Íslenska ríkið, í gegnum félagið Lindarhvol, hefur valið Landsbankann, í eigu íslenska ríkisins, til þess að veita ráðgjöf við sölu á hlutabréfaeignum ríkisins. Um er að ræða eignir ríkisins í stórum fyrirtækjum sem eru skráð á markað, Eimskip, Símanum, Reitum og Sjóvá.
Ríkið eignaðist hluti í fjöldamörgum fyrirtækjum í gegnum stöðugleikaframlög frá slitabúum fallinna banka. Þetta verður stór einkavæðing og það er mikilvægt fyrir alla að vel takist til við söluna, enda verður væntanlega um milljarða viðskipti að ræða.
Landsbankinn er ekki beint með flekklausan feril við sölu ríkiseigna, eftir söluna á hlut bankans í Borgun, í lokuðu söluferli fyrir lágt verð til valinna fjárfesta. Ráðamenn hafa viðurkennt að allt í kringum þá sölu hafi verið klúður. Landsbankinn nýtir vonandi þetta tækifæri til þess að sýna fram á að hann hafi lært af því dæmalausa klúðri, og hafi gegnsæið að leiðarljósi þegar ríkisbankinn selur ríkiseignirnar.