Um daginn rakst ég á (tiltölulega) stutta grein í októberhefti HBR eftir Dacher Keltner sem ber heitið „Don´t Let Power Corrupt You“.
Mér fannst eitthvað svo viðeigandi að vekja athygli á henni og fara í stuttu máli yfir efni hennar – ekki síst þegar líður að því að fjöldi fólks muni á næstunni komast í valdastöður í fyrsta sinn á Alþingi.
Í greininni segist höfundurinn hafa komið auga á truflandi mynstur þau 20 ár sem hann hafi stundað hegðunarrannsóknir (e. Behavioral research).
Þannig sé, að yfirleitt öðlist fólk völd vegna persónueinkenna og aðgerða sem miði að betri hag annarra (s.s. að setja sig í spor fólks, beita samráði, gagnsæi, heiðarleika og miðla upplýsingum). Á sama tíma fari hins vegar að fara minna fyrir eiginleikunum þegar fólkinu finnst það öðlast völd eða komast í forréttindastöðu.
Þannig séu þau valdameiri líklegri til að viðhafa dónalega, sjálfselskulega og ósiðlega hegðun. Þetta fyrirbrigði kallar hann „valdaþverstæðuna“ (eða „-þversögnina“ – e. The power paradox) og fram kemur að hann hafi rannsakað birtingu mynstursins við fjölbreyttar aðstæður og nefnir nokkur dæmi.
Þá kemur það einnig fram að auður og virðingarstöður/prófgráður (e. Credentials) hafi svipuð áhrif. M.a. hafi kannanir í 27 löndum leitt í ljós að auðugir einstaklingar séu líklegri til að segja að það sé ásættanlegt að taka þátt í ósiðlegri hegðun, svo sem að þiggja mútur eða svíkja undan skatti.
Í greininni er þetta útlistað frekar og afleiðingarnar sagðar geta verið víðtækar. Valdbeiting hafi neikvæð áhrif á orðspor stjórnenda og grafi þ.a.l. undan möguleikum þeirra til að hafa áhrif. Hún skapi einnig stress og áhyggjur hjá samstarfsfólki, dragi úr stöðugleika, sköpunargleði, þátttöku og frammistöðu.
En hvernig er þá hægt að vinna gegn þessu?
Keltner bendir á tvö þrep í því sambandi. Hið fyrra sé að þróa sterkari sjálfsmeðvitund (e. Self-awareness) þ.e. að taka eftir og fylgjast með þeim tilfinningum sem vakna við að öðlast völd, en einnig breytingu á eigin hegðun sem því fylgir. Upplifunin geti verið nánast manísk, en auðveldara sé að hafa hemil á sér ef vitundin er til staðar. Hann bendir á nokkrar leiðir til að takast á við það verkefni.
Seinna þrepið felist í að halda áfram þeim samskiptaháttum sem komu viðkomandi í valdastöðuna og leggur hann þar áherslu á þrennt, þ.e. að geta sett sig í spor annarra, sýna þakklæti og örlæti. Hann bendir einnig á nokkrar leiðir í því sambandi. Með því að iðka siðferðislega hegðun sem einkennist af þessum þremur þáttum, megi koma í veg fyrir valdaþverstæðuna.
Þannig sé hægt að kalla fram besta vinnu- og samstarfsandann hjá þeim sem í kringum viðkomandi eru. Sá sem í valdastöðunni er, nyti einnig góðs af hegðuninni í formi betra orðspors, endingargóðs leiðtogahlutverks og ekki síst „Dopamin-ríkrar“ gleði af því að vinna að hagsmunum annarra.
Eiga þessi skilaboð ekki erindi til okkar núna?