Ef fara á í sauma á stefnulýsingu nýrrar ríkisstjórnar þarf mikið rými. Margt er þar ósagt, eitthvað óljóst, annað almennt og túlkanlegt og enn annað bærilega skýrt. Samkvæmt orðum forsvarsmannanna eru velferðarmál í víðum skilningi og innviðir lands og samfélags mál málanna. Eftir vanfjármögnun úrbóta sl. kjörtímabil, í margyfirlýstu góðæri þar sem fjárlagafrumvarp 2017 var samt undir núlli tekjumegin, er deginum ljósara að mikla viðbótarfjármögnun þarf svo koma megi mörgu í betra horf á næstu 1-2 árum. Til þess þarf tugi milljarða króna, sennilega 50-60 milljarða á ári. Þá er ekki gert ráð fyrir t.d. nýjum Landspítala. Aftarlega í stefnulýsingunni er skrifað að nú skuli „verulegar útgjaldaaukningar rúmast innan hagsveiflunnar. Það merkir að verulegan tekjuauka í úrbætur má ekki sækja til einstaklinga og fyrirtækja sem eru meira en aflögufær - og það staðfest með orðum fjármálaráðherra um „engar skattahækkanir“. Hér er sem sagt verið að binda úrbætur við óvissa hagsveiflu í stað þess að láta hagsmuni almennings ráða og sækja fé þangað sem það er til í miklu magni; t.d. hjá því eina prósenti fjármagnstekjueigenda sem tekur við 44% allra fjármagnstekna en þær voru alls 95 milljarðar sl. ár. Eða með komugjöldum eða kolefnisskatti á stórðju eða hærri veiðigjöldum eða...?
Í yfirlýsingunni er opnað fyrir einkavæðingu í menntakerfinu og samgöngum með loðnu orðalagi. Í heilbrigðismálum er hins vegar ekki minnst á „samfjármögnun“ eða „fjölbreyttara rekstrarform“. Það eru loðnu hugtökin sem fela þessi áform um einkavæðingu í hinum málaflokkunum. Aðeins er tæpt á mikilvægum og jákvæðum markmiðum, m.a. „góðri þjónustu óháð efnahag“. Því er nefnilega þannig varið að einkavæðing í heilbrigðisþjónustu er nokkuð á veg komin og skv. lögum um ríkisfjármál er unnt að halda henni áfram án þess að slíkt komi inn til meðferðar Alþingis.
Í plagginu eru jákvæð orð í garð innflytjenda, flóttamanna og fólks utan EES sem leitar hingað til vinnu en ekkert um þróunaraðstoð, aðeins neyðaraðstoð. Við erum ein nískasta þjóð heims í þessum efnum með 0,24% af vergri þjóðarframleiðslu (2015) í stað viðmiðunar nágrannaþjóða og markmiða SÞ sem er 0,7%. Er ekki þarna einn lykillinn að betri möguleikum fólks í fjarlægum löndum til að efla eigin hag? Eigum við ekki að gera betur?
Svokallaður stöðugleikasjóður er ágæt hugmynd til umræðu og útfærslu. Tekjur í hann hljóta að verða að vera úr nokkrum áttum en ekki aðeins úr afrakstri af orkuauðlindum eins og ríkisstjórnin vill. Vegna orðfæðar getur mann grunað að þarna sé verið að opna smugu á raforkútflutning til Bretlands (þótt við séum ekki aflögufær næstu árin, hvað sem seinna kann að verða) eða ýtt undir væntingar um gróða úr hugsanlegri olíuvinnslu við Jan Mayen. Nú getur nýr umhverfisráðherra spáð í umhverfishlið þessa síðarnefnda gjörnings og vegið á móti orðum um sjálfbærni, grænt hagkerfi og andóf gegn loftslagsbreytingum. Hún veit væntanlega að samkvæmt alþjóðlegu mati á ekki snerta við nema þriðjungi þekktra birgða jarðefnaeldsneytis ef á að takast að koma böndum á hlýnun á veraldarvísu. Ýmislegt í umhverfismálastefnunni er jákvætt og stuðnings vert þegar í ljós kemur hvað í henni felst, t.d. í aðgerðaáætlun vegna Parísarsamkomulagsins, stöðvun frekari fjárfestinga í mengandi, orkufrekum iðnaði og í áætlun um vernd miðhálendisins.
Aflamarkskerfið í sjávarútvegi er sagt hafa sannað gildi sitt og m.a. „tryggt sjálfbærni fiskveiða“. Það er nálægt réttu ef horft er einungis til ástands fiskistofna, þ.e. náttúruþáttar sjálfbærninnar. En alls ekki ef litið er á hina óaðskiljanlegu þætti hugtaksins: Hagrænnar sjálfbærni og félagslegrar sjálfbærni. Kvótakerfið hefur hvorugt tryggt, sbr. afar ójafna dreifingu hagnaðar af auðlindinni til fólks og hún hefur beinlínis aukið á félagslegt óréttlæti sé t.d. horft til illa farinna byggða um allt land. Hvað könnun sem boðuð er á markaðstengingu í greininni boðar, á eftir að koma í ljós, nái flokkarnir saman um stefnumörkun þar. Hver verður landsbyggðarprófíllin þar?
Í landbúnaði er sumt gamalt efni. Þar á að framfylgja lögum og þar með endurskoðun búvörusamnings sem til varð í fyrra (raunar andstætt Bjartri framtíð) og halda sem öflugastri matvælaframleiðslu uppi. Sjáum til með hvað það inniber. Í umhverfismálum landbúnaðar virðist sjónum helst beint rekstri býla og kannski landnýtingu en ekki að öðrum þætti þeirra: Umhverfisþætti matarinnflutnings og þeim háttum sem hafðir eru á dreifingu matvöru í
landinu. Hún einkennist af samþjöppun verslunar og afurðavinnslu, linnulausum og miklum flutningum innan- og utanlands og löngum leiðum okkar flestra til kaupa matvæli. Löngu er tími til kominn að horfa á alla matvælaframleiðslu i hnattrænu samhengi. Hagur neytenda telst ekki bara í krónum heldur líka í grænum áherslum. Hann byggir ekki einungis á góðu vöruúrvali heldur einnig á heilnæmri og hreinni gæðavöru. Hagnaður innflytjenda og verslunar eru ekki eitt helsta markmið samfélagsins heldur líka skynsamlegar náttúrnytjar og orkusparnaður.
Ferðaþjónustunni er gert lágt undir höfði í stefnuyfirlýsingunni og veikri Stjórnstöð ferðamála ætlað að koma í stað löngu tímabærra skipulagsbreytinga sem varða lög um ferðaþjónustu, ýmsar stofnanir og nýtt ráðuneyti. Engar verulegar tekjumarkanir koma fram og þegar rætt er um samhæfingu er óljóst hvað gera á í málefnum þjóðgarða. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, endurskipulagning björgunarsveita og landvörslu eða skilgreiningar á þolmörkum staða, svæða og landsins alls sést varla staður. Ferðamenn verða sennilega komnir nálægt 4 milljóna markinu, rífleg tvöföldun miðað við 2016 við lok starfstíma stjórnarinnar, sitji hún allt kjörtímabilið. Bílastæðagjöld eru nefnd og mætti þá biðja um annað og meira í umfjöllun um höfuðatvinnuveginn.
Þessi grein tæpir á ýmsu og víst að ríkisstjórninni verður ekki létt að fullnusta það sem ýjað er að eða sagt fullum fetum. Þar kemur til dæmis að augljósri frjálshyggjukenndri hægri stefnu hennar og naumum meirihluta. Stjórnarandstaðan mun vonandi bera gæfu til að berjast á móti því sem er andstætt hag og lífsskilyrðum þorra fólks. Um leið verður hún að styðja það sem er stuðnings virði en vafalaust verður stjórninni ekki gert kleift að semja við einstaka flokka eða þingmenn - hún mætir býsna samstæðri andstöðu fjögurra flokka. Í þá stöðu kom hún sér sjálf með ófullnægjandi eða rangri stefnu í sumum höfuðmálum, og við innmúrun Viðreisnar í Bjarta framtíð, eða öfugt.
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.