Verkfall undirmanna á fiskiskipaflotanum hófst 14. desember síðastliðinn. Verkfallið kom í kjölfar þess að sjómenn felldu kjarasamning sem fyrir þá var lagður. Nú um sjö vikum síðar virðast deilendur fjær því að ná samkomulagi en við upphaf deilunnar, þvert á það sem ætla mætti. Sé samningsvilji lítill leysast verkföll venjulega þegar annarhvor aðilinn eða báðir átta sig á að kostnaðurinn við áframhaldandi verkfall er þeim sjálfum of dýr.
Verkfallið hefur talsverð áhrif á fjárhag sjávarútvegssveitarfélaga. Hægt hefur á innstreymi útsvarstekna og hafnargjalda. Þessi sveitarfélög geta ekki hægt á greiðslum til grunnskóla- eða leikskólakennara svo dæmi séu tekin. Þau eru því í klemmu. Sömu sögu má segja um fiskvinnslufyrirtæki og önnur fyrirtæki sem þjónusta fiskiskipaflotann. Ýmist er starfsfólk á atvinnuleysisbótum eða í tiltektum og þrifum. Ekkert af þessu skapar fyrirtækjunum tekjur! Verkfallið bitnar þannig með talsverðum þunga á þriðja aðila.
En hvernig bitna verkfallsaðgerðirnar á aðilum deilunnar? Tekjuflæði sjávarútvegsfyrirtækja sem ekki eiga birgðir hægist eða stoppar meðan á verkfallinu stendur. En þar sem þessi fyrirtæki hafa í höndum rétt til að veiða svo og svo mikið magn af fiski er aðeins um seinkun tekjuflæðis að ræða. Félög með góða eiginfjárstöðu eiga auðvelt með að leysa úr þeim fjárhagsvandræðum sem slík seinkun greiðsluflæðis kann að valda. Hugsanlega fæst lægra verð fyrir afurðir vegna tímabundins offramboðs þega verkfall leysist. Verkfallsmenn fá greiðslur úr verkfallssjóðum. Verkfallið leggst því af minni þunga á þá aðila sem eru í verkfalli en á þriðja aðila. Það eru því sterkar vísbendingar um að verkfallið geti staðið nokkrar vikur, jafnvel mánuði, í viðbót.
Forsætisráðherra hefur bent á að í því samningsumhverfi sem íslenskum vinnumarkaði er búinn skorti ríkissáttasemjari tæki og tól til að takast af nægjanlegri festu á við harkalegar deilur á borð við þá sem nú er í gangi. Undir þetta má taka.
Nú eru uppi kröfur frá deiluaðilum þess efnis að ríkisvaldið skerist í leikinn með fjárútlátum og/eða lagasetningu sem yrði ígildi kjarasamnings. Deiluaðilar vilja því varpa ábyrgð á samningslausn á stjórnvöld og geta vissulega vísað til fordæma.
Nú vill svo til að aðkoma stjórnvalda að rekstrarforsendum útgerðar er mun víðtækari en þegar flestar aðrar atvinnugreinar eiga hlut að máli. Árlega fá útgerðarfélög bréf frá Fiskistofu þar sem þeim er úthlutað rétti til veiða ákveðins magns af hinum ýmsu fiskitegundum. Ekkert bannar stjórnvöldum að skilyrða þá úthlutun sem fyrir dyrum stendur 1. september næstkomandi. Þannig gæti ríkisstjórn og Alþingi ákveðið að kvóti næsta árs skerðist um t.d. 5% fyrir hverja viku sem verkfall stendur lengur en 8 vikur. Innkallaðan kvóta mætti síðan leigja út og nota andvirðið eða hluta þess til að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir hvað mestum skaða vegna verkfallsins.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.