Mannréttindi eru alls ekki flókin. Þau snúast eingöngu um það að fólk noti skynsemi, sýni samkennd og ábyrgð gagnvart öðru fólki á þessari jörð. Við sem erum svo lánsöm að búa á Íslandi þar sem mannréttindi, jafnrétti, lýðræði og frelsi eru höfð að leiðarljósi og eru gildi sem við höldum hátt á lofti. Það þýðir auðvitað að við höfum sama rétt til að vaxa og dafna og við stöndum jafnfætis hvað varðar tækifæri á vinnumarkaði, í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu og almennt í samfélaginu. Er það annars ekki þannig? Eru ekki allir jafn hamingjusamir með stöðu sína og hlutverk í samfélaginu? Erum við ekki öll bjartsýn þegar við íhugum framtíð okkar?
Ég vildi að það væri sannleikurinn en staðreyndir sýna okkur annað. Til eru minnihlutahópar sem fá ekki sömu tækifæri og aðrir og geta ekki verið jafn bjartsýnir á framtíð sína. Sumir upplifa baráttu við kerfið og samfélagið sem tekur ákvarðanir fyrir þeirra hönd. En hvers vegna skyldi vera vilji til að halda niðri minnihlutahópum? Og er það virkilega svo að þessir hópar séu beinlínis notaðir öðrum í hag?
Um síðustu helgi birtist frétt sem varðaði Össur Skarphéðinsson og smölun í prófkjör. Sú frétt stakk mig illa. Ég ætla ekki að taka afstöðu varðandi það hvað átti sér stað þar. Ég verð þó að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri af því að hópur innflytjenda sé notaður með þessum hætti. Þetta eru hins vegar ekki verstu brotin. Sjálf hef ég, sem leikskólastjóri, hringt í vinnuveitendur foreldra sem eru af erlendu bergi brotnir til að minna þá á rétt foreldra til að vera heima með veik börn sín. Við erum farin að heyra oftar um mansal og mismunun á vinnustöðum þar sem um er að ræða brot á réttindum innflytjenda hvað varðar kaup þeirra og kjör. Á sama tíma er fjálglega talað um þörf fyrir „erlent vinnuafl“ í þjónustu við ferðamenn. Af hverju er ekki talað um þörf fyrir erlenda starfsmenn með menntun og reynslu á sviði heilbrigðis-, menntunar- og velferðarmála? Það er alls staðar skortur á vinnuafli í samfélaginu en fjölmargir útlendingar sem fá erlenda menntun sína ekki metna til fulls.
Það truflar mig mest við þessa nýjustu frétt um misnotkun á útlendingum í tengslum við prófkjörssmölun er hvað ég er farin að heyra oft um slík brot. Rétturinn til að kjósa er alls ekki sjálfgefinn. Sumt af þessu fólki er í fyrsta sinn að nýta sér það dýrmæta tækifæri sem felst í því að fá að kjósa. Okkar atkvæði endurspegla okkar rödd, skoðun og frelsi, óháð því hvort um er að ræða Alþingiskosningar eða framkvæmdir í fjölbýlishúsinu þar sem við búum.
Ég sá umrædda frétt þegar ég var á heimleið úr Skálholti þar sem frambjóðendur Bjartrar framtíðar vörðu saman tíma til að ræða um málefni, samstöðu, samvinnu og virðingu. Um gildi okkar og framtíðarsýn. Þeir þingmenn sem nú skipa þingflokk Bjartrar framtíðar hafa barist fyrir mannréttindum og jöfnuði á ýmsum sviðum samfélagsins. Mér er það mikil ánægja að vera innflytjandi og skipa fyrsta sæti í Reykjavík suður á framboðslista flokksins. Ég er stolt af því að ætla að vinna að því að Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar. Ég vil fá tækifæri til að nýta krafta mína til þess að fullt jafnrétti ríki milli kynjanna og ólíkra þjóðfélagshópa og að fólk njóti sömu launa fyrir sömu störf og njóti jafnra tækifæra. Það er staðreynd að allt of fáir innflytjendur fá tækifæri eins og ég fæ núna og ég mun svo sannarlega ekki sóa því. Ég mun nýta öll tækifæri sem gefast til að ljá þeim sem á þurfa að halda, rödd mína og stuðning. Ég veit nefnilega að ég er einunings ein af mörgum sem hefur bætt íslenskt samfélag með fjölbreytni og reynslu sem ég „flutti inn“ með mér.
Höfundur situr í 1. sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður.