Árið 2013 tók ég þá ákvörðun að skella mér í eins árs svaðilför til Berlínar. Fljótlega eftir flutninginn komst ég að því að það var algjör óþarfi að eiga bíl enda var samgöngukerfi borgarinnar það vel skipulagt að ef litið var á lestarkort minnti það meira á þéttan kóngulóarvef heldur en leiðakerfi fyrir almenningssamgöngur. Þökk sé þessu góða skipulagi gat ég komist á alla mína áfangastaði inna borgarinnar á stuttum tíma. Það sem kom mér þó sérstaklega á óvart við samgöngukerfið voru næturlestir og næturvagnar sem skemmtanaglaðir borgarbúar nýttu sér óspart á för sinni um næturlíf Berlínar, án þess þó að tæma veskið í rándýrum leigubíl. Þrátt fyrir að miðaverð og mánaðarkort fyrir samgöngukerfið er að meðaltali hærra í Berlín en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu heima á Íslandi, fannst mér það mjög sanngjarnt í ljósi þeirra þjónustu og gæða sem fylgdi lestarmiðanum.
Ég myndi fagna því ef Strætó og borgin tæku það skref að bjóða almenningi upp á næturstrætó um helgar, til og frá miðborg Reykjavíkur. Slík úrbót myndi ekki einungis spara útgjöld handa neytendum heldur getur valmöguleikinn haft ýmsa félagslega kosti í för með sér. Ef seinasti vagn kvöldsins myndi leggja af stað t.d. milli fjögur eða fimm um morguninn, væri það líklegur hvati fyrir skemmtanaglaða borgarbúa til að fara fyrr heim í stað þess að vera að langt fram að morgni enda algjör óþarfi að eyða u.þ.b. 3000 - 5000 kr í leigubíl fyrir 1-3 auka klukkutíma af skemmtun þegar þú getur komist heim fyrir u.þ.b. 500 kr. Miða við upplifun mína af næturlífi Berlínar gæti næturstrætó einnig verið hvati fyrir fólk til að halda hópin enda er fátt leiðinlegra en að bíða einn í strætóskýli, sérstaklega ef vinahópurinn býr í sama hverfi. Þéttir hópar sem halda saman eru oft fráhrindandi fyrir þau rándýr sem því miður leynast í skemmtanalífi borgarinnar og því getur aukin samheldni stuðlað að auknu öryggi. Til að allt gangi vel fyrir sig þarf einnig að hafa einhverskonar öryggiskerfi í vögnunum t.d. með því að ráða öryggisvörð í hvern vagn sem sér til þess að allt fari vel fram, allir greiði áður en gengið er inn og reglum sé fylgt eftir. Þrátt fyrir að næturstrætó myndi fela í sér auka launakostnað tel ég afar ólíklegt að fyrirtæki myndu upplifa aukið tap í rekstrinum, miðað við raðirnar endalausu sem myndast hjá komustöðum leigubíla.
Þessi hugmynd leysir að sjálfsögðu ekki allan þann samgönguvanda sem við búum við á höfuðborgarsvæðinu, en þetta er klárlega skref í rétta átt. Samfélag sem treystir á gæði og áreiðanleika almenningssamgangna er líklegra til þess að nýta sér það. Til þess þurfum við efla strætókerfið, skoða möguleika við notkun léttvagna, finna fjármagn og skipuleggja raunverulegt val í samgöngum til frambúðar.
Höfundur er nemi í félagsfræði og viðburðastjóri Ungliðahreyfingar Viðreisnar.