Í almennri umræðu um sjávarútvegsmál kemur oft upp krafan um aukna nýliðun í greininni. Í þessum kröfum felast hugmyndir um að skerða aflaheimildir eins til að færa með pólitískum útdeilingum til annars. Að baki þessarra hugmynda er sú rómantíska sýn að ungir frjálshuga menn geti farið á litlum bátum og róið til sjávar – nýliðar í sjávarútvegi. Þessi hugmyndafræði átti kannski við fyrir nokkrum árum eða áratugum síðan – alveg eins og orfið og ljárinn voru eitt sinn helstu verkfæri íslenskra bænda eða konur og karlar að salta síld undir berum himni á síldarplönum um allt land. Það er nefnilega ekki langt síðan að íslenskur sjávarútvegur var staðnaður, fjárfesting var lítil, inngrip stjórnvalda voru daglegt brauð, sjóðir settir upp til bjargar greininni, störf voru árstíðarbundin, atvinnuöryggi lítið og fiskistofnar voru ofveiddir. Greinin var ósjálfbær og veiðar óábyrgar. Greinin var óumhverfisvæn og fiskiskipaflotinn var alltof stór.
En árið er 2016. Undanfarna rúma tvo áratugi hefur íslenskur sjávarútvegur tekið stakkaskiptum og sökum þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem við búum við í dag hefur skapast möguleiki fyrir greinina að stórauka gæði, sækja á kröfuharðari markaði með ferskari vöru, hugsa til lengri tíma, búa til frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og áframvinnslu, minnka vistspor við veiðar og vinnslu og síðast en ekki síst búa til atvinnugrein þar sem sjómönnum og landverkafólki er tryggt atvinnuöryggi og betri laun.
Það er einmitt á þessum grunni sem jarðvegur hefur myndast fyrir nýsköpun og nýliðun í greininni. Við erum meðal fremstu þjóða þegar kemur að nýsköpun og fjölgun sprotafyrirtækja í einni atvinnugrein. Ungt, menntað og hugmyndaríkt fólk horfir á tækifæri í sjávarútvegi með öðrum hætti í dag en áður. Um allt land hafa sprottið upp fyrirtæki sem sjá sóknarfæri í sjávarútvegi – að nýta betur og fullnýta það hráefni sem úr hafinu fæst. Nokkur dæmi um fyrirtæki sem hafa þróað vörur fyrir heilsu- og lyfjageirann, unnar úr aukaafurðum í fiskvinnslu, eru Codland, Kerecis, Zymetech, Genís, Primex, Iceprotein, Ankra og fleiri. Íslenski Sjávarklasinn er suðupottur hugmynda þar sem yfir 50 fyrirtæki tengd þjónustu og nýsköpun eru á sama stað og leita nýrra tækifæra og þróa nýjar afurðir. Þau tæknifyrirtæki sem að greininni standa eru í fremstu röð eins og Marel, Skaginn, Vélfag, 3X, Valka og fleiri. Þessi fyrirtæki hanna og framleiða hátækni vélar og hugbúnað fyrir kröfuharðan sjávarútveg sem alltaf leitast við að nýta hráefnið betur og auka gæði. Á þeim grunni hafa þessi félög byggt sig upp og eru mörg hver stór á sínu sviði í alþjóðlegri samkeppni.
Ungt fólk sem fer í skipstjórnar- eða vélstjórnarnám menntar sig til að starfa um borð í skipum þar sem öryggi, starfsaðstaða og annar aðbúnaður er til fyrirmyndar og atvinnuöryggi er stöðugt.
Samstarf greinarinnar og háskólanna hefur getið af sér öflugar námsbrautir og verkefni tengd sjávarútvegi eins og sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri, Haftengd nýsköpun í Vestmannaeyjum og Hnakkaþon í HR. Forsenda þess að við náum enn frekari árangri í verðmætasköpun og eflingu mannauðs er að efla enn frekar og styðja við nám á öllum skólastigum tengt sjávarútvegi.
Þannig mætti lengi telja en að ofan má greinilega sjá að nýliðar í sjávarútvegi eru fjölmargir og þeir horfa til framtíðar. Sjá sóknarfærin í vöruþróun og nýsköpun, að starfa hjá spennandi tæknifyrirtækjum sem keppa á alþjóðamarkaði og sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru í fremstu röð á heimsvísu. Á þessi mið róa nýliðar nútíma sjávarútvegs.
Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).