Við föllum oft í þá gryfju að meta ríkidæmi og hagsæld aðeins út frá magni en ekki hreyfingu. Hvað á Ísland mikinn pening og hvað skuldar Ísland? Þetta eru oft einu kennistærðirnar sem notaðar eru til að meta efnahagsástand. Magn getur þó verið mjög brothætt stærð eins og eftirfarandi dæmisaga gefur til kynna: Tveir menn bjuggu á eyðieyju og var annar hárskeri en hinn ljóðskáld. Á eyjunni var bara til einn þúsundkall í reiðufé. Peningaleg staða eyjarinnar var því einföld þ.e. 1.000 kr. og skuldleysi. Eyjan fór hins vegar í gegnum tveggja ára tímabil þar sem mikil munur var á verðmætasköpun og hagsæld milli ára, þrátt fyrir að peningaleg staða væri sú sama. Fyrra árið var mikið að gera, ljóðskáldið fór oft í klippingu og borgaði fyrir með 1.000 kr. Þetta gat hann gert margoft enda hárskerinn áhugamaður um ljóðagerð og keypti í gríð og erg ný og falleg ljóð af skáldinu. Ljóðskáldið magnaðist upp við þessa eftirspurn og ákvað, árið eftir, að safna hári til að líkast meira alvöru listamanni. Viti menn, það ár var ekkert ljóð samið á eyjunni enda hrundi eftirspurnin þrátt fyrir að ljóðið kostaði ennþá bara 1.000 kr. stykkið Svona getur jafnrík eyja upplifað tvö afar mismunandi tímabil með sama magni af peningum. Það eina sem breyttist var jú hraði peningafærsla. Fyrra árið fengu allir íbúar á eyjunni margoft útborgað og þar voru glæsilegar hárgreiðslur og ljóð framleidd í miklu magni. Seinna árið var ekkert að frétta.
Af hverju er ég að benda á þetta? Jú, heimurinn allur stendur frammi fyrir sameiginlegu vandamáli sem eru loftslagsbreytingar. Til eru þeir sem vilja sem allra minnst gera, annaðhvort vegna vanþekkingar á málinu eða kostnaðar við aðgerðir sem draga úr útblæstri. Ég á mjög erfitt með skilja að á heimsvísu sé einhver kostnaður til staðar í lokuðu kerfi þar sem heimurinn allur er undir. Að loka kolaorkuveri og opna vindorkuver í staðinn felur vissulega í sér mikinn kostnað. Þeim peningum er hins vegar ekki hent út geim eða brennt, nei þessi kostnaður eru tekjur einhvers annars. Peningar hverfa ekki, þeir færast bara frá kolaiðnaði yfir í vindorkubransann. Vissulega getur ákveðinn hópur eða svæði lent í kostnaði og tapi en einhver annar fær þá tekjur og græðir í staðinn. Alveg eins þegar filman tapaði en stafræna tæknin græddi þegar fólk keypti nýjar myndavélar. Heimurinn hélt áfram að taka myndir en verðmætin höfðu færst til.
Nú þarf kröftuga tilfærslu frá jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku. Af öllum löndum þá ættum við að hlægja af úrtöluröddum og hræðsluáróðri um kostnað við tilfærsluna. Ísland er nefnilega ekki filman heldur stafræna landið. Það eru við sem framleiðum nútíma orku en ekki gamaldags jarðefnaeldsneyti og ættum því að fagna tilfærslunni. Fólk mun áfram kaupa bíla eins það hélt áfram að kaupa myndavélar á sínum tíma. En ef fólk mun velja rafbíla þá færast verðmæti frá öðrum til okkar enda framleiðir Ísland ekki olíu frekar en filmur. Ísland getur hins vegar framleitt nóg af umhverfisvænu rafmagni sem er mun skyldara stafrænu myndavélinni. Við ættum því að styðja kröftuglega við þessa nauðsynlegu tilfærslu sem mun á endanum skila okkur meira svigrúmi en áður til að fara oftar hárgreiðslu og kaupa ljóð.
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.