Fyrir Alþingi liggur nú nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Frumvarpið felur í sér miklar breytingar á námslánakerfinu, breytingar sem ýta undir ójöfnuð verði þær að lögum. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að nemendur fái námsstyrk í hverjum mánuði en verði frumvarpið að lögum munu nemendur í lánshæfu námi eiga þess kost að fá styrk upp á 65 þúsund krónur á mánuði í fimm skólaár, uppfylli þeir kröfur um námsframvindu.
Þegar rýnt er í þær heildarbreytingarnar sem boðaðar eru kemur þó í ljós að frumvarpið er ekki til þess fallið að auka jafnrétti til náms. Öllu heldur hefur það þau áhrif að misskipting eykst.
Í frumvarpinu eru lagðar til margþættar breytingar sem leiða til ójöfnuðar. Á sama tíma og til stendur að veita öllum stúdentum námsstyrki, óháð því hvort þeir þurfa á styrknum að halda eður ei, stendur til að leggja niður tekjutengdar afborganir námlána og hækka vexti af afborgunum. Í nefndaráliti minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis segir m.a. að afborgunarbyrði muni hækka hjá meirihluta þeirra sem taka námslán og að ljóst sé að stúdentar sem þurfa að taka námslán stöðu sinnar vegna greiði óbeint fyrir þá styrki sem stúdentar sem ekki þurfa að taka námslán njóta. Einnig er lagt til að endurgreiðsla lánanna hefjist fyrr, takmarkanir verði settar á skólagjaldalán og þeir nemendur sem þurfi að hægja á námi sínu, t.d. vegna veikinda, geti ekki fengið styrk.
Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir núgildandi lög um lánasjóðinn tækifæri til náms án tillits til efnahags en umræddar breytingar brjóta í bága við þau markmið. Frumvarpið gerir að verkum að misskipting eykst og vegur þannig að jafnrétti til náms. Námslánakerfið hefur þannig bein áhrif á samfélagið okkar. Vinstri græn trúa því að allir eigi að hafa tækifæri til að stunda nám á háskólastigi, án tillits til efnahags og vilja skapa samfélag jafnra tækifæra, þar sem allir fá tækifæri til að blómstra.
Höfundur er laganemi og frambjóðandi Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður.