„Fyrsta fasteign“ útspil ríkisstjórnarinnar er fullkomin staðfesting á að stjórnvöld hafa steingleymt ástæðum eignabólunnar fyrir hrun.
Stór orsakavaldur bólunnar var allt of hátt séreignarhlutfall á Íslandi. Og skortur á opinberum leigumarkaði eins og í Skandinavíu.
Í eftiráspegli er því með eindæmum að núverandi ríkisstjórn byggði kosningasigur sinn á risaútgjöldum ríkisins til að viðhalda sömu kerfisvillu og skapaði áðurnefnda bólu. Skuldaleiðréttingin var kynnt til sögunnar sem stórt réttlætismál. Þar skiptu misjafnlega skuldsettir eigendur á milli sín 80 milljörðum af almannafé.
Leigjendur fengu enga samsvarandi upphæð, þeir máttu náðarsamlegast safna sér fyrir íbúð.
Fyrir 80 milljarða mætti byggja úthverfi á borð við Breiðholt, með þúsundum ódýrra leiguíbúða. Allt kjörtímabilið hafa aðgerðir til uppbyggingar á opinberum leigumarkaði verið í fullkomnu skötulíki.
Eins og í dæmisögunni safnar stjórnin nú öllum eggjum sínum aftur í sömu (séreigna)körfuna. Bóluandi áranna fyrir hrun svífur aftur yfir vötnunum. Bankar birta reglulega greiningar á fasteignamarkaði sem er í fullkomnu lagi. Fasteignasalar taka undir í fjölmiðlum. Tveggja stafa árleg prósentuhækkun á fasteignaverði telst fullkomlega eðlileg. Líka 65 prósenta hækkun á fimm árum í einstökum hverfum. Hagsmunaaðilar ráða ferðinni í opinberri umræðu.
Þegar verðhækkanirnar fara út úr kortinu fyrir ungt fólk og almenning beita stjórnvöld aftur sömu gömlu brellunni: auka aðgengi að lánsfé. Takið hærri lán. Eins og venjulega munu þessar aðgerðir að mestu fóðra hækkun á húsnæðisverði, frekar en að fjölga nýbyggingu. Það er enginn hvati í aðgerðunum sem minnkar skortinn á húsnæðismarkaði, eins og til dæmis að afmarka lánamöguleikana við nýbyggð hús.
Framan af hömpuðu fjölmiðlar skuldaleiðréttingunni sem vel heppnaðri aðgerð. Þar til nýlega að talnaglöggur samfélagsrýnir setti í gang vasatölvuna og vann heimavinnuna sína. Þá kom í ljós að láglaunaðir borga sjálfir „leiðréttinguna“ á sirka tveimur árum.
Ísland fjarlægist æ meira nágrannalöndin í húsnæðismálum. Stór skref í burtu er salan á Kletti og einkavæðingin sem fylgir í kjölfarið. Næsta skref er svo einkavæðing á almennum útlánahluta ÍLS. Þá munu bankar og fjárfestingarfélög á borð við Gamma sitja ein að húsnæðismarkaði almennings. Líklega verður besti ÍLS lánabitinn seldur á slikk til handvalinna kaupenda. Og ríkið látið sitja uppi með rest. Opinber leigumarkaður fyrir almenning sem velferðaráðherra veifaði á kjörtímabilinu er í besta falli fjarlægur draumur.
Fróðlegt verður að sjá hversu oft í röð almenningur veðjar á rangan hest í húsnæðismálum. Sömu töframenn, sömu hattar, sömu kanínur eru aftur komnir á kreik . Rétt fyrir kosningar.
Fasteignamarkaðurinn og húsnæðispólítíkin er komin í hring.
Velkomin aftur.
Til ársins 2007.