Ef hlustað er náið eftir orðavali íslenskra stjórnmálamanna nú á dögum er nærtækt að álykta sem svo að menn hafi sérstakt dálæti á frjálslyndi. Í þessu ljósi er ekki nema eðlilegt að staldrað sé við og hugað nánar að inntaki og merkingu þessa hugtaks.
Samhliða undirritun stjórnarsáttmálans 10. janúar sl. kom fram að fulltrúar stjórnarflokkanna væru bæði „glaðir“ og „stoltir“ af því sem vísað var til sem „einhvers frjálslyndasta stjórnarsáttmála“ sem gerður hefur verið á Íslandi. Vel að merkja eru það þó ekki aðeins stjórnarflokkarnir þrír sem vegsama frjálslyndið, því áherslur í kosningabaráttu allra núverandi þingflokka skírskotuðu bæði beint og óbeint til frjálslyndis. Meðal annars með vísan til samhljóms í þessum efnum heyrast þær raddir að upp séu runnir nýir tímar þar sem aðgreining milli hægri og vinstri í stjórnmálum sé ekki bara „gamaldags“ heldur „úrelt“. Á okkar hraðfleygu tímum eru líklegast fá uppnefni verri en að kallast „gamaldags“, hvað þá „íhaldssamur“. Kannski er þetta ein meginástæða þess að þeir sem vilja gera sig gildandi kjósa að lýsa áherslum sínum á þann veg að þær séu nútímalegar, framsæknar, umbótasinnaðar eða byggðar á nýjustu tækni. Þótt slíkt orðaval kunni að vera sett fram í von um að finna víðan hljómgrunn ber okkur að hafa hugfast að þau frjálslegu orð sem hér voru tilgreind í dæmaskyni skortir sjálfstætt inntak og gefa því engin efnisleg fyrirheit um glæsta framtíð. Í reynd gætu þau allt eins verið ávísun á verstu ófarir.
Vissulega má telja það fagnaðarefni að stjórnmálamenn geti sameinast um góð mál og fagrar hugsjónir. Hinu má þó ekki gleyma að þegar ráðandi meirihluti er allur stokkinn á einn hugmyndavagn er viss hætta á að viðkomandi hugmyndafræði sé hampað óhóflega og að merkisberar stefnunnar, sem eftir atvikum kunna að telja sig hafa höndlað einhvern endanlegan sannleika og jafnvel siðferðilegt lögmæti í krafti meirihlutavalds, ástundi skoðanakúgun á sínum forsendum. Lýðræðislegt stjórnarfar byggist á því að slík einstefna keyri ekki úr hófi með þeim afleiðingum að sjálfstæð hugsun sé drepin í dróma. Það er gömul saga og ný að engri hugmyndafræði er hollt að ríkja án mótvægis og aðhalds, m.a. í formi breiðrar málefnalegrar rökræðu.
Í fljótu bragði virðist sem hugmyndafræði frjálslyndisins miði við einstaklinginn sem grunneiningu í öllu pólitísku og lagalegu samhengi. Í samræmi við það má raunar fullyrða að íslenskt samfélag – og raunar flest vestræn samfélög – litist nú á tímum af kröftugri einstaklingshyggju. Meginstef frjálslyndisins eru á þessa lund: Einstaklingurinn er frjáls; hann er óheftur af hvers kyns siðferðislegum þvingunum og óbundinn af samfélagslegum hefðum; einstaklingurinn hefur valkosti og stjórnmálin leggja sig fram um að fjölga valkostunum; frjálslyndið leggur einnig ríka áherslu á jafnræði einstaklinganna og sjálfræði hvers og eins. Í stuttu máli skal hver og einn maður eiga sjálfstæðan rétt til að móta tilveru sína að eigin vild.
Frelsi skal það heita og auðvitað erum við öll hlynnt frelsinu. Hinu má þó ekki gleyma að frelsið er einnig margrætt hugtak og tilefni þessa pistils hér er í stuttu máli að gera vissa fyrirvara við þá mynd af frelsinu sem dregin var upp í síðustu málsgrein hér að framan.
Að sjálfsögðu eru brýnir hagsmunir hvers einasta manns fólgnir í því að vera laus undan ánauð, harðstjórn, undirokun, kúgun og þrældómi. Með sama hætti er mikilvægt að vald safnist ekki á of fáar hendur. Frjáls markaður, sem er laus úr viðjum hafta og viðskiptahindrana, hefur sannað gildi sitt á sviðum þar sem handstýring hafði á fyrri tímum ekki gefið nægilega góða raun. Það hefur þó óneitanlega sýnt sig að óheft markaðshyggja er engin töfralausn á öllum mannlegum vanda. Að því sögðu skal hér áréttað að við megum heldur ekki hafa oftrú á frjálslyndi sem galdraformúlu.
Sú sterka einstaklingshyggja sem lýst var hér að framan beinir athyglinni að frumpörtunum sem sjálfstæðum hlutum í stað þess að leita skilnings með því að skoða einingarnar sem hluta af stærri heild. Þegar einblínt er á atómin, í þessu tilviki einstaklingana, í stað heildarinnar, svo sem með tilliti til fjölskyldu og þjóðfélags, er tekin veruleg samfélagsleg áhætta. Sú áhætta felst í því að heildarmyndin dofni og að sprungur myndist í hinu frjálsa borgaralega samfélagi sem með tíð og tíma verða að illa brúarlegum menningarlegum, menntunarlegum og fjárhagslegum gjám. Ef svo illa tekst til við ástundun „frelsisins“ og menn fara að reisa múra, sjálfum sér til verndar og öðrum til útilokunar, má segja að frelsisáherslurnar hafi grafið undan sjálfum sér. Í raun skiptir þá engu máli hvort aðgreiningarveggirnir eru áþreifanlegir eða óáþreifanlegir.
Í stuttu máli vil ég með þessum pistli vara við yfirborðskenndum frelsisáherslum. Ástæðan er einmitt sú að þær eru yfirborðskenndar en hyggja ekki að því frelsi eða ófrelsi sem hver einasti maður skapar sjálfum sér með hugsunum sínum, orðum og gerðum. Hér erum við komin að viðfangsefni sem liggur á mun dýpra sviði en það frelsi sem fyrr hefur verið gert að umræðuefni. Lausn undan ytri aðstæðum og þvingunum getur ekki talist fullnægjandi markmið, eitt og sér. Ljóst má vera að jafnvel hver sú manneskja sem öðlast hefur efnahagslegt sjálfstæði, líkamlega hreysti, rúman frítíma og full mannréttindi getur verið hörmulega óhamingjusöm og átt ófarsæla ævi. Meðal annars af þessum sökum hafa ýmsir af helstu kennurum mannkyns öldum saman leitast við að beina athygli fólks að því ófrelsi sem stendur manninum næst og tekur sér bólfestu hið innra. Nú á tímum heyrist því sjónarmiði allt of sjaldan hreyft að enginn geti í raun kallast frjáls meðan hann er ofurseldur mannlegum löstum og veikleikum. Frelsið í þessum skilningi byrjar og endar í andlegu lífi mannsins og snýst um það að maðurinn sigrist á illum tilhneigingum sínum og beygi vilja sinn, orð og athafnir, undir það sem Aristóteles kenndi við „dyggðugt líferni“, en aðrir hafa kennt við skynsemi, samvisku o.fl. Í Grikklandi til forna gerðu menn sér glögga grein fyrir breyskleika manna og lögðu hann raunar til grundvallar í heimspeki, lögum og stjórnmálum. Þeir töldu hamingjuna vera markmið mannlegra athafna og að því markmiði mætti ná með dyggðugu líferni. Öldum og þúsöldum saman hefur þessi nálgun haft djúpstæð áhrif á vestræna hugsun um samfélagslegt hlutverk stjórnmála, um siðmótandi hlutverk laga, um réttarríkið – og mannlegt frelsi. Allt byggir þetta á þeirri forsendu að mannskepnan sé ekki fullkomin og að maðurinn geti heldur ekki gert sér vonir um fullkomnun. Þvert á móti þarf maðurinn stuðning, aðhald og leiðbeiningu ef ekki á illa að fara. Í þessu felst einnig viðurkenning á því að maðurinn er háður öðru fólki, að maðurinn þarf að lifa í samfélagi sem byggir á samvinnu en ekki aðeins samkeppni.
Ein mikilvægasta forsenda þess að lífsgæði batni og stoðir samfélagsins séu traustar og að þegnunum líði vel er að hver og ein manneskja axli ábyrgð á því frelsi sem þjóðfélagsskipun okkar veitir henni. Farsæld, stöðugleiki, langtímahagur, friðsæld o.fl. verða ekki best tryggð með því að hver og einn borgari beiti frelsi sínu af þröngsýni, eigingirni, græðgi og hégóma, svo nokkuð sé nefnt. Þvert á móti hljóta grunnstoðir samfélagsins, þ.m.t. virðing fyrir mannslífinu og mannlegri heilsu, vernd eignarréttar og skuldbindingargildi loforða, að byggjast á því að borgararnir taki tillit til náunga síns og geti sett sig í spor annars fólks. Fagurgali stjórnmálamanna um frjálslyndi og valkosti er innantómt hjal meðan ekki er gætt að hinu efnislega inntaki frelsisins sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Til að forðast samfélagslegan siðbrest er aðkallandi að leggja rækt við félagsleg tengsl manna á milli og þau viðmið um gagnkvæmni og traust sem þessi tengsl ala af sér.
Höfundur er lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. [Lengri útgáfa þessarar greinar mun birtast í Tímariti Lögréttu, 2. hefti 12. árg.].