Í gær seldi ríkið hlut sinn í fasteignafélaginu í Reitum fyrir 3,9 milljarða. Salan er ekki laus við að vekja spurningar. Í ljósi fyrri mála, Borgunarmálsins sérstaklega, og þverrandi umboðs ríkisstjórnarinnar er rétt að spyrja spurninga um það hvort ekki sé verið að fara of hratt í söluna á þessum eignum.
Af hverju liggur svona á? Hvers vegna þurfti að selja allan hlutinn í fasteignafélaginu í hvelli meðan spáð er hækkun á fasteignaverði fram í tímann? Væri hægt að ná meiru fyrir hlutinn með því að gera þetta smátt og smátt?
Lindarhvoll er fyrirtæki sem stofnað var sérstaklega til að halda utan um fjölda félaga sem voru hluti af stöðugleikaframlaginu sem slitabú föllnu bankanna létu renna til ríkisins. Fyrirtækið á samkvæmt lögum að leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni og þar með að leitað sé hæsta mögulega verðs fyrir eignirnar.
Ferlið að þessu sinni var undarlega lokað. Útboðið opnað á föstudag og gengið frá sölu í gær. Það er mikið í húfi að ferlið sé hafið yfir vafa og traust sé á því að allt sé uppi á borðinu.
Í því ljósi má minna á ástæður þess að núverandi ríkisstjórn er að þrotum komin og boðað er til haustkosninga. Það er einmitt vegna þess að traustið er þorrið og að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa sýslað með sitt persónulega fé í aflandsfélögum og þar með lifað í raun í öðrum veruleika en allur almenningur. Tortryggnin er raunveruleg og hún er á rökum reist.
Fjármálaráðherra hlýtur að þurfa að svara því hvort til standi að ljúka við sölu þessara eigna í hálflokuðu ferli. Er hagsmunum ríkissjóðs borgið með þessu móti. Er verið að selja á hæsta mögulega verði eða er verið að flýta aðgerðum í skjóli nætur í aðdraganda kosninga? Er um að ræða brunaútsölu undir pólitískri tímapressu? Þessu þarf að svara.