Áratugina eftir stríð bjuggu þegar mest var um 2400 manns í braggahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Hverfin voru birtingarmynd áratuga húsnæðiseklu á Íslandi . Braggarnir voru þyrnir í augum almennings.
Verkalýðsfélög knúðu fast á um lausn húsnæðisvandans. Það leiddi til júní-samkomulagsins árið 1965, í tíð Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðis og Alþýðuflokks. Í kjölfar samkomulagsins hófst uppbygging verkamannabústaða og Breiðholtið sá dagsins ljós.
Eftir það fór braggahverfum fækkandi, og hurfu þau að lokum úr borgarlandinu upp úr 1970. Fram eftir öldinni var svo haldið áfram að byggja verkamannabústaði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Fram að og upp úr aldamótunum síðustu var tekin skörp hægribeygja í húsnæðispólítík landsins. Upp úr því var Verkamannabústöðum kippt úr sambandi með einu pennastriki.
Hugtakið „félagslegt húsnæði“ þurrkaðist meira eða minna út úr Íslenskri húsnæðispólítík. Markaðurinn átti allt í einu að útvega öllum ódýrt og hentugt húsnæði. Það gerðist auðvitað ekki. Almenningur sýpur enn seyðið af þessari skammsýnu ákvörðun.
Síðan Verkó var aflagt hefur búseta í iðnaðarhverfum aukist. Á síðastliðnum áratug, eða svo hefur íbúafjöldi í iðnaðarhverfum fjór- eða fimmfaldast, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu.
Þessi hverfi eru fátækrahverfi nútímans, eins og braggaþyrpingarnar forðum daga. Segja má að Braggahverfin hurfu í rauninni aldrei, þau breyttu einungis um mynd. Búsetan dreifðist í iðnaðarhverfi, kjallarakompur, bílskúra, geymslur, og svo framvegis.
Í dag búa á fimmta þúsund manns í fátækrahverfum nútímans á höfuðborgarsvæðinu. Það er um tvöfaldur fjöldi miðað við hámarks íbúafjölda frá braggatímabilinu.
Íbúafjöldinn samsvarar núna Vestmannaeyjum eða Seltjarnarnesi að fólksfjölda til. Í Skandinavíu þekkjast ekki fátækrahverfi af þessu tagi. Þetta er sér Íslenskt fyrirbæri. Þetta búsetuform er ljótur vitnisburður um áratuga sinnuleysi yfirvalda við síversnandi húsnæðisvanda.
Íbúafjöldi braggahverfa nútímans mun margfaldast á næstu árum ef svo fer sem horfir. Ástæðurnar eru augljósar og þarf ekki að tíunda. Á braggatímabilinu var gerð áætlun um lausn vandans og henni fylgt eftir. Í dag er ekki til nein samsvarandi áætlun, þó aðstæður séu fyllilega sambærilegar, jafnvel ýktari en á braggatímabilinu.
Á allra næstu árum vantar frá 5 og upp í 10 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðið, eftir því hver er spurður. Sumir telja þörfina nær 20.000 íbúðum.
Núverandi þing hefur hingað til eytt meiri tíma í áfengismál, en húsnæðismál. Ef húsnæðismál hafa yfirhöfuð verið á dagskrá.
Nú er ný ríkisstjórn reyndar komin með hraðsoðið útspil í húsnæðismálum.
Hún ætlar að setja nefnd í málið. Það gæti verið fertugasta eða fimmtugasta nefndin í húsnæðismálum frá því Verkó var aflagt. Hefðin hefur hingað til verið að setja húsnæðisnefnd og skoða leigumarkaðinn út kjörtímabilið.
Enn fremur ætlar stjórnin að veita 3 milljörðum til uppbyggingar á almennum leiguíbúðum. Fyrri ríkisstjórn veitti 72 milljörðum til efnaðra húsnæðiseigenda. Núverandi ríkisstjórn veitir 3 milljörðum til húsnæðislausra. Þetta er gott dæmi um þankaganginn í Íslenskri húsnæðispólítík. Þrír milljarðar duga fyrir stofnstyrkjum 600 íbúða sem dreifast um landið.
Ef helmingurinn (300 íbúðir) rís á höfuðborgarsvæðinu, tekur um tvo áratugi að mæta þörfinni á svæðinu. Því er ljóst að Íslensku fátækrahverfin muni vaxa og dafna áfram, í boði stjórnvalda.
Nú er bara að sjá hvort ASÍ gleypi sömu beituna tvisvar. Ríkisstjórnin er með frekar þunna húsnæðispólítík. En hún er með þeim mun sterkari áfengispólítík.
Við verðum kannski í húsnæðishraki næstu áratugina.
En hafið ekki áhyggjur.
Dont worry. Be happy.
Bráðum fæst vodka út í búð.
Skál fyrir því.