Nýverið héldu samtök iðnaðarins fund þar sem frambjóðendur nokkurra stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum. Samtökin komu mjög vel nestuð til þessa umræðufundar og lögðu fram sex vel ígrundaða áherslupunkta tengda málum sem þau telja hvað mikilvægast að verði í sviðljósinu í kosningaumræðunni. Því miður snérust umræður pallborðsins svo til eingöngu um hagstjórnartæki eins og krónuna og skatta í stað þess að taka púlsinn á framtíðarsýn þeirra stjórnmálaflokka sem þarna áttu fulltrúa.
Þessar umræður voru því miður ekkert einsdæmi og ég skil ekki af hverju við kjósendur látum bjóða okkur þetta trekk í trekk. Það er hreinlega ekki forsvaranlegt að leyfa stjórnmálaumræðunni, þegar aðeins korter er í kosningar, að snúast eina ferðina enn aðeins um hvaða hagstjórnunartæki hugsanlega virki best í stað þess að ræða framtíðarsýn og í framhaldi af því, hvaða tæki munu virka best til að ná þeim markmiðum sem brenna helst á.
Það hlýtur að vera ljóst öllum þeim sem vilja sjá að Parísarsamkomulagið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verður einfaldlega að móta efnahagslegan langtímastöðugleika og framtíðarhagkerfi Íslands. Umhverfis- og loftslagsmál eru ekki lengur einkamál hugsjónafólks, þau eru lykilforsendur framtíðarhagvaxtar og lífsafkomu okkar. Ísland á að byrja á að axla fulla ábyrgð á alþjóðavettvangi og lýsa því yfir að við munum ekki vinna olíu á Drekasvæðinu.
Við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið og miða við að árið 2050 verði Ísland búið að innleiða að fullu grænt lágkolefnishagkerfi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fullnýtingu afurða og öflugri nýsköpun á sviði líftækni og hugvits. Út frá þeirri sýn eigum við svo að velja hvaða gjaldmiðill og skattstofnar henti okkur best svo þjóðin sem heild njóti góðs af. Við eigum aragrúa nýlegra fagupplýsinga um hvernig við getum staðið að þessum kerfisbreytingum á samþættan hátt, þvert á núverandi ráðuneyti og tengdar stofnanir. Þjóðin telur aðeins um 330.000 þúsund manns svo getum þetta auðveldlega – ef við viljum.
Það er alveg ljóst að iðnaðurinn og atvinnulífið munu þurfa að vera í fararbroddi fyrir þeim tæknilegu og samfélagslegu breytingum sem þurfa að eiga sér stað hérlendis svo við náum að uppfylla alþjóðaskuldbindingar okkar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu áratugum sem og til að byggja upp og efla íslenskt grænt lágkolefnishagkerfi.
Við þurfum til að mynda að taka alla innviði og atvinnugeira samfélagsins til skoðunar og laga þá að sjálfbærum áherslum. Sem dæmi má nefna samgöngukerfið, bíla- og skipaflotann, byggingar, frárennsli, landbúnaðinn, ferðaþjónustuna og sjávarútveginn. Það gerist ekki nema að tækni og þverfagleg þekking til að beita henni séu til staðar. Það er einnig mikil þörf fyrir nýjar fagáherslur og samþætta menntun svo tryggt sé að framtíðar iðn-, tækni- og verkfræðingar séu vel að sér í umhverfis- og vistfræði og geti nýtt sér náttúrulegar lausnir við hönnun og byggingu nýrra mannvirkja. Umhverfisvernd, líftækni, lágkolefnaferlar, hugvit, djúp þekking á vistfræðilegum ferlum; ný hugsun. Ef við náum því, þá verður framtíðin Björt.
Höfundur skipar annað sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi.