Greinilegt er að stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja reyna að ná betur til ungs fólks með því að einblína á fyrstu íbúðarkaupendur í sérstökum aðgerðum sem kynntar voru í gær. Þær byggja á því að veita fólki heimild til að nýta séreignasparnað, gegn skattaafslætti, til að greiða inn á fasteign.
Þetta er ekki nýtt af nálinni, og felur ekki í sér neina eðlisbreytingu frá því sem verið hefur.
Ein hlið á þessum aðgerðum sem snúa að því að stjórnmálamenn horfa til séreignarsparnaðar, þegar kemur að því að koma fólki inn á fasteignamarkaðinn, er að í þessum breytingum felst grundvallarbreyting á séreignarsparnaðarkerfinu.
Mótframlag atvinnurekenda var hugsað í upphafi, til að styrkja heildarumgjörð ávöxtunarmarkaðs fyrir fjármagn, sem til lengdar myndi svo skila atvinnulífinu og hagkerfinu öllu ávinningi. Þegar atvinnurekendur eru farnir að greiða beint inn á skuldbindingar fólks, þá slitnar þessi keðjuhugsun og eftir stendur allt annað kerfi.
Vonandi verða stjórnmálamenn tilbúnir að ræða um þessi mál - smáatriðin sem eru samt stór atriði - þegar þessi mál verða til umræðu á Alþingi.