Eitt af aðal markmiðum GDS2017 er að leggja áherslu á hvernig darknet markaðir hafa áhrif á vímuefnanotkun fólks.
Vinsældir darknet markaða eða „cryptomarkets“ hafa aukist undanfarin fimm ár, síðan Silk Road fór í loftið í febrúar 2011. Talið er að aðeins 4% veraldarvefsins sé aðgengilegur og hægt að fletta upp með hjálp leitarvéla. Restin hefur verið kölluð the deep web, meirihluti efnis þar eru þó ekki heimasíður heldur gögn sem almenningur á ekki að komast í, t.d. gagnasöfn eða tölvupóstar einstaklinga og fyrirtækja. En lítill hluti af deep web eru heimasíður, sem með réttum aðferðum, eru aðgengilegar. Þær finnast ekki með hefðbundnum leitarvélum heldur þarf sérstakan vafra (t.d. Tor) og sérstaka slóð, þessi hluti veraldarvefsins er oft kallaður the darkweb. Það hentuga við þennan hluta veraldarvefsins er að eigendur markaða, ásamt viðskiptavinum og sölumönnum, geta með réttum aðferðum, haldið nafnleysi sínu þar sem IP tölur eru ekki skráðar. Greitt er fyrir kaupin með netgjaldmiðlinum Bitcoin, sem einnig, ef notaður er rétt, getur verið nokkuð órekjanlegur.
Síðan fyrsta gagnasöfnunin fór í gang árið 2011, hefur Global Drug Survey mikið fylgst með þróun darknet markaða. Í fyrstu var lögð áhersla á þróun þeirra og þá kosti sem fólk sér við að versla vímuefni með þessum hætti, GDS áttaði sig fljótlega á því að vímuefni og veraldarvefurinn hafa sterk tengsl. Þó sum lönd hafi reynt að vinna gegn því að fólk fari að notast við þessa kaupleið, benda gögn GDS til mikillar aukningar milli ára. Þrátt fyrir að upp hafi komist um svindlsíður og innistæður hafa glatast, virðist það ekki hafa mikil áhrif á áhuga. Aukið úrval, betri gæði, einkunnakerfi sölumanna og hentugleiki eru þær ástæður sem kaupendur hafa gefið upp fyrir notkun hingað til og ef marka má þróun undanfarinna ára, má ætla að vinsældir haldi áfram að aukast.
Þó að GDS og fleiri hópar hallist að þeirri kenningu að netmarkaðir auki samfélagslega ábyrgð með auknum upplýsingum og spjallþráðum tileinkuðum skaðaminnkun, hefur ekki verið rannsakað nógu ítarlega hvaða áhrif aukið aðgengi að ódýrari/hreinni vímuefnum geti haft á vímuefnanotkun fólks. Rannsóknir benda til að aukið aðgengi að ódýru áfengi leiði til meiri vandamála fyrir einstaklinga og þjóð. Því má ætla að það yrði ekki mjög frábrugðið með vímuefni, en það þarf að rannsaka frekar.
Hingað til hafa ekki nógu margir á Íslandi tekið þátt til að greina megi gögnin. Gagnasöfnunin er mjög nákvæm og gefur ítarlega mynd af hverjum þátttakanda sem þýðir að sviðið sem má rannsaka er mjög breytt og gætu gefið okkur áður óþekktar vísbendingar um vímuefnanotkun íslendinga,ef þátttaka er góð. GDS2017 er komin í loftið og hvet ég alla þá sem hafa áhuga á frekari rannsóknum á þessu sviði til þess að taka þátt.
Baldur Jón Gústafsson, fulltrúi Global Drug Survey á Íslandi, þýddi greinina.