Félag atvinnurekenda kynnti skýrslu um aðferðir við úthlutun tollkvóta á landbúnaðarvörum samkvæmt alþjóðlegum samningum 12. ágúst 2016. Í skýrslunni er sú uppboðsaðferðin, sem íslensk og norsk stjórnvöld nota við úthlutun tollkvóta, harðlega gagnrýnd. M.a. er bent á ógagnsæi sem hlýst af að sem innflytjendur vöru greiða mishátt verð fyrir tollkvóta fyrir þeirrar vöru. Þessu má kippa í liðinn með því að notast við sömu uppboðsreglur á innflutningskvóta og ráðuneytið notar við uppboð á mjólkurkvóta. Í skýrslunni er einnig bent á að uppboðsaðferðin vinni gegn anda þeirra alþjóðasamninga sem kveða á um skyldur Íslendinga til að heimila tollfrjálsan innflutning landbúnaðarafurða.
Landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hélt því fram í samtali við fréttamann Stöðvar 2, aðspurður um þá gagnrýni sem kemur fram í skýrslunni, að sjálft OECD hafi mælt sérstaklega með uppboðsaðferðinni. OECD er skammstöfun fyrir Organisation for Economic Co-operation and Development, gjarnan kölluð Efnahags- og framfarastofnunin í íslenskri þýðingu.
OECD hefur um langt árabil safnað upplýsingum um kostnað neytenda í aðildarlöndum sínum vegna alls lags takmarkana á innflutningi landbúnaðarafurða. Þannig kemur í ljós að svokallaður framleiðendastuðningur nemur tæpum 60% af heildartekjum bænda á Íslandi árið 2015. Framleiðendastuðningurinn er hærri í Noregi og Sviss (rúm 60% í báðum löndum). Framleiðendastuðningur í Evrópusambandinu er umtalsvert lægri, eða um 19% (var um 33% árið 2000). Þessi stuðningur er ýmist í formi beinna styrkja eða í formi innflutningsverndar. Þessi upplýsingasöfnun OECD opnaði augu stjórnmálamanna og almennings fyrir því hversu kostnaðarsöm verndarstefna á landbúnaðarsviðinu í rauninni er. Fram til 1995 var verndarstefnan rekin með algjöru banni við innflutningi ákveðinna vöruflokka eða með kvótasetningu þannig að einungis væri heimilt að flytja inn tiltekið magn af viðkomandi vöruflokki. Með Marakesh-samkomulaginu um landbúnað samþykktu aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization) að falla frá magnhindrunum og beita tollum (verðtakmörkunum) í staðinn.
Í vinnuskýrslu (Working paper) frá Vinnuhópi á vegum Viðskiptanefndar OECD frá 2004 eru rökin fyrir að breyta magnkvótum í tolla rakin: „The method of administering a quota can make a great deal of difference as to its effects. The method of administration that most economists would prefer, but which governments only occasionally use, involves the auctioning of quotas. This method of administering the quota comes close to replicating a tariff equal to the price of the license, since it not only raises the domestic price above the world price, but also allows the government to acquire the price difference (quota rent) as revenue.“(Sjá hér, box 3, bls 29).
Tollaígildi innflutningsbanns er mjög hátt. Auga leið gefur að sé tollur festur í hinu háa gildi mun ekki koma til innflutnings. Tollfrjálsu kvótunum er ætlað að brjóta þessa Catch-22 stöðu með því að opna glufu þar sem innfluttar landbúnaðarafurðir í hátollaumhverfi gætu verið seldar á samkeppnishæfu verði við heimaframleiðslu. Það má segja að með því að bjóða upp tollkvótana hafi íslensk stjórnvöld (og önnur stjórnvöld sem notast við sömu aðferð) unnið gegn anda samkomulagsins en ekki með því.
Undirritaður hefur leitað að staðfestingu þess að OECD hafi mælt með því að tollfrjálsir kvótar á landbúnaðarvörum séu boðnir upp en ekki fundið. Undirritaður hefur fundið bréf frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði þar sem þessi fullyrðing er sett fram. Í því bréfi er vitnað til skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í skýrslu starfshóps um tollamál er vitnað í ofangreinda skýrslu OECD frá 2004. Aðrar heimildir um þessa meintu afstöðu OECD hefur undirrituðum ekki tekist að finna. En lýsir vinnuskýrslan frá 2004 afstöðu OECD? Á bls. 5 segir m.a.: „The current study contributes to a more complete analysis of quantitative trade restrictions and seeks to provide additional background material relevant for the NTB-related discussions of the Negotiating Group on Market Access for Non-Agricultural Products.“ Hér er berum orðum sagt að pappírinn sé tekinn saman sem stuðningur við frekari umræður á vettvangi samninganefndar á sviði markaðsaðgangs fyrir vörur sem ekki eru landbúnaðarvörur! Vinnuskýrslan er ekki stefnuskjal og lýsir ekki afstöðu Efnahags- og framfarastofnunarinnar til aðferða við úthlutun tollkvóta landbúnaðarafurða samkvæmt alþjóðlegum samningum.
Vinnuskýrslan ber með sér að verið er að fjalla um ágæti þess að leggja af magntakmarkanir (Quantitative Restrictions, skammstafað QR) og notast frekar við tollaígildi og/eða uppboð tollkvóta sem lönd hafa sett einhliða. Undirritaður getur ekki séð að verið sé að fjalla um hvernig farið skuli með tollkvóta sem settir eru á grundvelli tvíhliða- eða marghliða milliríkjasamninga. Markmið einhliða kvóta er að vernda innlenda framleiðslu. Rök höfundar vinnuskýrslunnar (Peter Czaga heitir hann) eru þau að betra sé að bjóða slíka kvóta upp en að úthluta þeim með handahófskenndum hætti. Markmiðið með WTO-kvótunum og ESB-kvótunum sem landbúnaðarráðuneytið íslenska býður upp með jöfnu millibili er allt annað.Markmiðið með þeim kvótum er að opna íslenskan markað fyrir erlendri framleiðslu. Markmiðið er ekki að loka íslenskum markaði fyrir erlendri framleiðslu. Þess vegna er órökrétt að beita þeirri aðferð sem OECD mælir með að sé notuð, sé markmiðið að takmarka innflutning „hæfilega mikið“. Þess vegna er rökrétt að nota aðrar aðferðir en uppboð við úthlutun tollkvóta á landbúnaðarafurðum samkvæmt alþjóðlegum samningum. Þess vegna er alrangt að segja að OECD mæli með „íslensku aðferðinni“ við úthutun tollkvóta.