Fasteignaverðið heldur áfram að rjúka upp, en hækkunin hefur sérstaklega verið skörp í sumar eða um 2,2 prósent í bæði júní og júlí. Sé miðað við undanfarið ár þá er hækkun 12,4 prósent. Í ljósi þess hve hækkunin hefur verið hröð, þá eru eflaust margir sem velta fyrir sér hvort verðið muni hætta að hækka á næstunni eða lækka.
Landsbankinn segir þessa miklu hækkun eiga sér skýringar, og tölur um aukinn kaupmátt launa sýni að svo virðist sem verðið sé alveg í takt við uppganginn í efnahagslífinu.
Þetta virðist vera alveg rétt, en fólk má samt ekki gleyma því, að hlutirnir geta breyst hratt. Fari verðbólgan af stað aftur, þá versnar staða fólks hratt. Í Danmörku hefur umræða um hátt fasteignaverð verið viðvarandi, og þar eru greinendur farnir að benda fólki á, að verðið geti lækkað.
Fátt bendir til annars en að verð haldi áfram að hækka, vegna mikil skorts á litlum og meðalstórum íbúðum, þá geta ytri skilyrði í hagkerfinu breyst til hins verra með tilheyrandi hækkun á verðbólgu, verri lánakjörum og lækkun á eignaverði.
Fólk má ekki gleyma þessu.