Kæri kjósandi!
Það er aldeilis búið að svíkja þig hressilega á þessu kjörtímabili:
Í fyrsta lagi í stjórnarskrármálinu, og það er búið að henda allri þeirri vinnu út á hafsauga. Þar var nokkur hundruð milljónum hent bara sí svona.
Það er búið að svíkja þig í Evrópumálum, þú mátt sem sagt ekki greiða atkvæði um það hvort haldið verður áfram eða ekki og þar með settur ákveðinn punktur í því máli.
Það er alltaf verið að taka af þér valkosti.
Skiptir engu þó 55.000 manns skrifi undir lista, bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokki er gjörsamlega skítsama um undirskrift þína. Þannig sýna þessir flokkar ást sína á lýðræðinu.
Það er líka búið að svíkja þig um afnám verðtryggingarinnar, þessarar ófreskju í íslensku efnahagslífi. Hún verður ekki afnumin á þessu kjörtímabili, eins og dúddarnir Bjarni og Sigmundur lofuðu.
Það er alltaf verið að taka af þér valkosti. Og það er alltaf verið að vernda sérhagsmunina.
Meðferðin á þér, kæri kjósandi, má því líkja við misþyrmingu, eins og sparkað sé í liggjandi mann, þann sem er veikur fyrir. En svo er þér dröslað saman, bara til þess eins að geta sparkað í þig aftur.
Hinn tvíhöfða þurs, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, vill atkvæðin þín til þess að sitja áfram við kjötkatlana og völdin, en þeir gefa þér svo fingurinn þegar kemur að því að standa við þau loforð sem þeir gefa.
Kæri kjósandi: Gefðu nú þessu rugli frí, losaðu þig undan ofbeldinu og prófaðu eitthvað nýtt.
Mig langar að benda þér á að Dögun hyggst setja á fót samfélagsbanka og stöðva spilavítisstarfsemina í ,,þríbankanum". Dögun vill líka allan fisk á markað, svo að kvótakóngarnir sitji ekki allsstaðar við öll borðin, búi til brauðmolana og hirði þá svo sjálfir.
Á heimasíðu Dögunar má gefa að líta yfirlit yfir öll stefnumál okkar og við bjóðum fram í öllum kjördæmum - líka þínu!
Höfundur er í 3ja sæti Dögunar í Kraganum - Suðvesturkjördæmi.