Framboð Þorsteins Víglundssonar fyrir hönd Viðreisnar, í komandi Alþingiskosningum, er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Óhætt er að segja að það sé mikið reiðarslag fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þar sem Þorsteinn hefur verið í forsvari fyrir Samtök atvinnulífsins og hefur þótt standa sig vel í því starfi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman verið með mikil ítök hjá hagsmunasamtökum í atvinnulífinu, en sú staða virðist vera gjörbreytt.
Hann á sér marga fylgismenn í atvinnulífinu, sem ávallt hefur verið helsta vígi Sjálfstæðisflokksins. Nú virðast vera miklar blikur á lofti og breytingar í kortunum. Framboð Viðreisnar er líklegt til þess að einangra Sjálfstæðisflokkinn og taka frá honum mikið fylgi. Það sama má segja um Samfylkinguna, því Viðreisn tekur vafalítið einnig fylgi frá henni.
Nú verður forvitnilegt að sjá hvernig hið pólitíska svið þróast, fram að kosningum. Það er stuttur tími til stefnu fyrir stjórnmálamenn, að gera grein fyrir sínum stefnumálum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins virðist órafjarri því að geta haldið velli, eins og mál standa nú. Svo mikið er víst.