Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein hér á landi. Bæði koma þar til byggðasjónarmið en ekki síður í seinni tíð mikill vöxtur ferðaþjónustunnar. Stóraukinn fjöldi ferðamanna skapar fjölda tækifæra fyrir landbúnað, ekki aðeins í uppbyggingu á ferðaþjónustu bænda heldur ekki síður í þeirri auknu eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum og þá sér í lagi afurðum beint frá býli. Þá eru fjölmörg tækifæri til útflutnings á hreinum og náttúrulegum íslenskum afurðum samhliða aukinni eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum matvælum. Þar standa fá lönd jafn vel og Ísland með okkar hreina vatn og grænu orku.
Það sem helst stendur landbúnaði fyrir dyrum í dag er löngu úr sér gengið styrkjaumhverfi, miðstýrð framleiðsla og sala í gegnum afurðarstöðvar og mikill skortur á samkeppni vegna fákeppni innanlands og verulegum hömlum á innflutningi. Þegar öllu er á botninn hvolft eigum við nefnilega að byggja upp landbúnað hér á landi sem getur skilað okkur samkeppnishæfum vörum sem neytendur sækja í, ekki af því þeir eiga ekki val um annað, heldur vegna þess að þeir velja þessar vörur umfram aðra kosti.
Sögulegt tækifæri farið forgörðum
Við endurskoðun búvörusamnings nú gafst sögulegt tækifæri til breytinga á umhverfi landbúnaðar. Að endurskoða styrkjaumhverfið með þeim hætti að það stuðlaði að aukinni hagræðingu og nýsköpun í greininni, að auka frelsi bænda til að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og síðast en ekki síst að stuðla að aukinni samkeppni með því að afnema undanþágur greinarinnar frá samkeppnislögum og draga úr tollvernd á innflutningi. Með þeim hætti hefði mátt marka stefnu til framtíðar þar sem saman færi áframhaldandi ríkisstuðningur við þessa mikilvægu atvinnugrein, aukin samkeppni og á endanum lægra vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur.
Þingið féll á prófinu
Það voru því mikil vonbrigði að sjá hvernig Alþingi fór með það tækfæri sem gafst til umbóta í landbúnaði með nýjum búvörusamningi. Samningurinn sem samþykktur var í vikunni breytir í engu samkeppnisumhverfi landbúnaðar. Ekki verður séð að samningurinn stuðli að mikilli hagræðingu í greininni né fjölgi tækifærum bænda til nýsköpunar með framleiðslu og sölu beint frá býli. Þá vakti það athygli að á endanum var hann samþykktur með aðeins 19 atkvæðum. 30% þingmanna studdu því samninginn. 7 greiddu atkvæði á móti en um 60% þingmanna kaus að sitja hjá eða mæta ekki til atkvæðagreiðslu. Þetta veldur óneitanlega vonbrigðum enda um mikla hagsmuni að ræða. Síðast en ekki síst virðast fyrirheit um styttingu samningstíma vera blekkingin ein, enda bændur með neitunarvald á hvers konar endurskoðun samningsins.
Alþingi féll á því prófi sem það stóð frammi fyrir, hvort sem horft er til fulltrúa stjórnarandstöðu eða meirihlutans. Samningurinn felur í sér loforð um nærri 14 milljarða árlegan styrk til bænda til næstu 10 ára, auk um 8-10 milljarða árlegs stuðnings til viðbótar í formi tollverndar. Það er fullkomlega eðililegt að á móti svo ríkulegum stuðningi komi krafa um aukið hagræði og lægra vöruverð fyrir neytendur. Það er löngu tímabært að breyta núverandi fyrirkomulagi. Þar skortir ekkert nema vilja þeirra sem sæti eiga nú á Alþingi. Í komandi kosningum gefst færi á að breyta því.