Í dag, á Alþjóðadegi gegn kynbundnu ofbeldi, segjum við: nóg komið. Enn er algengt að konur og stúlkur, innan og utan Evrópusambandsins, verði fyrir ofbeldi. Um allan heim sæta konur og stúlkur enn barðsmíðum heima við, kynferðislegri og efnahagslegri misnotkun, eru misnotaðar á götum úti og á vinnustöðum, á netinu og við íþróttaiðkun, þeim nauðgað, þær limlestar eða neyddar í hjónaband. Ein af hverjum þremur konum í Evrópusambandinu hefur upplifað einhverja gerð kynbundins ofbeldis. Við getum ekki hunsað hinar geigvænlegu afleiðingar þessa á fjölskyldur, samfélög og hagkerfið.
Innan Evrópusambandsins þarf að gera meira til að uppræta allar gerðir ofbeldis gegn konum. Yfir fjórði hver íbúi Evrópusambandsins telur kynlíf án samþykkis geta verið réttlætanlegt. Yfir fimmti hver Evrópubúi telur að iðulega skáldi konur eða ýki lýsingar á misnotkun og nauðgunum. Þolendur ofbeldis tilkynna glæpinn oft ekki og stundum eru vitni treg til að grípa inn í. Í sameiningu verðum við að takast á við þetta, og þær staðalímyndir sem grafa undan röddum kvenna, og sýna að ofbeldi gegnum konum er óásættanlegt og verður ekki liðið.
Frammi fyrir átökum og neyðarástandi eru konur og stúlkur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þegar ofbeldi, kúgun, mansal, misnotkun og annað kynbundið ofbeldi eykst. Afleiðing þess er að milljónir kvenna og stúlkna neyðast til að yfirgefa heimili sín. Á faraldsfæti, eða í leit að vernd í flóttamannabúðum, mæta þessar konur og stúlkur enn aukinni hættu á ofbeldi frá öðru farandfólki, smyglurum og jafnvel yfirvöldum þriðju landa. Nánast öll fórnarlömb mansals til kynferðislegrar misbeitingar innan ESB eru konur og stúlkur sem koma þangað frá þriðja landi eftir hættuferð.
Við vinnum þrotlaust að því að breyta þessu. Mannúðarverkefni okkar í tengslum við kynbundið ofbeldi munu ná til allt að 3,4 milljóna kvenna, stúlkna, drengja og karlmanna víða um heim. Innan framkvæmdaáætlunar ESB í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi eflum við konur og stúlkur sem sæta misrétti víða um heim, sem haldið er frá skólagöngu, frá vinnumarkaði og frá stjórnmálum, um leið og þær sæta óréttlátum lögum og reglum um erfðamál, ríkisborgararétt og eignarhald á landi. Árið 2017 munum við veita þolendum ofbeldis á afskekktum og viðkvæmum svæðum sérstakan stuðning.
Þá eflir ESB um þessar mundir aðgerðir til að tryggja þeim konum og stúlkum sem koma til Evrópusambandsins á flótta undan átökum, ofsóknum, óstöðugleika og fátækt, aðgang að heilbrigðisþjónustu, lögfræðiaðstoð, viðeigandi áfallahjálp, sálfræðiaðstoð og félagslegri umönnun, hafi þær verið þolendur misréttis og ofbeldis.
Í dag ýtir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins úr vör röð aðgerða til að berjast gegn öllum gerðum ofbeldis gegn konum og stúlkum. Við höfum lagt 10 milljónir evra til stuðnings grasrótarverkefna gegn kynbundnu ofbeldi og til stuðnings þolendum þess innan Evrópusambandsins. Markmið okkar er að veita upplýsingar og efla vitund um ofbeldi gegn konum, meðal alls almennings og þess fagfólks sem getur átt þátt í að breyta ástandinu, meðal annars lögreglufólks, kennara, lækna og dómara.
Við verðum, í eitt skipti fyrir öll, að segja nei við þessu skýlausa broti á grundvallarréttindum okkar. Því grípum við í dag til aðgerða. Við tökum höndum saman með aðildarríkjunum til að segja skilið við ofbeldi gegn konum. Allar konur og stúlkur eiga að geta lifað lausar við ótta og ofbeldi, innan Evrópusambandsins og um allan heim.
Höfundar eru Frans Timmermans, fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Federica Mogherini, æðsti talsmaður Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum, Johannes Hahn, framkvæmdastjóri nágrannastefnu Evrópusambandsins og aðildarviðræðna, Neven Mimica, framkvæmdastjóri alþjóðasamstarfs og þróunar, Dimitris Avramopoulos, framkvæmdastjóri innflytjenda- og innanríkismála, Christos Stylianides, framkvæmdastjóri mannúðaraðstoðar og krísustjórnunar, Věra Jourová, framkvæmdastjóri réttlætis-, jafnréttis- og neytendamála, Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri mennta- og menningarmála, auk íþrótta, og Julian King, framkvæmdastjóri öryggismála, undirrita þessa yfirlýsingu.