Nú hafa krónískir krónumenn gripið til þess ráðs að boða myntráð, currency board, í þeirri vonlausu baráttu að viðhalda krónunni. Myntráð er í sjálfu sér ekkert annað en fastgengisstefna, sem reynd var hér frá því um 1990 og fram til 2003 og gekk ekki vel. Var þá tekin upp flotgengisstefna vegna trúar á svonefndan markað, þar sem eftirspurn og framboð á markaði átti að tryggja rétt gengi krónunnar. Þetta endaði með stórslysi, í hruninu haustið 2008. Myntráð var nokkuð vinsælt um miðbik tuttugustu aldar, en eftir ófarir Argentínska myntráðsins frá 1991 til 2001 hafa vinsældir þess dvínað mjög. Dæmin úr íslenskri sögu sýna að hvorki myntráð eða flotgengi eru líkleg til að gagnast Íslendingum.
Þeir sem hagnast á krónunni eru þrír aðilar í grófum dráttum, útgerðarmenn, heildsalar og bankar en þeir sem tapa eru launamenn, sem fá krónur í laun sem hafa afar sterka tilhneigingu til að rýrna. Svo er komið að þeir sem vaða í gjaldeyri, flytja gjarnan fjármagnið úr landi af ýmsum ástæðum, í skattaskjól, fela þýfi og/eða mútur svo eitthvað sé nefnt. Gera má ráð fyrir að myntráð eða fastgengisstefna geti hægt á sveiflum gjaldmiðils til að byrja með, en fljótlega munu koma upp háværir kórar útgerðarmanna sem heimta lægra gengi. Þeim hefur hingað til verið hlýtt.
Aðalgalli við myntráð er ekki léleg gengisstýring heldur vantrú erlendra fjárfesta á myntráðskrónu. Erlendir fjárfestar munu seint koma með milljarða til að fjárfesta á Íslandi ef þeir þurfa að skipta öllu yfir í krónur. Verst er þó að erlendir bankar og tryggingafélög munu heldur ekki bjóða oss þjónustu sína, sem er einmitt forsenda þess að vextir lækki hér. Forsenda þess er að við tökum upp stöðugan alþjóðlegan gjaldmiðil. Þá fyrst lækka vextir, myntráð dugar ekki til þess.
Ef menn þyrðu að yfirgefa þrælsóttann við þá sem féfletta almenning með gengisfellingum og gengissigi, og tækju upp Bandaríkjadal eða Kanadadal svo dæmi sé tekið, fengju menn um leið gjaldmiðlafrelsi, sem útgerðarmenn og heildsalar njóta einir nú. Ég hef áður leitt að því líkur að það þyrfti ekki að taka lengri tíma en 24 tíma að taka upp Kanadadal sem lögeyri samhliða krónu í fyrstu. Síðan gætu menn skipt yfir í evrur ef trúarbrögð þeirra standa til þess. Upptaka evru sem lögeyris tekur trúlega ekki undir 15 ár, ásamt inngöngu í ESB, hið brennandi hús.
Myntráð eða fastgengisstefna gæti hins vegar verið undirbúningur fyrir innleiðingu gjaldmiðlafrelsis.
Höfundur er lektor í hagfræði.