Stjórnmál eru óumflýjanleg í samfélagi manna, sumir vilja meina að það sé mikilvægt að hafa smá pólitík. En stjórnmálin spila stóran þátt í þróun samfélagsins, lifandi samfélag kallar á að hlutirnir séu endurskoðaðir og endurhannaðir til bæta líf okkar. Það sem hefur kannski skort í stjórnmálum á Íslandi er að þau hafa ekki verið opin og aðgengileg öllum. Til þess að stjórnmálin hafi raunveruleg og bætandi áhrif á samfélagið í heild, en ekki smáan hóp, þá þurfa þau að vera opin, gagnsæ og uppbyggileg. Stjórnmálaaflið á að vera auðmjúkt þjónustu afl fyrir allt fólk á Íslandi.
Björt framtíð er sá vettvangur sem opnar leið fyrir okkur hin, sem erum ekki þessi klassísku stjórnmálamenn, til þess að taka þátt. Því innan Bjartrar framtíðar er markmiðið að vera í virku samtali og viljum við skapa afslappaðan vettvang þar sem ólíkir einstaklingar geti komið saman, spjallað, sagt sína skoðun, komið með hugmyndir og tekið þátt á eigin forsendum. Í hópnum er góð blanda af fólki sem hefur mikla reynslu í stjórnmálum og litla reynslu. Innan hópsins er gott samstarf, skilningur á aðstæðum hvers annars og tæknin er nýtt ótrauð til þess að koma á samtali.
Núna, í þessum alþingiskosningum, er frábært tækifæri fyrir hinn almenna kjósanda að breyta orðræðunni á alþingi. Björt framtíð hefur sýnt fram á það að það sannarlega hægt að vinna vel inni á þingi án þess að vera með frekju og yfirgang. Það má með sanni segja að þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt sitt á vogarnar við að breyta þeim hefðum sem nú þekkjast á Alþingi. Þau standa ekki í fjölmiðlum og berja sér á brjóst um hugsanleg mál sem þau gætu komið í gegn og gæti reynst einhverjum hluta þjóðarinnar vel. Þau setja hausinn fyrir sig, halda ótrauð áfram án þess að hika. Þau leita sér upplýsinga til hins almenna borgara, til sérfræðingsins í hverju máli og klára það af fagmennsku.
Lítum á staðreyndir, þingmenn Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili komu í gegn málum eins og Breytingu á fæðingar- og foreldraorlofi eftir andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu sem Páll Valur vann að. Löggjöf um Lýðháskóla sem Brynhildur vann að. Guðmundur Steingrímsson hefur barist ötullega fyrir jöfnu búsetuform barna sem búa á tveim stöðum. Óttarr Proppé hefur gert sitt besta til þess að Mannanafnanefnd verði lögð niður. Einnig hafa þingmenn Bjartar framtíðar rætt ófeimið um það hvort íslenska krónan sé raunhæfur gjaldeyri framtíðarinnar, lagt fram breytingar á frídögum svo þeir nýtist betur, breytingu á fyrirkomulagi í forsetakosningunum. Svona má lengi telja.
Við Helgurnar höfum fulla trú á að við höfum kraft til þess að taka við kefli þeirra þingmanna Bjartrar framtíðar sem hafa ákveðið að stíga til hliðar og hleypa öðrum að til þess að spreyta sig í þessu mikilvægu störfum. Okkar markmið er að koma inn með nýja sýn, tengingu við þann veruleika sem hinn almenni íslendingur þekkir. Við viljum nýta þann kraft og þekkingu sem við höfum að geyma til þess að byggja upp betri stjórnsýslu, skilvirkara Alþingi og meiri virðingu í samskiptum. Við viljum að verkefnin fái farveg, hvaðan sem þau koma.
Það fljúga margar yfirlýsingar um flokkinn þessa dagana sem auðvelt er að svara. Björt framtíð er dauður flokkur = nei, langt í frá. Hann er sprelllifandi, mannaður mögnuðu og virku fólki sem var ekki lengi að mynda lista fyrir komandi kosningar. Björt framtíð er sundurleitur flokkur = alls ekki, við erum sannfærð um að þú finnir ekki samheldnari flokk sem vinnur betur saman. Björt framtíð er illa sýnileg í fjölmiðlum = já, þar stendur hnífurinn í kúnni. Við erum kannski full „dönnuð“ fyrir fréttamennsku dagsins í dag.
Höfundar eru á lista Bjartrar framtíðar í Suðvesturkjördæmi.