30. nóvember 2015
Húsnæði myndlistardeildar Listaháskóla Íslands: Almar, 23 ára, skríður inn í plastkassa. Nakinn.Þannig lauk síðasta ári. Íslenska þjóðin starði á nakinn mann í kassa. Hún horfði á hann pissa og éta og og lesa og talaði svo um það við ömmu sína. Sumum okkar fannst lítil reisn yfir því þegar nakti maðurinn í kassanum skeit í dall í beinni útsendingu. Eða þegar hann fróaði sér – þá var nokkrum okkar nóg boðið. En samt héldum við áfram að horfa. Við erum þolinmóð þjóð.
Gjörningurinn stóð yfir í viku. Engum varð meint af.
11. mars 2016
Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu: Inn í viðtal sænska blaðamannsins Sven Bergmans við Sigmund Davíð Gunnlaugsson gengur Jóhannes Kr. Kristjánsson og við þurfum virkilega að bíta á jaxlinn. Það er pínlegt að stara á Sigmund sem starir sjálfur stjarfur inn í myrkrið sem hrekur hann loks á fætur. Hann gengur út úr viðtalinu.
Ég lái honum það ekki. Þetta hefur verið óbærilega óþægilegt, á svona augnabliki getur verið gott að ganga út undir bert loft, draga andann djúpt og vera frjáls undan sjálfum sér nokkur andartök.
En þegar Sigmundur Davíð gekk út úr viðtalinu við Sven Bergman gekk hann ekki út undir himininn. Hann gekk inn í kassa.
Keisarinn í kassanum
Kassinn er rammgerðari og þrengri en sá sem Almar hírðist í undir vökulu auga þjóðarinnar. Kassinn er búinn til úr heift og beiskju og bundinn saman með bloggfærslum. Þar inni er ekkert pláss fyrir stafla af pítsakössum og pissflösku. Þar er aðeins pláss fyrir einn mann og eina vindmyllu sem fáir hafa séð en stundum heyrum við lágt spunahljóðið í henni og daginn eftir birtist aðsend grein í Mogganum.
Flest okkar dáðust að þrautseigju Almars. Hann var heila viku í kassanum og það var meira en nóg. Hvernig hefði þetta farið hefði hann verið þarna í tvær vikur? Eftir mánuð hefði hann örugglega misst vitið. Vika er langur tími í kassa.
Nú hefur Sigmundur slegið metið. Gjörningurinn hefur staðið yfir í tæpa tíu mánuði. Eðlilega hefur hann ekki mætt mikið á þing lokaður þarna inni en hann hefur skrifað þeim mun meira í blöðin. Nú síðast grein í Morgunblaðið þar sem hann fer fram á afsökunarbeiðni frá Ríkisútvarpinu vegna umfjöllunar um aflandsfélag í eigu konunnar hans. Þar rifjar hann upp viðtalið fræga sem hann segir nú að sé raunar uppspuni frá rótum. Það hafi verið sundurklippt. Tæknibrellum og „svörtum filter“ hafi verið beitt til að blekkja þjóðina og í leiðinni umheiminn. Nú veit ég ekki hvað svartur filter er, en mér finnst það merkilega góð lýsing á því hvernig útsýnið úr kassanum hans Sigmundar hlýtur að vera.
Að skríða út
7. desember 2015 skreið Almar út úr kassanum í beinni lýsingu Gumma Ben á Vísi.is. Við fögnuðum. Okkur var öllum létt. Vissulega hafði verið spennandi að fylgjast með nakta manninum í kassanum en þetta var orðið gott.
Sigmundur Davíð húkir hins vegar enn í sínum kassa. Og hann ætlar ekki að koma út fyrr en fréttastofa RÚV sendir honum afsökunarbeiðni. Það mun auðvitað aldrei gerast. Samt er ekki of seint fyrir Sigmund að skríða út úr kassanum, ganga út undir beran himin og anda að sér fersku lofti. Gummi Ben mun reyndar ekki öskra sig hásan fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, en mörg okkar munu anda léttar.
Keisarinn í kassanum hefur verið nakinn nógu lengi.
Þetta er orðið gott.