir með störf ríkisstjórna í stað þess að vera með menn á háum launum við að segja þeim hversu frábær ríkisstjórn hvers tíma sé.