Er Ísland virkilega svo illa statt að það þurfi að endurræsa öll kerfi þess svo þau virki? Það tel ég alls ekki vera. Íslenskt lýðræði stendur fyrir sínu og flestir innviðir eru í grunninn ágætlega hannaðir og geta einnig vel staðið fyrir sínu – Vandamálið er að þeir hafa fengið að drabbast niður undanfarin ár og spilling og sérhagsmunir fárra þess í stað verið ráðandi í grunngerð samfélagsins. Við viljum öll halda í stöðugleika og því er langbest að byggja út frá kjarnanum sem fyrir er og fara af skynsemi og yfirvegun í heildstæðar kerfisumbætur.
Ísland þarf á meiri fagmennsku, betri yfirsýn og vandaðri vinnubrögðum að halda, ekki síst á Alþingi, sem og í og á milli ráðuneyta og opinberra stofnana. Kerfin okkar þurfa að vera algerlega gagnsæ og mun tengdari saman innbyrðis svo framlegð og almenn skilvirkni ríkisins aukist til muna. Þar getum við gert svo miklu betur. Allir starfsmenn ríkisins þiggja laun frá sama launagreiðandanum (þjóðinni) og það er því lágmarkskrafa að þeir starfi saman sem heild að aukinni hagsæld og velferð þjóðarinnar.
Alþingi ætti þar að ganga á undan með skýru fordæmi. Alþingismenn þiggja laun sín úr sama ríkisvasanum og fá umboð til sinna verka frá kjósendum. Þeir sem veljast inn á Alþingi eru því í störfum hjá okkur. Það virðist sem margir þeirra gleymi því strax á kosninganótt. Það eigum við ekki að sætta okkur við. Við eigum að krefjast þess að ráðandi stjórnvöld setji fram heildstæða og skýra framtíðarsýn Íslands og um hana náist þverpólitísk sátt. Aðeins þannig byggjum við upp grunn að langtíma stöðugleika sem ekki verður hægt að kollvarpa á fjögurra ára fresti. Við eigum líka að krefjast þess að vinnubrögð á þingi einkennist af gagnsæi og fagmennsku. Öll ákvarðanataka á að byggja á hlutlausum sérfræðiupplýsingum og að hagsmunir heildarinnar ráði umfram sérhagsmuni.
Ráðuneyti og stofnanir ríkisins virðast svo hvert og eitt rekið sem sérstök eining sem gætir fyrst og síðast sinna eigin hagsmuna. Það er hvorki faglegt né boðlegt. Við erum fá með mörg verkefni og því þurfa allar hendur að vinna saman. Það þarf að stórauka samstarf og samvinnu þvert á ráðuneyti og ríkisstofnanir þannig að málaflokkarnir ráði för, ekki innri hagsmunagæsla kerfisins.
Sem dæmi má nefna að heilbrigðiskerfið þarf til að mynda að vera skipulagt sem ein eining á landsvísu og tryggja þarf samnýtingu og samvinnu innan þess, ekki síst á milli Landsspítala og sjúkrastofnana úti á landi. Það er ekki svo í dag. Landbúnaðarkerfið þarf að vera beintengt áætlunum sem snúa að eflingu dreifbýlisins, svo sem byggðastefnu, atvinnuþróunarfélögum og öðrum slíkum og styrkjakerfi kerfisins þarf að vera opið svo nýsköpun geti átt sér stað innan þess. Það er ekki svo í dag. Umhverfis og náttúruvernd eiga síðan að vera grunnstef í allri stefnumótun stjórnvalda; hvort sem það er á sviði auðlindanýtingar, menntunar, efnahags, lýðheilsu eða velferðar. Það er ekki svo í dag.
Þessu öllu þarf að breyta og ég tel Bjarta framtíð vera það stjórnmálaafl sem hefur þann innri styrk og ró sem þarf í þá vegferð. Af hverju? Jú, Björt framtíð vill skýra langtímasýn og viðvarandi stöðugleika. Björt framtíð hefur þá sérstöðu að þiggja enga styrki frá fyrirtækjum og er því óháð sérhagsmunum að öllu leyti. Björt framtíð er frjálslynt og umbótasinnað grænt miðjuafl sem allt síðasta kjörtímabil vann af fagmennsku, yfirvegun og festu og vill gjarnan fá að halda þeirri vinnu áfram fyrir þjóðina.
Breytum kerfinu og kjósum okkur Bjarta framtíð.
Höfundur skipar annað sætið á framboðslista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi.