Krefjandi aðstæður blasa nú við í hagstjórn í landinu. Þróunin hefur vissulega verið okkur Íslendingum ánægjulega hagfelld um flest undanfarin ár, en nú þurfum við að gæta að okkur. Við erum á sjöunda ári hagvaxtar í röð. Tvö undangengin ár hafa farið saman mikill bati á viðskiptakjörum og ævintýralegur vöxtur ferðaþjónustunnar. Nú bætist einnig við innstreymi vegna aukinna erlendra fjárfestinga í hagkerfinu. Þannig hafa t.d. erlendir aðilar aukið hlut sinn í Kauphöllinni um eina sautján milljarða frá áramótum.
Svo mikið er þetta gjaldeyrisinnstreymi að þrátt fyrir 100 milljarða halla á vöruskiptajöfnuði á síðasta ári er ágætur afgangur af viðskiptum við útlönd í heild.
Þá kunna einhverjir að spyrja: Er þá ekki allt í þessu fína lagi? Er nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut? Er ekki bara um að gera að sjá veisluna, eins og einu sinni var sagt?
Það er nú það. Ef sagan hefur kennt okkur Íslendingum eitthvað, eða ætti að hafa gert, er það að reyna að sjá tímanlega fyrir og áður en það er orðið of seint að grípa í taumana ef ójafnvægi er að hlaðast upp í hagkerfinu.
Ríkisfjármálum hefur verið beitt þannig nú þrjú ár í röð að þau vinna gegn stöðugleika og auka þenslu. Árin 2015 og 2016 fyrst og fremst á tekjuhlið, þ.e. ríkið hefur dregið þannig úr tekjuöflun sinni að það hefur aukið á slakann. Árið 2017, árið í ár, er slakinn að nokkru leyti einnig á útgjaldahliðinni. Samanlagt nemur þessi slaki eða slökun um 2 ½% af vergri landsframleiðslu ef það er skoðað á mælikvarða hagsveifluleiðrétts frumjöfnuðar. Ekki beinlínis skynsamleg hagstjórn það og minnir ónotalega á mistök áranna fyrir Hrun..
Gengi íslensku krónunnar hefur sl. tvö ár hækkað um u.þ.b. 35% gagnvart sterlingspundi og yfir 20% gagnvart evru og langleiðina það gagnvart dollar. Á sama tíma hafa launahækkanir verið umtalsverðar og vextir eru hér einhverjir þeir hæstu á byggðu bóli. Rekstrarumhverfi útflutningsgreina er því gerbreytt. Haldi þessi þróun áfram mun hún hafa mikil ruðningsáhrif.
Minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki, minni ferðaþjónustufyrirtæki, ekki síst þau á landsbyggðinni, með árstíðabundinn rekstur, sprota-, tækni og þekkingarfyrirtæki, þau sem þá ekki bregðast við ástandinu með fótunum og fara úr landi, sjá á einum tveimur árum tugprósenta gjá myndast milli tekna í erlendri mynt og útgjalda í krónum.
Almenningur borgar brúsann að lokum
Alvarlegast er þó auðvitað ef ójafnvægi hleðst upp í hagkerfinu sem á endanum leiðréttist harkalega á kostnað almennings og almennra lífskjara í landinu. Þar liggja skyldur stjórnvalda umfram allt annað, að fljóta ekki áfram sofandi eins og svo oft áður við að einhverju leyti sambærilegar aðstæður þar til almenningur fær að lokum harkalegan skell.
Styrking gengisins undanfarin misseri var eðlileg og jákvæð afleiðing undirliggjandi aðstæðna í hagkerfinu. Áhrifin eru jákvæð hvað snertir lífskjör og verðlag. En því miður kennir sagan okkur að þar getur komið að það verði full mikið eða of mikið af hinu góða. Jafn skaðlegt og snöggt fall gengisins er fyrir verðlags- og kaupmáttarþróun getur yfirskot í hina áttina fljótt hlaðið upp ójafnvægi sem fyrr eða síðar fær útrás, leiðréttist eins og stundum er sagt, með harkalegum hætti og á kostnað almennings. Birtingarmyndin framan af getur falist í lakari kjörum og töpuðum störfum í útflutnings og samkeppnisgreinum en að lokum í gengisfalli með alþekktum neikvæðum afleiðingum.
Það er því mikill misskilningur að áhyggjur af þessari stöðu snúi eingöngu að útflutningsfyrirtækjum og þeirri lífsnauðsynlegu verðmætasköpun sem þau standa vissulega fyrir í þágu þjóðarbúsins. Þannig er það a.m.k. ekki hvað undirritaðan varðar. Það er hin dýrkeypta reynsla okkar sem samfélags, sem þjóðar, sem ég hef því miður allt of oft upplifað á löngum ferli í stjórnmálum, sem kennir að þolandinn af óstöðugleika og óhömdum sveiflum í báðar áttir, er alltaf almenningur að lokum.
Á gulu ljósi
Og þessar sveiflur eru ekkert náttúrulögmál og sjálfstæður lítill gjaldmiðill er engin afsökun fyrir því að takast ekki á við þær. Röng beiting ríkisfjármála eins og að undanförnu þannig að það auki á hagstjórnarvandann í stað þess að dempa hann er mannanna verk. Drifin áfram af hægri-græðgishyggju hugmyndafræði nú sem fyrr. það er einfaldlega mikilvægara og kemur fyrst hjá hægri öflunum að þjóna kreddunni, lækka skatta, og hitt mætir afgangi að vinna gegn því að óstöðugleiki hlaðist upp í hagkerfinu og tryggja þannig langtíma hagsmuni almennings. Brýn og uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingu í innviðum og velferð mætir líka afgangi þegar kemur að kreddunni, sbr. fjármálastefnu og nýframkomna fjármálaáætlun hægri stjórnarinnar. Að mínu mati er hagkerfið íslenska komið af grænu ljósi yfir á gult og gengur hratt á tímann sem við höfum til skynsamlegra viðbragða.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.