Hafi einhver haldið að Hrunið hafi kennt Viðskiptaráði, eða því liði sem gefur tóninn fyrir þess hönd, eitthvað þá skjátlast mönnum hrapalega. Græðgiskapítalisminn lifir þar enn góðu lífi og ríður nú síðast húsum í úttekt á vegum ráðsins á opinberum húsakosti og tillögum um einkavæðingu á því sviði.
Allt er það auðvitað klætt í gamalkunnan dulbúning hagræðingar nema hvað að nú hefur gagnsæi bæst við sem einn af kostum einkavæðingar. Auðvitað hljóta allir að sjá hversu bráðhagkvæmt það er að ríkið selji undan sér svo til allt húsnæði sem þarf til að hýsa stjórnsýslu og veita opinbera þjónustu. Náttúrulega bíða í röðum góðhjartaðir riddarar sem beinlínis ætla að borga með því að sjá ríkinu fyrir húsnæði í staðinn. Fasteignafélögin eru alþekkt að gagnsæi í sínum störfum bæði hvað varðar ákvarðanir um leiguverð og eins eigið eignarhald. Eða hvað? Trúa mennirnir sjálfir þessu kjaftæði?
Alþingi eignast sína eigin byggingu á 25 árum
Á vegum Alþingis er nú verið að fara af stað með nýbyggingu sem mun hýsa nefndarsvið Alþingis, skrifstofur fyrir þingmenn og þingflokka og ýmsa stoðþjónustu við þingstörfin. Ástæða þess að ráðist er í nýbyggingu á vegum Alþingis er að það fyrirkomulag sem þingið hefur búið við að þessu leyti undanfarin ár, þ.e. að leigja á mörgum stöðum í kvosinni misgott og fokdýrt húsnæði , er algerlega gengið sér til húðar. Gerð var vönduð athugun á því hvort langtímaleiga af einum aðila sem um tíma leit út fyrir að gæti verið í boð væri hagstæður kostur borið saman við að reisa eigin byggingu.
Niðurstaðan var afdráttarlaus og um hana voru allir sammála, fjármálaráðuneytið, framkvæmdasýslan og Alþingi. Nýbygging var svo miklu hagstæðari kostur heldur en að leigja að á um það bil 25 árum eignast Alþingi sitt eigið hús og á það skuldlaust fyrir ígildi leigu yfir sama tímabil. Er þá ónefnt hagræðið af því að búa um starfsemina í húsnæði sem gagngert er hannað til slíkra nota auk þess sem það er auðvitað ekki samboðið Alþingi að vera á hrakhólum með sína starfsemi og jafnvel á köflum leigjandi heilsuspillandi húsnæði á okurverði. Vissulega eru aðstæður sérstakar í Kvosinni og leiguverð hátt þannig að ekki er endilega málefnalegt að yfirfæra útkomuna úr þessu dæmi yfir á aðra starfsemi ríkisins og hvar sem er.
Eignarhaldsfélagið Fasteign
En þá vill svo til að hægt er að skoða nýlega reynslusögu þar sem sú leið sem Viðskiptaráð er að boða var svo sannarlega farin. Það er saga eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem keypti af allmörgum sveitarfélögum fasteignir eða byggði í öðrum tilvikum til þess svo að sjá um rekstur þess húsnæðis og leigja sveitarfélögunum. Hér skal mönnum hlíft við að rekja þá sögu og útkomuna hljóta menn að þekkja. Það hefur ekki hvarflað að Viðskiptaráði að gera fyrst úttekt á reynslunni af Fasteign? Eða hvað Háskólinn á Akureyri og ýmsar stofnanir hafa mátt borga í húsaleigu í Borgum, húsinu sem illu heilli var byggt þar í einkaframkvæmd? Jú kannski hafa þeir velt því fyrir sér en svo fljótlega séð að það yrði málstaðnum ekki til framdráttar. Þeim málstað að færa sífellt út landamærin fyrir gróðaöflin, finna sífellt nýja bithaga og helst á kostnað skattgreiðenda fyrir hið sísvanga auðmagn. Auðinn þarf jú að ávaxta þannig að hið litla brot landsmanna sem að uppistöðu til á hann geti orðið enn ríkara.
Það er skoðun undirritaðs að þessi framganga Viðskiptaráðs sé andfélagsleg, siðlaus. Tilgangurinn helgar svo augljóslega meðalið. Þegar horft er fram hjá augljósum staðreyndum og dómi reynslunnar í framsetningu efnis af þessu tagi af samtökum eins og viðskiptaráði á ekki að tala neina tæpitungu. Eða hvað er það að nota sem röksemd fyrir því að ríkið eigi að selja sitt húsnæði og taka til við að leigja af öðrum að innri leiga stofnana í opinberu húsnæði til ríkisins sé undir helmingi af leigu á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu? Viðskiptaráði dettur ekki í hug að sú útkoma sýni einmitt að það sé hagkvæmara að ríkið eigi sitt húsnæði sjálft? Nei, þar á bæ fara menn létt með að snúa þeirri röksemd á haus.
Viðskiptaráði er guðvelkomið að stefna mér fyrir meiðyrði ef ráðamenn þar telja þetta stór orð. Það gætu þá orðið áhugaverð skoðanaskipti í réttinum, skoðanaskipti sem lítið fer fyrir endranær enda ekki mikið til siðs að bjóða öndverðum sjónarmiðum til samtals þar á bæ sbr. til dæmis dagskrá væntanlegs Viðskiptaþings.
Upp er boðin Hóladómkirkja
En fyrir eitt má hrósa Viðskiptaráði. Það er hversu hreint og ómengað það setur fram sitt markaðsvæðingar-, græðgis- trúboð. Það að leggja til einkavæðingu sjálfrar Hóladómkirkju gætu einhverjir sjálfsagt kallað kjarkað, aðrir yfirgengilega firrt eða galið. En ómengað er það og væri gaman að vita hvernig sá boðskapur fer almennt ofan í menn, t.d. á skagfirska efnahagssvæðinu.
Höfundur er þingmaður Vinsti grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra.